21.11.2008

Sérstakur saksóknari - þingræður.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi því sem hér er til umræðu er lagt til að stofnað verði embætti sérstaks saksóknara sem annist rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við hinar sérstöku og mjög óvenjulegu aðstæður á fjármálamarkaði sem upp hafa komið og eftir atvikum fylgi rannsókninni eftir með útgáfu ákæru og saksókn.

Gert er ráð fyrir að hið sérstaka rannsóknar- og saksóknaraembætti verði ekki varanlegt heldur starfi tímabundið og við niðurlagningu þess hverfi verkefni embættisins til annarra saksóknara- og lögregluembætta í samræmi við almenn ákvæði lögreglulaga og laga um meðferð sakamála.

Embætti saksóknarans er viðbót við stofnanir ákæruvaldsins og mun því ekki hrófla við verkaskiptingu milli ákæruvalds og lögreglu annars vegar og annarra eftirlitsstofnana hins vegar, svo sem Fjármálaeftirlits og skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að þessu verður vikið nánar síðar.

Virðulegi forseti. Ég fékk tækifæri til að kynna frumvarpið og efni þess fyrir allsherjarnefnd á opnum fundi nefndarinnar þriðjudaginn 11. nóvember síðastliðinn. Urðu þar gagnlegar umræður um efnisþætti málsins.

Eitt af þeim atriðum sem rætt var um voru valdheimildir hins sérstaka saksóknara og hvaða hlutverk hann hefði þegar kæmi að því að rannsaka hrun bankanna. Í því sambandi skal undirstrikað að saksóknarinn er eins og áður segir viðbót við stofnanir ákæruvaldsins. Embættið er sett á fót til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi við þær sérstöku og óvenjulegu aðstæður á fjármálamarkaði sem komu upp við fall bankanna þriggja.

Með bréfi ríkissaksóknara til mín, dagsett 6. nóvember sl., kom fram að hann teldi nauðsynlegt að fengnir yrðu erlendir aðilar, svokallaðir „forensic auditors“, til þess að sinna nákvæmri úttekt á starfsemi bankanna í tengslum við þá atburði sem leiddu til hruns þeirra. Þessari skoðun deili ég með ríkissaksóknara og tel afar brýnt að slíkir óháðir aðilar verði kallaðir til og rannsaki aðdraganda og ástæður fyrir hruni íslenska fjármálakerfisins. Slík rannsókn kann þó eflaust að hafa í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð sem gæti hlaupið á hundruðum milljóna.

Virðulegi forseti. Rannsóknar- og ákæruheimildir embættisins taka meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota, þar með talið brota sem rannsökuð eru af Fjármálaeftirlitinu og kærð eru til lögreglu, eins og fram kemur í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Eins og þingmönnum er kunnugt er það hlutverk Fjármálaeftirlitsins að rannsaka brot á lögum á sviði fjármálamarkaðar sem undir það heyra. Ef um er að ræða brot á lögunum ákveður Fjármálaeftirlitið hvort það afgreiðir það með stjórnsýslusekt eða sátt. Ef um alvarlegt brot á lögunum er að ræða, sem varðar refsingu kærir Fjármálaeftirlitið það til lögreglu til opinberrar rannsóknar. Mál sem eru hjá Fjármálaeftirlitinu fara þannig einungis til lögreglu að undangenginni kæru. Er þessi málsmeðferð niðurstaða af vinnu nefndar sem forsætisráðherra skipaði fyrir nokkrum árum til að ræða viðurlög við efnahagsbrotum.

