1.4.2023

Árétting í þágu borgaranna

Morgunblaðið, laugardagur 1. apríl 2023,

Íslensk kona bjó í Dan­mörku í fullu starfi frá 1. sept­em­ber 2015. Hún flutt­ist til Íslands í sept­em­ber 2019, barns­haf­andi. Kon­an hóf störf hjá vinnu­veit­anda hér inn­an 10 daga frá heim­komu sinni. Hún lagði inn um­sókn um greiðslur úr fæðing­ar­or­lofs­sjóði í janú­ar 2020 og eignaðist barn í mars 2020. Um­sókn um fæðing­ar­or­lof var samþykkt. Mánaðarleg greiðsla til henn­ar var 184.119 krón­ur á mánuði miðað við 100% fæðing­ar­or­lof, ekki var litið til tekna henn­ar í Dan­mörku. Kon­an kærði ákvörðun fæðing­ar­or­lofs­sjóðs til úr­sk­urðar­nefnd­ar vel­ferðar­mála sem staðfesti niður­stöðu sjóðsins.

Þegar þetta lá fyr­ir ákvað kon­an að höfða mál gegn ís­lenska rík­inu þar sem niðurstaða sjóðsins og úr­sk­urðar­nefnd­ar­inn­ar sam­ræmd­ist ekki regl­um á evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES-svæðinu) og skuld­bind­ing­um rík­is­ins sam­kvæmt þeim.

Við rekst­ur máls­ins fyr­ir héraðsdómi Reykja­vík­ur var leitað álits EFTA-dóm­stóls­ins í Lúx­em­borg og hann spurður hvort það bryti í bága við meg­in­regl­ur EES-samn­ings­ins að ein­ung­is væri tekið til­lit til heild­ar­launa hér á landi við út­reikn­ing fæðing­ar­or­lofs­ins. Dóm­stóll­inn sagði í svari sínu að launþegar ættu rétt á bót­um sem væru hlut­fall af heild­ar­tekj­um á öllu viðmiðun­ar­tíma­bil­inu en ekki aðeins af þeim tekj­um sem aflað væri í einu landi.

Héraðsdóm­ar­inn minnti á að meg­in­mál EES-samn­ings­ins hefði laga­gildi hér á landi. Þess vegna væri eðli­legt að lög­in sem lög­festu meg­in­mál samn­ings­ins væru skýrð svo að ein­stak­ling­ar ættu kröfu til þess að ís­lenskri lög­gjöf væri hagað til sam­ræm­is við EES-regl­ur. Tæk­ist það ekki leiddi það af lög­um um samn­ing­inn, sem og meg­in­regl­um og mark­miðum samn­ings­ins, að aðild­ar­ríki kynni að verða skaðabóta­skylt að lands­rétti.

Í héraðsdóm­in­um sagði einnig að 3. gr. laga um samn­ing­inn mælti svo fyr­ir að skýra skyldi lög og regl­ur, að svo miklu leyti sem við ætti, til sam­ræm­is við EES-samn­ing­inn og þær regl­ur sem á hon­um byggðust. Slík lög­skýr­ing tæki eðli máls sam­kvæmt til þess að orðum í ís­lensk­um lög­um yrði svo sem fram­ast væri unnt léð merk­ing sem rúmaðist inn­an þeirra og næst kæm­ist því að svara til sam­eig­in­legra reglna sem gilda ættu á evr­ópska efna­hags­svæðinu.

Dóm­ar­inn sagðist hins veg­ar bund­inn af því eins og fæðing­ar­or­lofs­sjóður og úr­sk­urðar­nefnd­in að rétt­ur for­eldr­is til greiðslu úr sjóðnum væri reist­ur á því sam­kvæmt ís­lensk­um lög­um að for­eldri hefði verið sam­fellt í sex mánuði á inn­lend­um vinnu­markaði fyr­ir fæðing­ar­dag barns. Yrði hug­takið „inn­lend­ur vinnu­markaður“ ekki skýrt svo rúmt að und­ir það heyrðu all­ir vinnu­markaðir á EES-svæðinu, eins og um væri að ræða einn sam­eig­in­leg­an vinnu­markað aðild­ar­ríkja EES-samn­ings­ins. Var ís­lenska ríkið því sýknað af kröf­unni.

