22.12.2009

Þriðjudagur, 22. 12. 09.

Hvernig ætli því hefði verið tekið, ef Davíð Oddsson hefði sagt, að RÚV hefði misfarið með frétt af áliti breskrar lögmannsstofu um viðkvæmt pólitískt álitamál á hans ábygrð? Hælt breskri lögmannsstofu, sem hann hefði sjálfur ráðið til að starfa fyrir sig? Sagt aðra breska lögmannsstofu, sem gagnrýndi sama mál, lítt þekkta og því ekki nógu góða? Hvað ætli Guðmundur Andri Thorsson, Illugi Jökulsson eða Hallgrímur Helgason hefðu skrifað marga dálksentimetra í hneykslunarskyni eða Þorvaldur Gylfason? Svo að ekki sé minnst á minni spámenn eins og Jóhann Hauksson og Egil Helgason.

Davíð hefði þó haft það sér til málsbóta, að hann er löglærður og kann því að lesa álit af þessu tagi og mynda sér skoðun á þeim. Það verður hins vegar ekki sagt um Steingrím J. Sigfússon, sem nú ræðst þóttafullur eins og sá, sem allt veit, á álit lögmannsstofu í London, af því að hún varar Íslendinga við Icesave-samningunum.

Hið sama gerist nú og jafnan áður, að Steingrímur J. tekur upp hanskann fyrir Breta og Hollendinga, þegar því er hreyft, að Íslendingar gæti málstaðar síns betur og fallist ekki á Icesave-afarkostina.

Í kvöld berast svo fréttir af því, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd alþingis, sem er með Icesave-málið til meðferðar, telji ríkisstjórnarflokkana ekki ætla að standa við samkomulag um meðferð málsins. Kemur nokkrum það á óvart? Ekki þeim, sem hafa áttað sig á því, að Steingrímur J. vill ekki standa við neitt samkomulag í Icesave-málinu en það, sem Svavar Gestsson gerði við Breta og Hollendinga.

Icesave-blekkingarþula Steingríms J. er orðin svo löng, að flestir hafa tapað þræðinum í henni. Í sjálfu sér er það í lagi, ef menn gleyma ekki höfuðatriðinu, að hvorki í stjórnarandstöðu né ríkisstjórn  hefur Steingrímur J, sagt satt orð um Icesave. Það er glæsileg niðurstaða eða hitt þó heldur fyrir hann, svo að ekki sé minnst á íslensku þjóðina.