Þessi verkaskipting milli Fjármálaeftirlits og lögreglu hefur bæði kosti og galla. Víst er að málsmeðferð fyrir stjórnsýslueftirlitsaðila getur verið skilvirkari og kostnaðarminni en fyrir refsivörsluaðila. Hins vegar tel ég að menn verði að gæta þess að aðgangur almennings sé jafnopinn að þessum stjórnsýslumálum eins og í refsimálunum. Ég tel ekki ásættanlegt að þau mál sem upp koma vegna bankakreppunnar og Fjármálaeftirlitið rannsakar og lýkur innan sinna vébanda séu sveipuð leyndarhjúp. Þau mál verða að vera á borðinu rétt eins og refsimál, verði um þau að ræða. Almenningur á kröfu á að vita ef lög voru brotin í aðdraganda hrunsins eða í kjölfar þess. Hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd eiga að heyra sögunni til þegar jafn mikilvægir hagsmunir eru í húfi og nú.

Annað atriði sem ég vildi nefna er varðar rannsóknar- og ákæruheimildir hins nýja embættis er um hversu víðtækt valdsviðið er. Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram að hið nýja embætti skuli sett á stofn til að rannsaka grun um háttsemi sem átti sér stað í aðdraganda og tengslum við þá atburði er leiddu til setningar hinna svokölluðu neyðarlaga. Hér er vitaskuld átt við alla þá háttsemi sem tengst gæti hruni bankanna þriggja, hvort sem hún átti sér stað í aðdraganda þess, á meðan eða í kjölfarið og hvort sem hún tengist bönkunum beint eða starfsháttum lífeyrissjóða, annarra lögaðila eða einstaklinga. Valdheimildir embættisins eru sem sagt bundnar við þessa atburði alla og gætu náð til alls er þeim tengdust svo lengi sem um er að ræða efnahags-, auðgunar- eða skattabrot eða skyld brot.

Hvað varðar rannsókn og saksókn á grun um refsiverða háttsemi í tengslum við brot í opinberu starfi er ekki gert ráð fyrir að hinn sérstaki saksóknari hafi það hlutverk með höndum. Vissulega getur ríkissaksóknari á grundvelli heimilda sinna í 5. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála og 3. mgr. 21. gr. laga um meðferð sakamála falið hinum sérstaka saksóknara rannsókn og eftir atvikum útgáfu ákæru og saksókn vegna sakarefna sem tengjast framangreindu hlutverki embættis hans, eins og beinlínis er gert ráð fyrir í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þessu ákvæði er þó ekki ætlað að taka til atvika er tengjast broti í opinberu starfi og munu því þau brot hljóta hefðbundinn farveg hjá ákæruvaldi og lögreglu, ef svo má að orði komast.

Þá er í frumvarpinu lagt til að ríkissaksóknara verði heimilt, að tillögu hins sérstaka saksóknara, að falla frá saksókn á hendur þeim starfsmanni eða stjórnarmanni fyrirtækis sem hefur frumkvæði að því að láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar vegna brota sem tengjast fyrirtækinu og tengdum fyrirtækjum, svo og æðstu stjórnendum þeirra, ef talið er líklegt að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á brotum sem falla undir rannsóknar- og ákæruvald sérstaks saksóknara samkvæmt lögum þessum eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Er hér um að ræða það sem nefnt er á ensku „whistleblower“. Það skal tekið sérstaklega fram að gert er ráð fyrir ströngum skilyrðum fyrir beitingu þessarar heimildar. Nánar tiltekið að rökstuddur grunur liggi fyrir um að gögnin eða upplýsingarnar tengist alvarlegum brotum, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra reynist torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir brotunum.

Ákvæðið á sér nokkra fyrirmynd í 3. mgr. 42. gr. samkeppnislaga sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að láta vera að kæra til lögreglu refsiverða háttsemi manna sem að eigin frumkvæði hafa látið í té upplýsingar eða gögn að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Almennar heimildir til að fella niður saksókn er nú að finna í 113. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 146. gr. sakamálalaga. Í f-lið 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991 og d-lið 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 er að finna heimildir til að fella niður mál ef sérstaklega stendur á og almannahagsmunir krefjast ekki málshöfðunar.

