31.12.2009

Fimmtudagur, 31. 12. 09.

Rétt fyrir miðnætti í gær samþykkti alþingi Icesave-afarkostina með 33 atkv. gegn 30, tveir stjórnarþingmenn, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson, greiddu atkvæði gegn frumvarpi Steingríms J. um ríkisábyrgð.

Á ríkisráðsfundi í morgun tók Ólafur Ragnar sér umhugsunarfrest, áður en hann ákvæði, hvort hann ritaði undir lögin. Tæplega 50 þúsund manns hafa skorað á hann með undirskrift sinni að synja því að staðfesta lögin. Hróp voru gerð að ráðherrum, þegar þeir komu út af ríkisráðsfundinum á Bessastöðum. Minnist ég þess ekki, að það hafi áður gerst.

2. júní 2004 synjaði Ólafur Ragnar fjölmiðlalögunum. Þau voru síðan felld úr gildi. Synji hann þessum lögum getur ríkisstjórnin fellt þau úr gildi og gilda þá lög um ríkisábyrgðina á Icesave, sem samþykkt voru á alþingi 28. ágúst. Kannanir sýna, að 70% kjósenda eru á móti nýju lögunum.

Á 10 ára afmæli kvennafrídagsins í október 1985 dró Vigdís Finnbogadóttir í nokkrar klukkustundir að staðfesta lög um bann við verkfalli flugfreyja. Þá lék allt á reiðiskjálfi innan ríkisstjórnarinnar. Nú láta þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eins og ekkert sé eðlilegra en forseti Íslands dragi lappirnar, þegar lög eru lögð fyrir hann til staðfestingar. Steingrímur J. heldur uppteknum hætti í virðingarleys sínu fyrir því, sem er satt og rétt, þegar hann segir í síðdegisfréttum RÚV, að það hafi „oft gerst áður“, að forseti taki sér frest við að rita undir lög.

Ætli Ólafur Ragnar að rita undir lögin, átti hann að gera það á ríkisráðsfundinum. Dragi hann undirritunina til að setja eitthvað á svið, spillir hann enn áliti manna á forsetaembættinu með leikaraskap. Synji hann undirritun stofnar hann þjóðarhag í hættu að mati ríkisstjórnarinnar. Ólafur Ragnar leiddi ábyrgðarlaust forsetaembættið inn á hættulega refilstigu, til að þóknast Baugsliðinu með ákvörðun sinni 2. júní 2004. Hann bætti síðan um betur með pólitískri yfirlýsingu, þegar hann ritaði undir Icesave-lögin, sem samþykkt voru 28. ágúst sl.