24.11.2008

Vantrausti hafnað - ræða

Þingræða í umræðum um vantrausttilögu á ríkisstjórnina 24. nóvember, 2008.

Virðulegi forseti. Hafi það verið tilgangur þess að flytja þessa tillögu og stofna til þessara umræðna í dag að leiða í ljós ágreining hjá stjórnarflokkunum þá held ég að tillöguflutningurinn hafi algerlega misheppnast. Tillagan og umræðan hafa þvert á móti leitt það í ljós sem lá náttúrlega fyrir í upphafi að stjórnarflokkarnir standa saman og þeir ætla sér að takast sameiginlega á við þau viðfangsefni sem við blasa og sigrast á þeim vanda sem við þjóðinni blasir og því er þessi tillöguflutningur mjög sérkennilegur í öllu tilliti. Hann stingur raunar líka í stúf við þá góðu samstöðu sem náðist í þinginu hinn 6. október sl. Þá voru í salnum 62 þingmenn og 50 þingmenn greiddu atkvæði með svokölluðum neyðarlögum til að bregðast við þeim bráða vanda sem við stóðum frammi fyrir og mörkuðu þáttaskil í fjármálastarfsemi þjóðarinnar. Ég vil aðeins, virðulegi forseti, minna hv. þingmenn á hvað þá var í húfi með því að vitna til þess sem stendur í upphafi almennu greinargerðarinnar með neyðarlögunum þar sem segir:

„Að undanförnu hafa dunið yfir fjármálamarkaði hremmingar sem einkum hafa lýst sér í skorti á lausafé vegna takmarkaðs lánsframboðs. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa ekki farið varhluta af þessum hremmingum frekar en fjármálafyrirtæki í öðrum löndum. Við þessar erfiðu aðstæður hafa stjórnvöld víða um heim neyðst til að grípa til ráðstafana er miða að því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því.“

Það var þetta, virðulegi forseti, sem við vorum að tryggja með samþykkt okkar mánudaginn 6. október og með þeirri samstöðu sem þá myndaðist hefði mátt ætla að menn mundu líka ganga til þess verks sameinaðir að takast á við það sem í kjölfarið sigldi. En svo hefur ekki orðið eins og við vitum og þessi tillaga er til marks um það en tillagan er fyrst og fremst til marks um það að stjórnarandstaðan hefur ekki getað komið fram með neitt málefnalegt viðhorf varðandi þróun mála sem hún leggur fram sem er önnur stefna eða annað viðhorf heldur en síðan hefur komið fram í tillögum ríkisstjórnarinnar og samþykkt hefur verið líka almennt í þinginu með góðri samstöðu allra þingmanna. Ef þessi hætta hafi verið svona mikil 6. október sem við stóðum frammi fyrir þá og vorum sammála um að takast á við með þeim hætti að samþykkja svonefnd neyðarlög þá hefur þróunin síðar á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði ekki verið á þann veg að það sé ástand sem ber að líta til af minni ábyrgð en menn gerðu 6. október. Hvarvetna sem litið er til, hvort sem það er austan hafs eða vestan, eru menn að grípa til ráðstafana, róttækari ráðstafana en nokkru sinni hafa sést í sumum löndum og þær eru gerðar til að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu. Það hefur því miður ekki tekist í öðrum löndum að ná því markmiði sem ríkisstjórnir hafa sett sér þar með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og nægir þar að nefna til sögunnar Bandaríkin sem eru eins konar eimreið í efnahagskerfi heimsins en síðdegis í gær tilkynnti t.d. ríkisstjórn Bandaríkjanna að hún mundi vernda næststærsta banka Bandaríkjanna, Citigroup, gegn óvenjumiklu tapi og styrkja hann með 20 milljörðum dollara. Það er von bandarískra fjármálayfirvalda að þessi stuðningur við þennan stóra banka dugi til að styrkja fjármálakerfið og vernda bandaríska skattgreiðendur eins og sagt er og bandarískt efnahagslíf.

Þetta er síður en svo fyrsta björgunaraðgerð bandarískra stjórnvalda. Ég tel að átta stórbankar í Bandaríkjunum, risabankar, hafi fengið aðstoð eða orðið gjaldþrota á undanförnum vikum eða þegið þá aðstoð sem ríkisvaldið hefur ákveðið að veita þeim til að reyna að halda fjármálakerfinu þar í landi á floti. Það er enn algerlega óvíst hvort þetta takist, hvort það takist að ná þeim tökum á fjármálastjórninni að við séum komin fyrir vind og ég segi við í þessu tilliti því að að sjálfsögðu erum við Íslendingar hluti af þessari siglingu heimsins í þessum miklu hremmingum og við gerðum sameiginlegar ráðstafanir hinn 6. október sl. með þeim lögum sem við samþykktum þá til að takast á við þennan vanda hér á landi. Það má líka geta þess að í dag berast fréttir um það frá Þýskalandi að efnahagshorfur þar séu verri en nokkru sinni síðan árið 1948, síðan árið sem Þjóðverjar hófu að hefja sig upp úr hörmungum stríðsins með öllum þeim efnahagsþrautum sem þeir þurftu síðan að ganga í gegnum til að byggja upp það öfluga efnahagslíf sem síðan hefur dafnað.

