20.11.1996 0:00

Miðvikudagur 20.11.1996

Klukkan 18. miðvikudaginn 20. nóvember fór ég í fyrsta sinn og sat fyrir svörum í Þjóðarsálinni á Rás 2 og hafði gaman að því. Hafi menn vænst þess, að ég sæti undir miklum áföllum hlýtur þátturinn að hafa valdið vonbrigðum. Ég sá í Morgunblaðinu eftir að ég kom heim, að fomaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands hélt áfram að hnýta í mig í bréfadálki Morgunblaðsins. Vekur athygli mína, hve málflutningur hans er tilfinningalegur og persónulegur og þar með ómálefnalegur. Þarna blandar hann sér aftur í mál, sem ég hef sagt, að ég telji eðlilegt að bíða úrskurðar umboðsmanns Alþingis um. Enn á ný er bréfadálkur Morgunblaðsins notaður í málinu án þess að láta þess getið, að það sé til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Ég get ekki annað en endurtekið, að mér þykir málatilbúnaður af þessu tagi ekki benda til góðs málstaðar.