EES-hnökrar lagfærðir
Aðildin að samningnum hefur skapað íslenskum ríkisborgurum ný réttindi og þeir geta gert kröfu um að réttur þeirra til að njóta réttinda og skyldna sé virtur.
Þess verður væntanlega minnst á verðugan hátt 1. janúar 2024 að 30 ár verða liðin frá gildistöku EES-samningsins. Enginn alþjóðasamningur hefur breytt daglegu lífi á Íslandi eins mikið og sá samningur. Markmið samningsins er að mynda einsleitt evrópskt efnahagssvæði sem felur í sér svokallað fjórfrelsi – frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga. Þá kemur samningurinn á kerfi til þess að tryggja að samkeppni raskist ekki og nánari samvinnu á öðrum sviðum.
Samningurinn er umgjörð um stöðuga aðlögun að kröfunum sem fylgja aðild að þessum sameiginlega evrópska markaði, innri markaði Evrópu.
Aðildin að samningnum hefur skapað íslenskum ríkisborgurum ný réttindi og þeir geta gert kröfu um að réttur þeirra til að njóta réttinda og skyldna á innri markaðnum sé ekki minni en borgara annarra aðildarlanda hans.
Nýja EFTA-húsið í Brussel, þar er ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, meðal annars til húsa.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra lagði fimmtudaginn 23. mars fram frumvarp þar sem tekið er á vanda sem í ljós hefur komið við framkvæmd EES-samningsins hér vegna orðalags í texta sem innleiðir bókun 35 við samninginn. Íslenskir fræðimenn og sérfræðingar sem um málið hafa fjallað telja að bókunin sé ekki innleidd með fullnægjandi hætti og íslenska ríkið fari í bága við þjóðréttarskuldbindingar sínar.
Frumvarpi ráðherrans fylgir löng greinargerð efni þess til stuðning, en sjálft frumvarpið er aðeins ein grein auk gildistökuákvæðis.
Hvergi hafa rök nefndarinnar sem samdi frumvarpið og stendur að baki ítarlegri og vel rökstuddri greinargerðinni verið rakin opinberlega en á forsíðu Morgunblaðsins í dag (27. mars) birtist hins vegar gagnrýni tveggja lagakennara á frumvarpið.
Í forsíðufrétt blaðsins er minnst á umhverfismál og EES-samninginn í sömu andránni. Þar er þess látið ógetið að það voru EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Liechtenstein og Noregur, sem óskuðu eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fylgdist með framkvæmd ríkjanna á Parísarsamkomulaginu frá 2015. Rökin má vafalaust rekja til hagkvæmni. Að gera því skóna að með þessu sé reynt á þanþol EES-samningsins gefur ekki rétta mynd.
Það var ESA sem á sínum tíma benti íslenskum stjórnvöldum á að framkvæmd EES-samningsins veitti íslenskum borgurum ekki þann rétt sem þeim bæri vegna vankanta á innleiðingu bókunar 35.
Hér er því um innlent vandamál að ræða sem leyst er með frumvarpinu sem nú liggur fyrir alþingi. Í Morgunblaðinu í dag segir viðmælandi blaðsins, Stefán Már Stefánsson, fyrrv. lagaprófessor, að í stað þess að alþingi taki af skarið á þennan hátt megi bíða þess að ESA fari með mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn og síðan verði tekið á málinu, verði dómstólinn sammála ESA.
„Ef við hlýðum því ekki þá erum við ekki að efna skuldbindingar okkar,“ segir Stefán Már.
Í ljósi málavaxta er skynsamlegt að alþingi taki af skarið með frumvarpi utanríkisráðherra í stað þess að stofna til málaferla og fá skipun dómara um að leysa vandamál sem íslensk stjórnvöld hafa árum saman viðurkennt að sé fyrir hendi við framkvæmd EES-samningsins.