16.11.1996 0:00

Laugardagur 16.11.1996

Laugardagurinn 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, var annasamur, enda í fyrsta sinn efnt til dags íslenskrar tungu í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar á tillögu minni um það efni 16. nóvember 1995. Klukkan 10 fór ég á haustfund kennara í Reykjavík og á Reykjanesi og flutti þar ræðu . Þaðan fór ég á málræktarþing Íslenskrar málnefndar í Háskólabíói og flutti ávarp og tók þátt í pallborðsumræðum. Klukkan 15 var hátíðleg athöfn í Þjóðarbókhlöðunni, þegar Auður Laxness afhenti Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni handrit Halldórs eiginmanns síns. Klukkan 17 stóð menntamálaráðuneytið síðan fyrir athöfn í Listasafni Íslands, þar sem Vilborgu Dagbjartsdóttur voru veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þar flutti ég ræðu og gerði grein fyrir þeirri ákvörðun að stofna til dags íslenskrar tungu. Er ég þeirrar skoðunar, að strax í fyrstu atrennu hafi dagurinn tekist vel.