Dagbók: nóvember 1996
Sunnudagur 30.11.1996
Laugardaginn 30. nóvember fór ég klukkan 11 á fund Leiklistarráðs, þar sem ég var fram yfir hádegi og ræddi meðal annars um hlut Ríkisútvarpsins, sem leikarar telja réttilega lítinn á starfsviði sínu. Komst ég þannig að orði, að erfitt væri fyrir mig að verja RÚV sífellt á þeirri forsendu, að með starfsemi þess væri ríkið að efla íslenska menningu. Erfiðleikarnir stöfuðu ekki síst af því, að hætta væri á, að enginn tryði mér, eftir að hafa fylgst með dagskránni. Klukkan 14 þennan sama laugardag fór ég á aðalfund Hins íslenska bókmenntafélags og hlýddi á fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur Páls Berþórssonar veðurfræðings um Vínlandsferðirnar. Klukkan 16 opnaði Karólína Lárusdóttir málverkasýningu í Gallerí Borg. Ég kom þangað nokkrar mínútur yfir fjögur og var þá salurinn orðinn fullur af fólki og margar myndir höfðu þegar selst. Sannaðist þar enn, hve mikilla vinsælda Karólína nýtur.
Miðvikudagur 27.11.1996
Að kvöldi miðvikudagsins 27. nóvember fór ég á landsleik Dana og Íslendinga í handbolta. Var það ánægjuleg kvöldstund, þegar okkar menn unnu Danina með glæsibrag.
Miðvikudagur 20.11.1996
Klukkan 18. miðvikudaginn 20. nóvember fór ég í fyrsta sinn og sat fyrir svörum í Þjóðarsálinni á Rás 2 og hafði gaman að því. Hafi menn vænst þess, að ég sæti undir miklum áföllum hlýtur þátturinn að hafa valdið vonbrigðum. Ég sá í Morgunblaðinu eftir að ég kom heim, að fomaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands hélt áfram að hnýta í mig í bréfadálki Morgunblaðsins. Vekur athygli mína, hve málflutningur hans er tilfinningalegur og persónulegur og þar með ómálefnalegur. Þarna blandar hann sér aftur í mál, sem ég hef sagt, að ég telji eðlilegt að bíða úrskurðar umboðsmanns Alþingis um. Enn á ný er bréfadálkur Morgunblaðsins notaður í málinu án þess að láta þess getið, að það sé til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Ég get ekki annað en endurtekið, að mér þykir málatilbúnaður af þessu tagi ekki benda til góðs málstaðar.
Sunnudagur 17.11.1996
Sunnudaginn 17. nóvember fór ég klukkan 14 í viðtalsþátt Kristjáns Þorvaldssonar á Rás 2 og síðdegis sótti ég Dómkirkjuna, þar sem Hið íslenska biblíufélag stóð fyrir upplestri úr nýrri þýðingu Gamla testamentisins í tilefni af degi íslenskrar tungu.
Laugardagur 16.11.1996
Laugardagurinn 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, var annasamur, enda í fyrsta sinn efnt til dags íslenskrar tungu í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar á tillögu minni um það efni 16. nóvember 1995. Klukkan 10 fór ég á haustfund kennara í Reykjavík og á Reykjanesi og flutti þar ræðu . Þaðan fór ég á málræktarþing Íslenskrar málnefndar í Háskólabíói og flutti ávarp og tók þátt í pallborðsumræðum. Klukkan 15 var hátíðleg athöfn í Þjóðarbókhlöðunni, þegar Auður Laxness afhenti Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni handrit Halldórs eiginmanns síns. Klukkan 17 stóð menntamálaráðuneytið síðan fyrir athöfn í Listasafni Íslands, þar sem Vilborgu Dagbjartsdóttur voru veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þar flutti ég ræðu og gerði grein fyrir þeirri ákvörðun að stofna til dags íslenskrar tungu. Er ég þeirrar skoðunar, að strax í fyrstu atrennu hafi dagurinn tekist vel.
Föstudagur 15.11.1996
Eftir að hafa verið í Garðaskóla í hádeginu 15. nóvember, fór ég í jarðarför Guðmundar Arnlaugsssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans við Hamrahlíð. Síðdegis tók ég þátt í hófi með forráðamönnum Fræðslumiðstöðvar bíliðngreina, sem fagnaði þeim merka áfanga, að Borgarholtsskóli er tekin til starfa, en þar er fræðslumiðstöðin með starfsemi sína.
Fimmtudagur 14.11.1996
Klukkan 11 að morgni 14. nóvember fór ég í Tæknigarð og hlýddi á jarðeðlisfræðinga lýsa gangi mála í Vatnajökli frá því fyrir gos og fram yfir jökulhlaupið. Bendir margt til þess, að eldgosahrina kunni að vera að hefjast í Vatnajökli. Bauð ég þingmönnum að sitja þennan fræðslufund, sem háskólarektor undirbjó að minni ósk. Því miður sáu aðeins fjórir þingmenn sér fært að þiggja boðið. Síðdegis 14. nóvember ræddum við Svavar Gestsson saman á Bylgjunni undir stjórn Skúla Helgasonar. Jafnframt veitti ég Rás 2 og sjónvarpsstöðvunum viðtöl um málefni LÍN.
Miðvikudagur 12.11.1996
Þingstörfin voru töluverð í vikunni, umræður um LÍN og listamannalaun 12. nóvember, fyrirspurnir hinn 13. nóvember og umræða utan dagskrár um einelti í skólum hinn 14.