Þá er rétt að geta þess að í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er að finna ákvæði er hafa áhrif á ákvörðun refsingar í sakamáli. Annars vegar er um að ræða 9. tölulið 1. mgr. 70. gr. þar sem kveðið er á um að við refsiákvörðun skuli litið til þess hvort viðkomandi hafi upplýst um aðild annarra að broti. Hins vegar má nefna 9. tölulið 1. mgr. 74. gr. þar sem heimilt er að lækka refsingu ef viðkomandi segir af sjálfsdáðum til brots síns og skýrir hreinskilnislega frá öllum atvikum að því.

Að baki því ákvæði sem hér er lagt til að verði tekið í lög býr það sjónarmið að brýnir almannahagsmunir geti krafist þess að ákveðið verði að falla frá saksókn í slíkum tilvikum í þeim tilgangi að unnt verði að afla sönnunargagna um alvarleg efnahagsbrot sem nánast útilokað væri að færa sönnur á með öðru móti.

Við samningu þessa frumvarps var rætt um þann möguleika að hafa þessa heimild almenna en frá því var hins vegar horfið og ákveðið að einskorða hana við þetta frumvarp. Þessa heimild mætti þó á síðari stigum taka upp í lög um meðferð sakamála ef vel tekst til með beitingu hennar.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir höfuðatriðum í þessu frumvarpi. Það hefur nú verið tilbúið til flutnings frá því í síðustu viku og verið rækilega kynnt fyrir hv. allsherjarnefnd á góðum fundi okkar hinn 11. nóvember eins og ég lét getið. Ég vænti þess að nefndin hraði meðferð málsins eins og kostur er því að ég tel mjög brýnt að þetta frumvarp verði að lögum sem fyrst svo unnt sé að hefja starfsemi þessa embættis sérstaks saksóknara sem hér er lagt til að verði stofnað .

Með þessum orðum legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.

Seinni ræða.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessar umræður um frumvarpið. Meðal þess sem fyrir mér vakti þegar ég ákvað að flytja þetta sérstaka frumvarp var einmitt að fá umræður um það í þinginu hvernig menn litu á þetta mál og þennan þátt málsins sem fellur að saksókn og rannsókn, sérstaklega rannsókn og saksókn í þessari röð, þannig að ég tel að það hafi verið hluti af málatilbúnaði mínum að kalla eftir umræðum eins og hafa hér farið fram og vil ég þakka þingmönnum fyrir framlag þeirra til þess að skýra hvað hér er um að ræða og fara yfir þau mál sem ég ætla nú að reifa sérstaklega og var beint til mín.

Auðvitað var það álitaefni hvort það ætti að flytja frumvarp af þessu tagi eða að fara með þetta inn í ramma nýrra sakamálalaga, sem taka að vísu ekki gildi fyrr en 1. janúar næstkomandi þannig að það hefði þurft að bíða (Gripið fram í.) eitthvað eftir að fá því framfylgt samkvæmt þeim lögum að koma á sérstakri saksókn í þessu tilviki. Niðurstaðan varð sem sagt sú að fara þá leið sem hér er farin. En ég skil vel sjónarmið hv. þm. Jóns Magnússonar varðandi formsatriði í málinu. Ég tel hins vegar að þetta sé besta leiðin og skynsamlegasta leiðin miðað við þá stöðu sem uppi er. Því til stuðnings vísa ég meðal annars til bréfs ríkissaksóknara sem er birt sem fylgiskjal með frumvarpinu og dagsett 6. nóvember síðastliðinn. Leyfi ég mér að vitna til þess, með leyfi virðulegs forseta:

