7.11.1996 0:00

Fimmtudagur 7.11.1996

Fimmtudaginn 7. nóvember tók ég þátt í umræðum á Alþingi um Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og einnig um svonefndan bandorm ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagafrumvarpið 1997. Hugtakið bandormur nær yfir tillögur til breytinga á mörgum lögum, sem falla undir mörg ráðuneyti, eru slík frumvörp því jafnan flutt af forsætisráðherra. Stjórnarandstæðingar lýstu mikilli hneykslan á því ákvæði í bandorminum, sem lýtur að heimild fyrir menntamálaráðherra til setja reglur um innheimtu á 1500 kr. gjaldi vegna þeirra, sem endurinnrita sig í próf eða áfanga í framhaldsskólum. Tilgangur heimildarinnar er ekki síst sá að hvetja nemendur til að vanda vel til ákvarðana sinna um áfanga, hér er um að ræða stjórntæki til hagræðingar frekar en nýjar álögur á námsmenn.