Procedure-statute-400x300

Þessi héraðsdóm­ur féll 10. mars 2023 án þess að at­hygli vekti utan rétt­ar­sal­ar­ins. Dóm­ur­inn lýs­ir þó óviðun­andi rétt­ar­stöðu ís­lenskra rík­is­borg­ara á EES-svæðinu. EES-samn­ing­ur­inn frá 1. janú­ar 1994 skuld­batt ís­lenska ríkið til að virða rétt­ind­in sem samn­ing­ur­inn skapaði ís­lensk­um rík­is­borg­ur­um og tryggja að þeir sætu við sama borð og rík­is­borg­ar­ar annarra landa við fram­kvæmd samn­ings­ins. Skyldi inn­lend lög­gjöf taka mið af þeirri skuld­bind­ingu.

Á þessu er mis­brest­ur eins og fæðing­ar­or­lofs­málið ber með sér og fleiri mætti nefna til sög­unn­ar. Sam­eig­in­leg eft­ir­lits­stofn­un EES/​EFTA-ríkj­anna þriggja, ESA, gerði ís­lenska rík­inu grein fyr­ir þess­um mis­bresti fyr­ir sex árum eða svo. Síðan hafa tvær nefnd­ir lög­fróðra manna skoðað málið á veg­um ís­lenskra stjórn­valda og báðar lagt til að lagákvæðinu sem snýr að þess­ari skyldu sam­kvæmt EES-samn­ingn­um verði breytt. Í til­lög­um nefnd­anna felst viður­kenn­ing á því að ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar eigi kröfu til þess að ís­lenskri lög­gjöf sé hagað til sam­ræm­is við EES-regl­ur, svo vitnað sé til þess sem að ofan seg­ir.

Hinn kost­ur­inn í mál­inu er að hafna at­huga­semd ESA, hún sé ekki á rök­um reist. ESA færi þá með málið fyr­ir EFTA-dóm­stól­inn þar sem ís­lenska ríkið myndi verja af­stöðu sína. Rétt­arstaða ís­lenska rík­is­ins yrði ekki sterk miðað við álit ým­issa inn­lendra fræðimanna og fyrr­greindra tveggja sér­fræðinefnda á veg­um ís­lenska rík­is­ins.

Á sín­um tíma sat ég tuga funda í ut­an­rík­is­mála­nefnd alþing­is þar sem farið var í saum­ana á texta EES-samn­ings­ins. Það er af og frá að ætl­un þing­manna hafi verið að rétt­ur ís­lenskra rík­is­borg­ara yrði lak­ari en rétt­ur borg­ara annarra landa við fram­kvæmd samn­ings­ins. Skerði orðalagið sem þá varð til í raun rétt Íslend­inga ber að breyta því. Öllum get­ur orðið á og all­ir eiga leiðrétt­ingu orða sinna.

Í slíkri árétt­ingu á laga­texta nú felst eng­in skerðing á full­veldi eða sjálf­stæði ís­lenska rík­is­ins. Um er að ræða inn­lenda laga­setn­ingu sem breyt­ir í engu eðli ís­lenskra þjóðrétt­ar­skuld­bind­inga.

Skuld­bind­ing­arn­ar er að finna í bók­un 35 við EES-samn­ing­inn sem fel­ur ekki í sér framsal lög­gjaf­ar­valds. Þegar EES-samn­ing­ur­inn var samþykkt­ur á þingi 12. janú­ar 1993 var stuðst við skýrslu fjög­urra lög­fróðra manna. Þeir töldu bók­un 35 og samn­ing­inn stand­ast stjórn­ar­skrá enda væri aðild­ar­ríkj­un­um ekki gert að fram­selja lög­gjaf­ar­vald til stofn­ana sem féllu und­ir samn­ing­inn. Þetta væri ljóst og af­drátt­ar­laust. Lög­skýr­ing­ar­regl­ur leiddu ekki held­ur til þess að nauðsyn­legt væri að breyta stjórn­ar­skrá.

Í því til­viki sem hér um ræðir er ein­mitt mælt fyr­ir um lög­skýr­ing­ar­reglu ís­lensk­um rík­is­borg­ur­um í hag, að tryggja þeim full­veldi, án þess að ganga á full­veld­is­rétt rík­is­ins.