Árétting í þágu borgaranna
Morgunblaðið, laugardagur 1. apríl 2023,
Íslensk kona bjó í Danmörku í fullu starfi frá 1. september 2015. Hún fluttist til Íslands í september 2019, barnshafandi. Konan hóf störf hjá vinnuveitanda hér innan 10 daga frá heimkomu sinni. Hún lagði inn umsókn um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í janúar 2020 og eignaðist barn í mars 2020. Umsókn um fæðingarorlof var samþykkt. Mánaðarleg greiðsla til hennar var 184.119 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof, ekki var litið til tekna hennar í Danmörku. Konan kærði ákvörðun fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti niðurstöðu sjóðsins.
Þegar þetta lá fyrir ákvað konan að höfða mál gegn íslenska ríkinu þar sem niðurstaða sjóðsins og úrskurðarnefndarinnar samræmdist ekki reglum á evrópska efnahagssvæðinu (EES-svæðinu) og skuldbindingum ríkisins samkvæmt þeim.
Við rekstur málsins fyrir héraðsdómi Reykjavíkur var leitað álits EFTA-dómstólsins í Lúxemborg og hann spurður hvort það bryti í bága við meginreglur EES-samningsins að einungis væri tekið tillit til heildarlauna hér á landi við útreikning fæðingarorlofsins. Dómstóllinn sagði í svari sínu að launþegar ættu rétt á bótum sem væru hlutfall af heildartekjum á öllu viðmiðunartímabilinu en ekki aðeins af þeim tekjum sem aflað væri í einu landi.
Héraðsdómarinn minnti á að meginmál EES-samningsins hefði lagagildi hér á landi. Þess vegna væri eðlilegt að lögin sem lögfestu meginmál samningsins væru skýrð svo að einstaklingar ættu kröfu til þess að íslenskri löggjöf væri hagað til samræmis við EES-reglur. Tækist það ekki leiddi það af lögum um samninginn, sem og meginreglum og markmiðum samningsins, að aðildarríki kynni að verða skaðabótaskylt að landsrétti.
Í héraðsdóminum sagði einnig að 3. gr. laga um samninginn mælti svo fyrir að skýra skyldi lög og reglur, að svo miklu leyti sem við ætti, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggðust. Slík lögskýring tæki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum yrði svo sem framast væri unnt léð merking sem rúmaðist innan þeirra og næst kæmist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda ættu á evrópska efnahagssvæðinu.
Dómarinn sagðist hins vegar bundinn af því eins og fæðingarorlofssjóður og úrskurðarnefndin að réttur foreldris til greiðslu úr sjóðnum væri reistur á því samkvæmt íslenskum lögum að foreldri hefði verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Yrði hugtakið „innlendur vinnumarkaður“ ekki skýrt svo rúmt að undir það heyrðu allir vinnumarkaðir á EES-svæðinu, eins og um væri að ræða einn sameiginlegan vinnumarkað aðildarríkja EES-samningsins. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfunni.
Þessi héraðsdómur féll 10. mars 2023 án þess að athygli vekti utan réttarsalarins. Dómurinn lýsir þó óviðunandi réttarstöðu íslenskra ríkisborgara á EES-svæðinu. EES-samningurinn frá 1. janúar 1994 skuldbatt íslenska ríkið til að virða réttindin sem samningurinn skapaði íslenskum ríkisborgurum og tryggja að þeir sætu við sama borð og ríkisborgarar annarra landa við framkvæmd samningsins. Skyldi innlend löggjöf taka mið af þeirri skuldbindingu.
Á þessu er misbrestur eins og fæðingarorlofsmálið ber með sér og fleiri mætti nefna til sögunnar. Sameiginleg eftirlitsstofnun EES/EFTA-ríkjanna þriggja, ESA, gerði íslenska ríkinu grein fyrir þessum misbresti fyrir sex árum eða svo. Síðan hafa tvær nefndir lögfróðra manna skoðað málið á vegum íslenskra stjórnvalda og báðar lagt til að lagákvæðinu sem snýr að þessari skyldu samkvæmt EES-samningnum verði breytt. Í tillögum nefndanna felst viðurkenning á því að íslenskir ríkisborgarar eigi kröfu til þess að íslenskri löggjöf sé hagað til samræmis við EES-reglur, svo vitnað sé til þess sem að ofan segir.
Hinn kosturinn í málinu er að hafna athugasemd ESA, hún sé ekki á rökum reist. ESA færi þá með málið fyrir EFTA-dómstólinn þar sem íslenska ríkið myndi verja afstöðu sína. Réttarstaða íslenska ríkisins yrði ekki sterk miðað við álit ýmissa innlendra fræðimanna og fyrrgreindra tveggja sérfræðinefnda á vegum íslenska ríkisins.
Á sínum tíma sat ég tuga funda í utanríkismálanefnd alþingis þar sem farið var í saumana á texta EES-samningsins. Það er af og frá að ætlun þingmanna hafi verið að réttur íslenskra ríkisborgara yrði lakari en réttur borgara annarra landa við framkvæmd samningsins. Skerði orðalagið sem þá varð til í raun rétt Íslendinga ber að breyta því. Öllum getur orðið á og allir eiga leiðréttingu orða sinna.
Í slíkri áréttingu á lagatexta nú felst engin skerðing á fullveldi eða sjálfstæði íslenska ríkisins. Um er að ræða innlenda lagasetningu sem breytir í engu eðli íslenskra þjóðréttarskuldbindinga.
Skuldbindingarnar er að finna í bókun 35 við EES-samninginn sem felur ekki í sér framsal löggjafarvalds. Þegar EES-samningurinn var samþykktur á þingi 12. janúar 1993 var stuðst við skýrslu fjögurra lögfróðra manna. Þeir töldu bókun 35 og samninginn standast stjórnarskrá enda væri aðildarríkjunum ekki gert að framselja löggjafarvald til stofnana sem féllu undir samninginn. Þetta væri ljóst og afdráttarlaust. Lögskýringarreglur leiddu ekki heldur til þess að nauðsynlegt væri að breyta stjórnarskrá.
Í því tilviki sem hér um ræðir er einmitt mælt fyrir um lögskýringarreglu íslenskum ríkisborgurum í hag, að tryggja þeim fullveldi, án þess að ganga á fullveldisrétt ríkisins.