29.3.2018 13:26

Bretar verða að loka hryðjuverkasárinu

Það ber bresku utanríkisþjónustunni ekki gott vitni ef hún áttar sig ekki á djúpstæðri reiði Íslendinga vegna atburðanna í byrjun október 2008

Á Facebook-síðu verða oft líflegar umræður um efni sem hér birtist. Í gær létu til dæmis margir í ljós vanþóknun á að íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum vestrænna þjóða og mótmæla rússneskum stjórnvöldum vegna eiturefnaárásarinnar í Salisbury.

Sumir eru þeirrar skoðunar að ekki eigi að grípa til slíkra gagnaðgerða nema full sönnun sé fyrir aðild Rússa að árásinni. Lögreglurannsókn er ekki lokið í Bretlandi. Rússnesku feðginin liggja enn milli heims og helju á sjúkrahúsi en nokkrir tugir annarra íbúa í Salisbury hafa farið undir læknishendur og lögreglumaður skaðaðist verulega af eitrinu. Þetta er í fyrsta sinn sem gjöreyðingarvopni er beitt í Evrópu frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar. Rússar einir eiga birgðir af þessu eitri.

Viku eftir að árásin var gerð gaf breska stjórnin Rússum færi á að skýra sjónarmið sín sem þeir gerðu ekki og þá kynnti Theresa May forsætisráðherra aðgerðaáætlun stjórnar sinnar. Gögn voru sýnd stjórnvöldum annarra landa og víðtæk samstaða myndaðist um gagnaðgerðir. Alþjóðastofnanir hafa sýni til athugunar.

Lygasmiðjur Rússa hafa hamrað á því að þeir eigi engan hlut að þessu máli eins og þær segja Rússa ekki standa að baki ófriðnum í austurhluta Úkraínu. Þá leitast þær við birta misvísandi fréttir um lyfjamisnotkunar hneykslið innan rússnesku íþróttahreyfingarinnar. Svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Þá birtist einnig sú skoðun í FB-athugasemdunum að Bretar eigi ekkert inni hjá okkur vegna landhelgisdeilnanna og þó ekki síst vegna þess að Verkamannaflokksmennirnir Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, og Alistair Darling fjármálaráðherra beittu okkur hryðjuverkalögum í október 2008 – Bretar hafi ekki beðist afsökunar vegna þess. Með vísan til þess eigi ekki að standa með bresku ríkisstjórninni í þessu máli. Nokkrir taka undir róg rússneska þingmannsins sem talar um íslensk stjórnvöld sem leppa Breta og Bandaríkjamanna. Einn liður í rússneska áróðrinum nú er að Bretar ráði ekki ferðinni heldur sé þessu öllu stjórnað frá Washington.

846446Styrmir Kári tók þessa mynd sem birtist á mbl.is 29. október 2015 og sýnir þáv. forsætisráðherra David Cameron og Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Í október 2015 kom sjálfur David Cameron, þáv. forsætisráðherra Breta, hingað til lands á ráðstefnuna Northern Future Forum 2015. Hann hitti meðal annarra Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáv. forsætisráðherra, og sat fyrir svörum á blaðamannafundi 29. október 2015 sem sagt er frá á mbl.is. Hann tók ekki af skarið þegar hann var spurður „hvort bresk stjórnvöld hefðu í hyggju að biðja Íslendinga formlega afsökunar á því að ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forystu Gordons Brown beitti hryðjuverkalöggjöf gegn Íslandi í kjölfar þess að stóru viðskiptabankarnir þrír féllu haustið 2008“.

Sigmundur Davíð hefur ef til vill einhvers staðar og einhvern tíma sagt frá því á hvern veg þeir Cameron ræddu hryðjuverkaákvörðunina frá 2008.

Nýlega kom hingað til lands Tom Fletcher, fyrrv. sendiherra Breta og ráðgjafi í breska forsætisráðuneytinu í október 2008. Flutti hann erindi á ráðstefnu um framtíð utanríkisþjónustu á vegum íslenska utanríkisráðuneytisins föstudaginn 16. mars. Rætt var við hann í Kastljósi miðvikudaginn 21. mars. Hann var ekki mjög diplómatískur þegar hann sagði þar að eftir stutta dvöl sína hér áttaði hann sig á að Íslendingar væru ekki hryðjuverkamenn!

Sama kvöldið og Kastljósið birtist sagði Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur á FB-síðu sinni:

„Viðurkenning úr innsta hring á því að ofsahræðsla stýrði aðgerðum Breta 2008. Ég er ekki opinber embættismaður núna og má tjá mig frjálst: Tom Fletcher sýndi Íslandi alvarlega óvirðingu í þessu RUV-viðtali með því að nefna í engu ómælanlegan skaða sem aðgerðirnar ollu Íslandi, bandalagsríki í stórfelldri neyð. Ég man vel eigin samtöl á erlendri grundu við breska diplómata haustið 2008, sem sögðu mér beint út að víðtæk óánægja væri í þeirra röðum vegna þess að beitt var árásaraðgerðum gegn Íslandi í stað eðlilegra diplómatískra leiða. Ég hef alltaf sagt að þarna hófst harðasta milliríkjadeila í sögu Íslands til þessa.“

Eitt er að breskir embættismenn telji sig hafa gert mistök vegna ofsahræðslu haustið 2008, annað að tæpum 10 árum síðar hafi þeim ekki tekist að loka sárinu sem myndaðist í samskiptum þjóðanna þetta haust. Það ber bresku utanríkisþjónustunni ekki gott vitni ef hún áttar sig ekki á djúpstæðri reiði Íslendinga vegna atburðanna í byrjun október 2008. Það grær ekki um heilt nema mistökin séu viðurkennd með opinberri afsökun.