„Eins og fram kemur í upphafi bréfs míns var vinnu ríkissaksóknara á þessu stigi markaður þröngur tímarammi, ...“ — þ.e. það starf sem unnið var undir forustu ríkissaksóknara með Boga Nilssyni. — „Ástæðan var, eins og fram hefur komið, að fyrirhugað var að setja þegar í stað á stofn sérstakt embætti til að sjá um rannsókn og eftir atvikum saksókn þessara mála. Þegar þetta embætti væri komið á laggirnar tæki það yfir alla þætti málsins. Ríkissaksóknari tekur undir að þörf sé á að stofna embættið við slíkar aðstæður sem nú eru uppi og nauðsyn þess að það taki sem fyrst til starfa.“

Það er því enginn ágreiningur um þetta meðal þeirra sem fara með ákæruvaldið og liggur fyrir skýrt bréf ríkissaksóknara því til stuðnings sem nefndin getur að sjálfsögðu fengið staðfest hjá honum vilji hún kalla hann á sinn fund.

Síðan spurði hv. þm. Jón Magnússon hvort ég teldi að hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd heyrðu sögunni til almennt og það .ætti ekki að hafa uppi slíka leynd, en það sem ég sagði í minni ræðu var, með leyfi forseta:

„Hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd eiga að heyra sögunni til þegar jafn mikilvægir hagsmunir eru í húfi og nú.“

Ég tók það því fram um þetta sérstaka mál sem hér er til umræðu og er tilefni þess að ég flyt frumvarpið að ég tel að menn eigi að líta til þessara hugtaka og afnáms leyndarinnar við þær aðstæður sem við búum við núna.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vék að því að gott væri að finna heiti á embættið sem gæfi glöggt til kynna hvaða embætti þetta væri. Ég hef ekki slíkt heiti á takteinum. Við tölum hér um sérstakan saksóknara sem hafi þær skyldur sem í frumvarpinu er lýst. Ef hv. nefnd getur fundið gagnsærra heiti á þennan embættismann er það vel þegið af minni hálfu og ég mun huga að því líka eftir þessa ábendingu.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði og vísaði til þess sem gerðist á fundi mínum með nefndinni hinn 11. nóvember síðastliðinn, á opnum fundi sem menn geta kynnt sér á vefsíðu Alþingis, þ.e. það sem þar fór fram og eru líka til upplýsingar um efni frumvarpsins ef fólk hefur áhuga á því sérstakan, að þá sagði ég að ég mundi gjarnan vilja eiga samráð við allsherjarnefnd um það hver tæki þetta embætti að sér. Einnig sagði ég að ég fagnaði tillögum frá nefndinni ef hún gæti bent mér á einhvern sem hún teldi yfir allan vafa hafinn og gæti tekið þetta embætti að sér. Ég sagði hins vegar líka að ábyrgðin yrði á herðum dómsmálaráðherra og það er ekki hægt með neinum hæti að breyta þeirri skipan. Að lokum er það dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á því hvern hann skipar í þetta embætti. En allar góðar tillögur og samráð er ég tilbúinn að hafa um það og ræða nöfn á einstaklingum. Ef menn hafa áhuga á því að koma því á framfæri við mig og ræða í trúnaði við mig á vettvangi nefndarinnar eins og jafnan er gert þegar þingnefndir fjalla um einstaklinga þá er ég tilbúinn að huga að því.

Varðandi tengslin við þá rannsóknarnefnd sem er á döfinni hér á vegum forseta þingsins í samráði við forustumenn flokkanna tel ég einsýnt að það eigi að tengja það og þess vegna sé nauðsynlegt og gagnlegt að þetta frumvarp sé komið fram og það lagt fram hér og helst orðið að lögum sem fyrst til þess líka að þegar menn eru að vinna við hitt frumvarpið þá átti þeir sig á því hvernig þessum tengslum er best háttað.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vitnaði í ræðu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og ef ég heyrði rétt var það í þeim kafla ræðunnar, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Niðurfelling forráðamanna Kaupþings á ábyrgðum sínum og annarra hafði legið fyrir vikum saman án þess að nokkuð væri um það upplýst. Það var ekki fyrr en hneykslaðir starfsmenn láku þessum upplýsingum út sem þær urðu almannaeign. Og síðan hefur ekkert verið upplýst, hvernig því máli verður fylgt eftir.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Ábendingar sem bárust um að kalla til lögreglu strax í upphafi hafa ekki fengið brautargengi.

