25.11.2008 6:52

Þriðjudagur, 25. 11. 08.

Fjölmiðlar hafa áhuga á atvikinu í þinginu í gær, þegar Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, missti stjórn á skapsmunum sínum undir ræðu minni, eins og sjá má og heyra á þessu myndbandi og ég lýsti hér á síðunni í gær. Fjölmiðlamenn hafa velt því fyrir sér, hvort Steingrímur J. hafi danglað í öxlina á Geir H. Haade, forsætisráðherra, þegar hætti við að stara á mig í ræðustólnum. Þeir Steingrímur J. og Geir vilja gera gott úr málinu.

Fyrrverandi þingmaður sendi mér tölvubréf, þar sem sagði meðal annars:

„Maður horfði orðlaus á framkomu SJS í þinginu í fréttatíma sjónvarps  í kvöld. Held að annað  eins hafi aldrei gerst í  sölum Alþingis.  Hvernig  skyldi standa á því  að  til  forystu í flokkunum  lengst  til  vinstri,  Alþýðubandalagi og   og  svo  VG   veljast  ævinlega orðljótustu  menn  sem  náð hafa  kosningu á  Alþingi.  Skrítið.“

Hér er ræða mín í heild með frammíköllum Steingríms J. 

Hitt stenst ekki, að ég hafi farið með rangt mál um, að áform um hina sérstöku rannsóknarnefnd á vegum þingsins hafi tafist vegna afstöðu visntri/grænna undir forystu Steingríms J. Mér skilst hins vegar, að nú sé málið komið á beinu brautina og ber að fagna því.

Ég hef sett inn á síðuna útskrift á viðtali Sölva Tryggvasonar við mig í þættinum Ísland í dag hinn 19. nóvember sl.

Þá hef ég sett inn á síðuna ræður, sem ég flutti á alþingi 21. nóvember í fyrstu umræðu um frumvarp mitt um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins.

Helga Vala Helgadóttir, fjölmiðlakona, bloggari og laganemi, segir á vefsíðu sinni í dag (feitletrun mín):

„Annað dæmi get ég nefnt. Í því tilfelli var það Björn Bjarnason sem hringdi í gsm símann minn. Hann var sömuleiðis að skamma mig fyrir umfjöllun í Speglinum. Benti mér sömuleiðis á að ég skyldi vara mig á því að þetta væri ríkisfjölmiðill og því ekki sjálfsagt að vera með umfjöllun þar sem gagnrýndi stjórnvöld svona. Undir lá vissulega að hann hefði völd til að láta mig fara. Þetta var á þeim tíma sem Spegillinn átti fótum sínum fjör að launa í samskiptum við útvarpssstjórann Markús Örn Antonsson og fleiri innanhússmenn sem ég nenni ekki að nefna. Hírakíið var algjört, stjórnmálamennuppnefndu útvarpsþáttinn og millistjórnendur ræddu við umsjónarmanninn sem átti svo að koma skilaboðum áleiðis til vinnudýranna. Aldrei nokkurn tímann, ekki einu sinni, fundum við fyir því að við nytum stuðnings þeirra sem við störfuðum hjá. Eingöngu sívaxandi hlustun á þáttinn, auk hróss frá almennum kjósendum hvatti okkur áfram á þeirri braut sem við vorum á.

 

Í tilefni af þessari bloggfærslu Helgu Völu fékk ég spurningu frá Breka Logasyni á visir.is, sem ég svaraði á þennan veg:

„Sæll Breki,

ég minnist ekki þessa atviks en veit, að sem menntamálaráðherra ræddi ég aldrei við starfsmenn RÚV á þeim nótum, að þeir ættu atvinnu sína undir mér. Ég ræði raunar almennt ekki þannig við fólk og síst af öllu þá, sem eru ekki ráðnir til starfa af mér. Ósætti mitt við efnistök í Speglinum fóru ekki fram hjá neinum, sem á því höfðu áhuga og nægir í því efni að vísa til þess, sem ég hef ritað um það á vefsíðu mina bjorn.is. Starfsmenn Spegilsins sökuðu mig opinberlega um rógburð á þessum árum og í áranna rás hafa þeir sárasjaldan leitað álits hjá mér á mönnum og málefnum.

Mér þykir miður, ef Helga Vala hefur fengið svona erfiða bakþanka af samtali við mig og get fullvissað hana um, að hún hefði getað losað sig við þá fyrr með því að hreyfa málinu opinberlega eða í samtali við mig.“

Lokaorðin í færslu Helgu Völu feitletraði ég, því að þarna talar hún á þann veg, að ætla má, að hún hafi verið með kjósendur í huga en ekki hlustendur, þegar hún var að vinna efni fyrir Spegilinn, hún hafi sem sagt litið á það sem hlutverk sitt að móta skoðanir kjósenda en ekki upplýsa hlustendur. Gagnrýni mín á Spegilinn byggðist einmitt á því, að þar væri ekki gætt óhlutdrægni, sem bæri að virða á ríkisfjölmiðli.

Helga Vala skyldi ekki kveðja sér hljóðs um þessi mál núna vegna umræðu um hina ótrúlegu framgöngu G. Péturs Matthíassonar, þegar hann birtir á vefsíðu sinni bút af viðtali við Geir H. Haarde, sem aldrei var sýndur í sjónvarpi ríkisins en var tekið, þegar G. Pétur gegndi þar starfi fréttamanns? Fer ekki á milli mála, að G. Pétur birtir þetta efni núna til að gera á hlut forsætisráðherra, af því að hann telur ráðherrann liggja vel við höggi vegna erfiðleika þjóðarbúsins.

Í lýsingu Helgu Völu á samtali mínu við hana um efnistök í Speglinum felst hræðsla við eigendavald, sem ég taldi ekki vera fyrir hendi á ríkisfjölmiðli. Helga Vala óttast um stöðu sína, af því að hún er ósammála mér í stjórnmálum og lítur á hlustendur sem „almenna kjósendur“.