18.12.2009

Föstudagur, 18. 12. 09.

Fréttamenn eru á hlaupum í leit að niðurstöðu á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Erfitt er að finna hana, en að lokum verður örugglega barinn saman texti, sem vísað verður til sem árangurs, þótt hann eigi ekkert skylt við samtaka átak til að stöðva hlýnun jarðar með handafli. Æ fleiri sjá raunar, að rökin fyrir hlýnun jarðar eru veik, þegar hiti hefur ekkert aukist síðan 2002 eða jafnvel nokkrum árum lengur.

Í BBC World var haft eftir heimildarmanni í bandarísku sendinefndinni, að tekið hefði verið „historic step forward to be built on later“ - sögulegt skref, sem mætti nýta síðar, einnig var talað um „meaningful agreement“ - mikilsvert samkomulag. Efnisatriðin voru hins vegar sögð óljós og einnig, að ekkert ríki væri ánægt með niðurstöðuna.

Líklegt er, að langur tími líði, þar til jafnmargir þjóðarleiðtogar eða forsætisráðherrar komi saman til að ræða þetta viðfangsefni. Kæmi ekki á óvart, þótt margir þeirra hefðu áhuga á að snúa sér að einhverju öðru.