Eru menn að bera fyrir sig bankaleynd í þessu sambandi?“

Það sem þarna segir í ræðunni er að einhverjir hafi bent einhverjum á að kannski væri ástæða til að kalla til lögreglu. Hann er ekki að segja í ræðunni að leitað hafi verið til lögreglunnar heldur að ábendingar hafi komið fram. Svo ég lesi aftur, með leyfi forseta:

„Ábendingar sem bárust um að kalla til lögreglu strax í upphafi hafa ekki fengið brautargengi.“

Þessar ábendingar hafa ekki fengið brautargengi samkvæmt ræðunni.

Síðan spyr seðlabankastjórinn, með leyfi forseta:

„Eru menn að bera fyrir sig bankaleynd í þessu sambandi?“

Þarna er einmitt vikið að því sama og ég vék að hér í mínu máli um það að menn séu kannski að teygja hugtakið bankaleynd og skjóta sér á bak við bankaleynd í þessum málum í staðinn fyrir að upplýsa og kalla á lögreglu ef þeim þykir ástæða til. Kannski eru einhverjir líka að bíða eftir að þetta frumvarp verði að lögum, að það verði komið í lög sem segir í 4. gr. frumvarpsins um það að menn sæti ekki ákæru miðað við þær forsendur sem gefnar eru í 4. gr. Mér finnst að þetta orðalag gefi beinlínis til kynna nauðsyn þess að þetta frumvarp nái fram að ganga og það sjónarmið nái líka fram að ganga að menn séu ekki að skjóta sér á bak við bankaleyndina og teygja hana lengra en góðu hófi gegnir þegar um þessi mál er rætt.

Þetta kemur heim og saman við það sem ég sagði í minni ræðu, með leyfi forseta:

„Hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd eiga að heyra sögunni til þegar jafn mikilvægir hagsmunir eru í húfi og nú.“

Það er um þetta sem þetta mál snýst en ekki það — í ræðunni segir ekki að lögregla hafi verið kölluð til eða að lögregla hafi eitthvað skirrst við ef til hennar hefði verið leitað. Það kemur ekki fram í þessum orðum seðlabankastjórans heldur að einhverjir hafi látið undir höfuð leggjast að kalla á lögregluna og má skilja orð hans þannig að einhverjir hafi talið ástæðu til að gera það.

Ég vil líka skýra frá því að að sjálfsögðu hafa (Gripið fram í.) starfsmenn ríkislögreglustjóra, efnahagsbrotadeildin og starfsmenn, ákæruvaldshafar innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verið tilbúnir að taka á móti öllum þeim ábendingum og öllum þeim álitaefnum sem menn telja að eigi heima hjá lögreglunni og það hefur ekkert lát verið á þeirri eðlilegu starfsemi sem er uppi þannig að lögreglan er náttúrlega, ef ég má nota það orð, í startholunum þegar til hennar er leitað í þessu máli eins og öðrum. Ég veit ekki hvort það hafi verið gert. Ég hef ekki vitneskju um það.

