5.4.2023 9:41

Jöfn staða á EES-markaði

Málið snýst um að tekið sé af skarið um að íslenskir ríkisborgarar séu ekki verr settir en aðrir EES-borgarar á sameiginlega markaðnum.

Dr. Davíð Þór Björgvinsson, dómari við landsrétt, fv. prófessor við HÍ, HR og Kaupmannahafnarháskóla og fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu birtir á vefsíðu sinni 4. apríl fróðlega grein í tilefni af umræðunum um frumvarp utanríkisráðherra um lögskýringarreglu í EES-samningnum. Hér má lesa skoðun mína á þessu máli, sjá pistil hér á síðunni og grein í Morgunblaðinu. Málið snýst um að tekið sé af skarið um að íslenskir ríkisborgarar séu ekki verr settir en aðrir EES-borgarar á sameiginlega markaðnum. Hér eru birtar tvær lokaefnisgreinar í grein Davíðs Þórs:

„Þessi regla um forgang ESB/EES-reglna er grundvallarregla í rétti sambandsins og byggir á þeirri einföldu hugsun að forsenda fyrir sameiginlegum markaði á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og vinnuafls sé að sömu reglur gildi alls staðar á honum. Hugmyndin er sú, svo skýrt sé með dæmi, að Hollendingur sem nýtir sér réttindi samkvæmt ESB og flytur til Spánar og stofnar þar fyrirtæki eigi að geta treyst því að reglur ESB gangi framar öðrum spænskum lögum rétt eins og Spánverji sem kemur sér fyrir í Hollandi í sömu erindagjörðum á að geta treyst á forgang þeirra í Hollandi. Meginatriði EES-samningsins er að Íslendingum eru tryggð þessi réttindi líka, eins og Ísland væri í ESB. Íslendingur sem flytur til Spánar á að geta treyst því að hann njóti réttinda samkvæmt ESB-reglum og mögulegar fullveldishugmyndir Spánverja standi því ekki í vegi. Á sama hátt á Spánverji sem til Íslands flytur að geta treyst því að fullveldisáhyggjur Íslendinga standi því ekki í vegi að hann njóti réttinda samkvæmt EES-reglum. Með EES-samningnum og bókun 35 gengust Íslendingar undir þá skuldbindingu að tryggja einmitt þetta.

Þrátt fyrir þessi augljósu sannindi er enn og aftur farin af stað umræðan um framsal lagasetningarvalds, yfirgang Evrópustofnana, lýðræðishalla, sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga og fl. Höfum í huga í þessu sambandi að reglum EES er fyrst og fremst ætlað að veita einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri aðild að sameiginlegum markaði ESB og veita þeim þar með réttindi, en leggja einnig á þá skyldur í samræmi við kröfur hins sameiginlega markaðar. Ef mönnum er alvara með því að fyrirvarar Íslendinga um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt standi því í vegi að einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri á Íslandi fái að fullu notið réttinda sinna á sameiginlegum markaði ESB, sem Íslendingar sjálfir sóttu um að fá aðgang að án aðildar að sambandinu, er fullveldið þeim ekki það skjól sem það ætti að vera heldur stendur það beinlínis í vegi þess að þeir fái notið þessara réttinda sinna.“

805375Davíð Þór Björgvinsson (mynd mbl.is).

Um leið og tekið er undir þessi orð Davíðs Þórs skal minnt á að tvær innlendar nefndir kunnáttumanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að rétta hlut Íslendinga með lagabreytingu til að tryggja að þeir standi jafnfætis öðrum á öllu EES-svæðinu.

Að Sjálfstæðisflokknum sé reist níðstöng fyrir að ráðherrar og þingmenn hans standi að þessari leiðréttingu og áréttingu á rétti íslenskra ríkisborgara er í engu samræmi við sögu flokksins eða efni málsins. Andstæðingar aðildar Íslands að EES ættu að velja sér annað tilefni til að afla skoðun sinni fylgis en þetta.