30.11.1996 0:00

Sunnudagur 30.11.1996

Laugardaginn 30. nóvember fór ég klukkan 11 á fund Leiklistarráðs, þar sem ég var fram yfir hádegi og ræddi meðal annars um hlut Ríkisútvarpsins, sem leikarar telja réttilega lítinn á starfsviði sínu. Komst ég þannig að orði, að erfitt væri fyrir mig að verja RÚV sífellt á þeirri forsendu, að með starfsemi þess væri ríkið að efla íslenska menningu. Erfiðleikarnir stöfuðu ekki síst af því, að hætta væri á, að enginn tryði mér, eftir að hafa fylgst með dagskránni. Klukkan 14 þennan sama laugardag fór ég á aðalfund Hins íslenska bókmenntafélags og hlýddi á fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur Páls Berþórssonar veðurfræðings um Vínlandsferðirnar. Klukkan 16 opnaði Karólína Lárusdóttir málverkasýningu í Gallerí Borg. Ég kom þangað nokkrar mínútur yfir fjögur og var þá salurinn orðinn fullur af fólki og margar myndir höfðu þegar selst. Sannaðist þar enn, hve mikilla vinsælda Karólína nýtur.