Varðandi málefni það sem hv. þm. Atli Gíslason — hann er nú ekki hér í salnum. (Gripið fram í: Hann þurfti að víkja frá.) Það er mjög bagalegt að hann skuli ekki vera hér því að hann fór með rangt mál í upphafi ræðu sinnar þegar hann sagði að ég hefði falið ríkissaksóknara að leita að því eða kanna hvort rökstuddur grunur væri um afbrot í þessu ferli. Ég fór aldrei þess á leit við ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari sneri sér til mín með hugmynd um að reynt væri að kortleggja umfang þessa máls og hann fékk Boga Nilsson til þess að vinna það verk og Bogi Nilsson skilaði skýrslu til ríkissaksóknara og ríkissaksóknari sendi mér bréf sem birt er með þessu frumvarpi. Ég er furðu lostinn í raun og veru að heyra hvernig hv. þm. Atli Gíslason ræðir um þetta mál og mér finnst að bæði þessi ummæli hans og önnur ummæli sem hann hefur látið falla um þessa starfsemi á vegum ríkissaksóknara gefi til kynna að hann hafi ekki kynnt sér málið nægilega vel til þess að fara með rétt efni þegar hann ræðir það.

Það er algjörlega ástæðulaust að vitna þannig í greinargerðina sem frumvarpinu fylgir og ræðu mína 17. október í Háskóla Íslands á þann veg að það geri mig á einhvern hátt vanhæfan til þess að skipa sérstakan saksóknara. Þetta minnir mig bara á þau ummæli sem voru höfð uppi og fóru fyrir Hæstarétt í svokölluðu Baugsmáli þegar var talið að orð sem ég lét falla á vefsíðu minni gerðu það að verkum að ég gæti ekki skipað sérstakan saksóknara í því máli. Því var síðan vísað að lokum til mannréttindadómstólsins í Strassborg sem að sjálfsögðu taldi enga ástæðu til að taka málið fyrir. Að tala um það hér nú að það sé eitthvert orðalag í ræðu sem ég flyt í Háskóla Íslands og set hér í greinargerð geri mig vanhæfan til þess að skipa sérstakan saksóknara er náttúrlega út í hött og furðulegt að stjórnmálamaður skuli taka það upp á þessum vettvangi, hér í þingsalnum þar sem menn hafa fullt frelsi til að lýsa skoðunum sínum og eiga að gera það og ekki að búa við að það sé talið að eitthvert vanhæfismál komi upp þegar menn lýsa skoðunum sínum. Ég harma því að hv. þingmaður gefi sér ekki tíma til að sitja hér þessar umræður þegar hann er með slíkar dylgjur í ræðum sínum sem hann flytur hér um þetta mál þótt hann segi í hinu orðinu að hann styðji það.

Varðandi að vitna síðan í greinargerð vegna lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tengja það inn í þetta frumvarp er líka algjörlega fráleitt og fráleitur málatilbúnaður enda var frumvarpið samið án þess að menn hefðu nokkra vitneskju um hvað stæði í þessum gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.



Siv Friðleifsdóttir veitti andsvar við ræðu minni og spurði mig um orð Davíðs Oddssonar í ræðu hjá viðskiptaráði. Hér eru svor mín við andsvari Sivjar:

Virðulegi forseti. Ég get í raun og veru ekki svarað því á annan veg en ég gerði áðan því að ég hef ekki upplýsingar um það. Þessari viku með Davíð Oddssyni er nú að ljúka þannig að vonandi fá menn skýringar á því sem hann hefur sagt, hann upplýsi það sem hann hefur sagt og hvað býr að baki þessum orðum. Ég hef sjálfur sagt að varðandi ræðuna sem hann flutti sé hann þar að tala um að skynsamlegt og nauðsynlegt sé að upplýsa almenning um sem flest. Eins og hv. þingmaður hnýtur um er ástæða til að velta fyrir sér hvað í orðalaginu felst. Það felst ekki í þessu orðalagi að lögreglan hafi fengið ábendingu og ekki brugðist við henni, það er ekki hægt að lesa það. Allir sem eru læsir sjá að það felst ekki í þessu orðalagi, það er annað sem felst í þessu því.