Þriðjudagur 12.11.1996
Að morgni þriðjudagsins 12. nóvember fór ég í heimsókn í Flataskóla í Garðabæ undir leiðsögn Sigrúnar Gísladóttur skólastjóra.
Laugardagur 9.11.1996
Síðdegis laugardaginn 9. nóvember skrapp ég í sýningarsalinn Önnur hæð að Laugarvegi 37, þar sem sýning eftir Lawrence Weiner var að hefjast. Hitti ég listamanninn og ræddi við hann um verk hans, en á veggi sýningarsalarins hefur hann ritað um þau áhrif, sem dagsljós og silfurberg hafa til að móta liti. Þarna var frekari stoðum skotið undir þá skoðun, að sköpunarmætti mannsins séu lítil sem engin takmörk sett, en okkur skorti hins vegar mörg kunnáttu og dirfsku til að nýta þennan mátt til opinberra afreka. Er ánægjulegt, hve margir heimsþekktir brautryðjendur á sviði myndlistar kunna að meta aðstæður hér á landi bæði vegna náttúru landsins og þess andrúmslofts í listalífi, sem þeir kynnast. Af viðræðum við innlenda kunnáttumenn ræð ég, að þeim finnst þeir, sem að ferðamálum starfa, ekki átta sig nægilega vel á gildi þessarar staðreyndar. Kemur það heim við reynslu mína.
Föstudagur 8.11.1996
Föstudaginn 8. nóvember sat ég fund með samstarfsnefnd háskólastigsins í Háskóla Íslands, ræddum við þar meðal annars hugmyndir um nýja rammalöggjöf fyrir háskólastigið. Kom þar fram, sem vitað ætti að vera, að misjafnlega er staðið að því að velja rektora háskólanna hér. Staðan er auglýst bæði á Akureyri og í Kennaraháskólanum. Dómnefndir meta hæfi umsækjanda, á Akureyri skipar ráðherra síðan rektorinn en í Kennaraháskólanum fer fram atkvæðagreiðsla innan skólans. Fyrirkomulagi við val rektors Háskóla Íslands verður að breyta til þessarar áttar. Síðdegis föstudaginn 8. nóvember komu nokkrir tugir nemenda úr Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á minn fund í ráðuneytinu. Hittumst við þar á 4. hæð og bauð ég þeim gosdrykki og snúða. Erindi þeirra var að afhenda mér undirskriftalista, þar sem mótmælt er tillögum um niðurskurð á fjárveitingum til skólans. Sagði ég rangt, að vegið væri að tilvist skólans með þessum tillögum. Hins vegar hlytu fjárveitingar að taka mið af því starfi, sem fram færi í skólanum. Hann gæti ekki fengið sömu fjárhæðir og verknámsskólar, þegar nær eingöngu væri um bóknám að ræða. Að kvöldi föstudagsins var síðan opnuð málverkasýningin Á vængjum vinnunnar eftir Edvard Munch í Listasafni Íslands og kom í minn hlut að flytja ávarp við það tækifæri.
Fimmtudagur 7.11.1996
Fimmtudaginn 7. nóvember tók ég þátt í umræðum á Alþingi um Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og einnig um svonefndan bandorm ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagafrumvarpið 1997. Hugtakið bandormur nær yfir tillögur til breytinga á mörgum lögum, sem falla undir mörg ráðuneyti, eru slík frumvörp því jafnan flutt af forsætisráðherra. Stjórnarandstæðingar lýstu mikilli hneykslan á því ákvæði í bandorminum, sem lýtur að heimild fyrir menntamálaráðherra til setja reglur um innheimtu á 1500 kr. gjaldi vegna þeirra, sem endurinnrita sig í próf eða áfanga í framhaldsskólum. Tilgangur heimildarinnar er ekki síst sá að hvetja nemendur til að vanda vel til ákvarðana sinna um áfanga, hér er um að ræða stjórntæki til hagræðingar frekar en nýjar álögur á námsmenn.
Miðvikudagur 6.11.1996
Miðvikudaginn 6. nóvember svaraði ég fyrirspurn á Alþingi um það, hvort unnið væri samkvæmt verkefnaáætlun gegn útlendingaandúð í skólum.
Sunnudagur 3.11.1996
Eftir að hafa farið í messu til sr. Halldórs Gröndals síðdegis sunnudaginn 3. nóvember fórum við Rut í heimsókn í Tækniskóla Íslands, sem var með opið hús og kynnti fjölbreytt nám sitt. Þaðan fórum við á þrjár málverkasýningar og síðan í Þjóðminjasafnið á tónleika alþjóðlega tónlsitarhópsins Sequentia, sem flutti eddukvæði með eftirminnilegum hætti. Um kvöldið fór ég síðan í troðfulla Laugardalshöllina og sá landsleik Eista og Íslendinga í handbolta.
Laugardagur 2.11.1996
Laugardaginn 2. nóvember flutti ég ávarp við upphaf málþings um handverk í Norræna húsinu. Var þar fullt út úr dyrum, sem staðfestir hinn mikla og vaxandi áhuga, sem er á þessum málum hér á landi. Það var einnig troðið út úr dyrum í Háskólabíói síðdegis laugardaginn 2. nóvember á 80 ára afmælistónleikum Karlakórsins Fóstbræðra.
Föstudagur 1.11.1996
Föstudaginn 1. nóvember fór ég fyrir hádegi út af ríkisstjórnarfundi til að flytja ávarp við upphaf aðalfundar Skólastjórafélags Íslands.