Á þessum degi stöndum við hér og ræðum hvort lýsa eigi vantrausti á ríkisstjórn Íslands sem greip til ráðstafana með góðum stuðningi þingmanna 6. október sl. Það er verkefni okkar núna þegar aðrar þjóðir standa í þeim verkum að bjarga efnahagslífi sínu og við eigum að sjálfsögðu að gera það líka, en þá stöndum við hér og veltum því fyrir okkur hvort það sé brýnasta viðfangsefnið að efna til kosninga og skipta um ríkisstjórn í landinu. Ég tel að þessi tillaga sé í fyrsta lagi málefnalega á skjön við allt sem menn þyrftu að ræða hér og í öðru lagi er hún tímaskekkja fyrir utan formgalla á henni sem ég ætla ekki að ræða hér en menn geta velt fyrir sér.

Við stóðum í þeim sporum að bankakerfið var orðið of stórt fyrir efnahagslíf þjóðarinnar. Það hafði einfaldlega vaxið þjóðarbúinu yfir höfuð. Yfirbyggingin hrundi í þeim skjálfta sem skók alþjóðlega fjármálakerfið og ríkisstjórnin brást við með aðgerðum, með góðum stuðningi Alþingis og viðunandi sátt allra flokka á þinginu. Við gerðum okkur grein fyrir því þá og gerum okkur grein fyrir því enn að með neyðarlögunum var tekið af skarið um ákveðna lausn á fjármálakerfisvandanum án þess að menn hefðu getað lagt niður fyrir sér það sem af því leiddi og hvaða framtíðarverkefni blöstu við. Á þessu viðkvæma stigi þegar við vitum nú hvaða verkefni það eru og betur en við gerðum hinn 6. október sl. þá telur stjórnarandstaðan það brýnasta viðfangsefnið að stofna til umræðna um vantraust á ríkisstjórnina í þeim tilgangi að stofna til pólitískrar upplausnar og stjórnmálabaráttu sem mundi snúast um allt annað en þau viðfangsefni sem við þurfum að sinna núna. Það er mjög ósanngjarnt að halda því fram og gera þetta með þeim rökum að fjármálastjórn hins opinbera hafi á undanförnum árum verið á þann veg að ástæða sé til að vantreysta þeim sem fara með stjórn fjármála ríkisins. Þvert á móti er alveg skýrt þegar litið er á stöðu íslenska ríkisbúsins og fjárhag þess að haldið hefur verið ákaflega vel á fjármálum ríkisins undanfarin ár og markvisst unnið að því að greiða niður skuldir þess. Þegar litið er á hlut stjórnmálamanna og stjórnvalda er ástæðulaust með öllu að láta þess ógetið eins og það hafi verið sjálfsagður hlutur að ríkissjóður sé nú orðinn skuldlaus eða hafi verið skuldlaus áður en til þessara hremminga kom. Sé litið til annarra ríkja sést að vandi þeirra er ekki síst vegna þess meiri en ella væri hve illa hefur verið staðið að ríkisfjármálum í mörgum löndum og það hefur orðið þeim um megn að takast á við viðfangsefnið, núverandi stórvanda með því að leggja auknar byrðar á eigin ríkissjóði. Þetta verða menn að hafa í huga þegar fjallað er um vantraust á ríkisstjórnina og látið í veðri vaka að við stjórnvölinn sitji menn sem geti ekki tekist á við viðfangsefni og skilað góðum árangri. Það sést best á stöðu ríkissjóðs hve vel hefur verið staðið að stjórn ríkisfjármálanna á undanförnum árum.

Þegar ég las tillöguna um vantraust á ríkisstjórnina saknaði ég rökstuðnings með henni því að það er enginn rökstuðningur með tillögunni eins og hv. þingmenn sjá. Það fylgir ekki orð tillögunni um það hvers vegna hún er flutt (Gripið fram í.) í hinu prentaða skjali. En það er augljóst hvers vegna svo er og hefur komið fram í umræðunni að menn koma sér náttúrlega ekki saman um slíkar röksemdir, og þegar menn eru að tala um nauðsyn þess að upplýsa almenning og skýra fyrir almenningi alla þætti stóra og smáa í þeirri stöðu sem þjóðin er núna hefði að sjálfsögðu verið skynsamlegt fyrir flutningsmenn að hafa góða sameiginlega rökfærslu fyrir þessari tillögu sinni. En þeir koma sér að sjálfsögðu ekki saman um það (Gripið fram í.) og geta það ekki og þeir geta ekki sameinast um neinn rökstuðning eins og fram hefur komið í umræðunum í dag. Og hvað sem þingmenn kalla hér fram í breyta þeir ekki þeirri staðreynd. Það hefur líka komið fram í ræðunum að þeir eru ekki samstiga um nokkurn skapaðan hlut. Þeir eru ekki samstiga um annað en að reyna að koma ríkisstjórninni frá en hafa svo fengið það staðfest í dag í þessari umræðu að það er góð samstaða meðal stjórnarflokkanna.

