8.11.1996 0:00

Föstudagur 8.11.1996

Föstudaginn 8. nóvember sat ég fund með samstarfsnefnd háskólastigsins í Háskóla Íslands, ræddum við þar meðal annars hugmyndir um nýja rammalöggjöf fyrir háskólastigið. Kom þar fram, sem vitað ætti að vera, að misjafnlega er staðið að því að velja rektora háskólanna hér. Staðan er auglýst bæði á Akureyri og í Kennaraháskólanum. Dómnefndir meta hæfi umsækjanda, á Akureyri skipar ráðherra síðan rektorinn en í Kennaraháskólanum fer fram atkvæðagreiðsla innan skólans. Fyrirkomulagi við val rektors Háskóla Íslands verður að breyta til þessarar áttar. Síðdegis föstudaginn 8. nóvember komu nokkrir tugir nemenda úr Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á minn fund í ráðuneytinu. Hittumst við þar á 4. hæð og bauð ég þeim gosdrykki og snúða. Erindi þeirra var að afhenda mér undirskriftalista, þar sem mótmælt er tillögum um niðurskurð á fjárveitingum til skólans. Sagði ég rangt, að vegið væri að tilvist skólans með þessum tillögum. Hins vegar hlytu fjárveitingar að taka mið af því starfi, sem fram færi í skólanum. Hann gæti ekki fengið sömu fjárhæðir og verknámsskólar, þegar nær eingöngu væri um bóknám að ræða. Að kvöldi föstudagsins var síðan opnuð málverkasýningin Á vængjum vinnunnar eftir Edvard Munch í Listasafni Íslands og kom í minn hlut að flytja ávarp við það tækifæri.