9.4.2018 10:48

Guðni ber blak af Rússum

Það er nýstárleg kenning að aðildarþjóð NATO sé „hlutlaus þjóð“ og furðulegt að fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands haldi þessu fram.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, skrifar grein í Morgunblaðið í dag (9.apríl) og veltir fyrir sér spurningunni hvert Íslendingar stefna í utanríkismálum. Kjarni greinarinnar er að Guðna finnst of hart tekið á Rússum, einkum í tíð Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi flokksbróður síns. Um hlut Gunnars Braga segir Guðni:

„Áðurnefndur Gunnar Bragi agtaði og talaði í Úkraínu eins og leiðtogi ESB, barði sér á brjóst og dreifði blómum. Fyrir vikið hafði Ísland hlutfallslega mestan skaða af viðskiptabanninu, þá var skellt á okkur.“

Þessi kenning er með öllu ósönnuð. Í grein sinni býsnast Guðni þó yfir því að íslensk stjórnvöld mótmæli eiturefnaárásinni í Salisbury. „Nú er komið á daginn að ekkert er sannað í þessum efnum,“ segir Guðni og mótmælir því að gert sé á hlut Rússa vegna hennar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þáv. utanríkisráðherra, á mótmælatorginu í Kænugarði 23. mars 2014. Af vefsíðu stjórnarráðsins.

Guðni hafnar því ef til vill að brugðist sé við eiturefnaárásinni laugardaginn 7. apríl í austurhluta Ghouta, skammt fyrir utan Damaskus í Sýrlandi, af því að stjórnir Sýrlands og Rússlands neita aðild að henni?

Í grein Guðna eru firrur eins og sú að ESB-ríkin staðfesti mat Breta á því hver stóð að árásinni í Salisbury „í von um að Bretar snúi aftur í hið brothætta Evrópusamband“.

Utanríkismálanefnd alþingis stóð einhuga að baki ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um að lækka risið á opinberri þátttöku íslenskra ráðamanna í HM í Rússlandi í sumar. Guðni er ósáttur við þetta og segir:

„Ég tel mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi skoði vel á nýjan leik verklag okkar í utanríkismálum. Við viljum vera hlutlaus þjóð og alls ekki þátttakendur í stríði og þannig var stefnan framkvæmd hér í áratugi.“

Það er nýstárleg kenning að aðildarþjóð NATO sé „hlutlaus þjóð“ og furðulegt að fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands haldi þessu fram. Síðari ár hafa hlutlausu nágrannaþjóðirnar Finnar og Svíar  horfið frá hlutleysisstefnu sinni og hafið náið samstarf við NATO og sérstaklega Bandaríkjamenn.

Finnar hafa komið á fót sérstöku setri til að rannsaka það sem kallað er blandað stríð á íslensku ( sjá hér ). Það er einkum háð innan lýðræðisríkjanna þar sem rökrætt er um hvernig bregðast eigi við rússneskum launráðum og undirróðri. Nýtt verklag í utanríkismálum þarf að taka mið að þessari þróun til að stjórnmálamenn og aðrir hafi upplýsingar og þekkingu til að bregðast við því sem hæst ber í utanríkis- og öryggismálum hverju sinni.

Guðni Ágústsson víkur einnig að forkastanlegri framgöngu breskra stjórnvalda gagnvart Íslendingum í bankahruninu. Um það fjallaði ég síðast hér.