Ég vil láta þess getið að báðir stjórnarflokkarnir hafa efnt til funda í æðstu stofnunum flokka sinna sem hafa vald innan flokkanna á milli landsfunda þeirra. Í báðum tilvikum hafa forustumenn flokkanna fengið eindreginn stuðning flokksmanna sinna við þá stefnu sem mótuð hefur verið og það samstarf sem fer fram innan ríkisstjórnarinnar. Það gerðist hins vegar þegar Framsóknarflokkurinn efndi til síns fundar laugardaginn 15. nóvember síðastliðinn að mánudaginn 17. nóvember var lesið bréf af forsetastóli um að formaðurinn hefði sagt af sér. Framganga flokksmanna gagnvart formanni Framsóknarflokksins hefði verið þannig á þessum stjórnarandstöðuflokksfundi að formaðurinn sá sér þann kost vænstan að segja af sér. Er þetta traustvekjandi fyrir þá sem velta því nú fyrir sér hvort betra sé að hafa þá flokka við stjórn sem eru við stjórn eða kalla yfir sig þá óvissu sem fælist í því að stjórnarandstöðuflokkarnir kæmust til valda. (SJS: Leyfum þjóðinni að dæma.) Þetta er sjónarmið sem hefur komið fram og blasir við okkur þingmönnum sem hér störfum og berum ábyrgð á ríkisstjórninni og það er undir okkur komið, meiri hluta þingmanna hér, hvort stjórnin nýtur meiri hluta eða ekki og það liggur fyrir að hún gerir það. Tillagan er misheppnuð að þessu leyti og hefur dregið fram sundurlyndi stjórnarandstöðunnar og sundurlyndi innan stjórnarandstöðuflokkanna því að hún rifjar upp þær miklu deilur sem eru innan Framsóknarflokksins. Og ef svo hefði verið á undanförnum árum að við hefðum fylgt stefnu Vinstri grænna í landsstjórnarmálum, andstöðu Vinstri grænna við uppbyggingu atvinnuveganna, virkjanir bæði á vatnsorku og gufuorku, ef við hefðum fylgt þeirri stefnu hvar stæðum við núna í þeim erfiðleikum sem við stöndum í? Ef við hefðum fylgt þeirri stefnu að fjölga ekki störfum, virkja ekki vatn og orku, byggja virkjanir og stóriðjufyrirtæki, hvar stæðum við þá? (Gripið fram í.) Er þetta traust stefna við núverandi aðstæður að kjósa slíkan flokk yfir sig? Eða flokk sem hefur þingmann sem telur sér sæma að standa við lögreglustöðina og hvetja til árása á lögreglustöðina? (Gripið fram í: Já.) Er þetta flokkur sem við eigum að kjósa yfir okkur á þessari stundu? Ekki sé ég það. (SJS: Þjóðin dæmir það, þjóðin dæmir.)

Virðulegi forseti. Síðastliðinn föstudag var til umræðu frumvarp frá mér um sérstakan saksóknara og ég vona að hv. allsherjarnefnd flýti afgreiðslu þess máls og það verði að lögum. Það er nauðsynlegt að velta hverjum steini varðandi þau mál sem upp hafa komið, bæði af hálfu saksóknara og einnig af hálfu annarra aðila, og ég fagna því að á Alþingi er unnið að því að móta tillögur um sérstaka nefnd sem taki þetta að sér. Það var undarlegt að heyra hv. þingmann Vinstri grænna kvarta undan því áðan í ræðu að það hefði tafist að koma þessu starfi á vegum þingsins á legg þegar við þingmenn vitum að það er hv. formaður Vinstri grænna sem helst hefur tafið fyrir þessu verki innan veggja þingsins. Það er helst hann með fyrirvörum sínum og sinni afstöðu sem hefur spillt því að samstaða næðist um það (SJS: Þetta er þvættingur og ?) að koma þeirri nefnd á laggirnar. (SJS: Étt´ann sjálfur.)

Virðulegi forseti. Er þetta orðbragð sem á við í þingsölum?

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gæta hófs í orðavali.)

Þingmenn Vinstri grænna geta ekki komið hér og staðið og sagt að verið sé að tefja það að koma á laggirnar rannsóknarnefndum og síðan stendur formaður þeirra í vegi fyrir því að samstaða náist í þingsalnum um þetta og meðal forsætisnefndar.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gæta hófs í framgöngu.)

Það verður að hafa þessa hluti eins og þeir eru og menn verða að ræða þá eins og þeir eru og ekki fara í neinn feluleik með þetta frekar en annað sem þarf að ræða í þingsalnum og meðal þjóðarinnar þegar fjallað er um þessi mál. Menn verða að standa við það og ef þeir geta það ekki og vilja ekki samstöðu um þetta í þinginu þá verður það að koma fram að þá verður að upplýsa það.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi tillaga og framganga formanns Vinstri grænna í þingsalnum í dag sýni að tillagan er flutt til þess að koma illu af stað en ekki til að sætta þjóðina.