Hv. þingmaður bíður í ofvæni eftir að vita hvað það er en ég get ekki svarað þeirri spurningu og ég er alveg sannfærður um að það eru ekki ábendingar sem beint hefur verið til nokkurs ráðherra enda vitnar hann til bankaleyndar. Ráðherrar eru ekki bundnir af bankaleynd, það eru einhverjir aðrir sem eru bundnir af bankaleynd en ráðherrar. Ráðherrar eru ekki starfsmenn banka og starfa ekki innan fjármálakerfis þar sem menn verða að hafa bankaleynd í heiðri. Hv. þingmaður verður að setja sig í spor rannsakanda og greinanda og lesa úr þessum orðum það sem hægt er að lesa úr þeim. Þar kemur fram að það virðist vera að einhver sem seðlabankastjórinn telur að hugsanlega geti verið bundinn af bankaleynd hafi fengið einhverjar ábendingar.

------

Ágæti, virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um, nú þegar búið er að greina þessar tvær setningar í ræðunni, að niðurstaðan er sú að við getum hvorugt svarað þessum spurningum. Við erum hvorugt bundin af bankaleyndinni. Það eru einhverjir menn sem eru undir bankaleynd sem þarna hljóta að koma við sögu miðað við þetta. Eftir því sem ég hef lesið skilst mér að hv. viðskiptanefnd ætli að kalla Davíð Oddsson seðlabankastjóra á sinn fund og þetta er eitt af atriðunum sem mér finnst eðlilegt að þingmenn spyrji bankastjórann um þegar hann kemur til þingnefndar.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri/grænna, tók upp þykkjuna fyrir Atla Gíslason, flokksbróður sinn, sem hvarf af fundi, áður en ég flutti seinni ræðu mína, og veitti hún mér andsvar, sem ég svaraði með þessum tveimur ræðum:

Virðulegi forseti. Mér var ekki gert viðvart um fráveru hv. þingmanns og þótt menn geti ekki verið hér við umræður getur það ekki orðið til þess að þeir komist undan því að þeim sé svarað. Ég tel að hv. þm. Atli Gíslason hafi veist að mér á þann veg að það lá beint við að ég svaraði. Ég harma það að hann var ekki í þingsalnum.

Ég skil vel að fólk sé andvígt því að ég gegni ráðherraembætti og menn séu það á pólitískum forsendum. Pólitískir andstæðingar vilja að sjálfsögðu koma þeim frá sem sitja í ráðherraembættum en að gera það með þeim orðum sem hv. þingmaður viðhafði, þótt hann sé hæstaréttarlögmaður, er óviðunandi að mínu mati.

Það var aldrei á neinn hátt, hvorki af minni hálfu né ríkissaksóknaraembættisins, verið að skorast undan því að taka á þessu máli hratt og ákveðið. Hv. þingmaður gaf það til kynna og síðan að vegna orða sem standa hér og ég flutti í hátíðarsal Háskóla Íslands kunni ég að vera vanhæfur til þess að skipa sérstakan saksóknara. Hann gengur jafnvel lengra en gert var í réttarsalnum þegar reynt var að spilla fyrir framgangi Baugsmálsins og síðan farið með það til Strassborgar, málinu vísað frá af því að málatilbúnaðurinn var algjörlega út í hött og því var hafnað í Hæstarétti. Það er því full ástæða fyrir mig að taka þetta mál upp og verja málfrelsi ráðherra og þingmanna til þess að lýsa skoðun sinni.

-------------

Virðulegi forseti. Í þessum sal geta menn ekki skotið sér undan því að verða fyrir gagnrýni eða svörum þótt þeir séu fjarstaddir. Ef þingmenn eru hér, koma upp og flytja ræður þar sem þeir gagnrýna ráðherra á þann veg sem gert var í þessari ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar geta þeir ekki búist við að því sé látið ósvarað af því þeir fara úr þingsalnum. (Gripið fram í.) Þetta er ótrúleg hugsun um hvernig þingstörf ganga fyrir sig. Ég hef fullan rétt á að lýsa skoðun minni og gagnrýna þennan málflutning þótt hv. þingmaður hafi þurft að fara úr þingsalnum.