9.1.2026 10:39

Vitvélar og bílastæðagræðgi

Önnur starfræn aðferð til að ná fé af bíleigendum er að starfsmenn bílastæðasjóðs Reykjavíkur aka um borgina í bifreið með myndavélum og sekta eftir myndunum.

Með aðstoð vitvéla hefur verið innleitt nýtt stafrænt umhverfi til að hafa sem mest fé af bíleigendum leggi þeir á stæði með skiltum um gjaldskyldu. „Bílastæðagræðgi“ kallar Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, afleiðingar breytinganna.

Hér var á dögunum sögð saga af reynslu eiganda bíls sem lagt var á stæði í boganum fyrir framan Háskóla Íslands en honum hefur nú verið breytt í féþúfu fyrir bílastæðafyrirtækið Parka.

Til er kerfi sem á íslensku heitir keyrt og kvitt (e. autopay). Það virkar þannig að mynd er tekin af bíl þegar honum er ekið inn á gjaldskylt svæði og síðan að nýju þegar ekið er út af því. Síðan berst bíleiganda rukkun í heimabanka fyrir þann tíma sem bíllinn var á gjaldskyldu svæði. Þannig er þetta til dæmis hjá EasyPark á stæðum í kjallara Hörpu eða þegar farið er inn á stæði Guls bíls hjá TBR-húsinu í Laugardal.

Hjá Parka á háskólasvæðinu virkar kerfið hins vegar þannig að bíllinn er skráður þegar þú ferð inn en við útkeyrsluna ert þú ekki kvitt, innheimta er ekki send í heimabanka fyrr en eftir 24 tíma og þá með 1960 kr. álagi. Á smáu letri á skiltum við inn- og útkeyrslu má sjá leiðbeiningar um hvernig má komast hjá þessu álagi.

Viðskiptahættir af þessu tagi urðu til þess að Árnastofnun valdi vangreiðslugjald orð ársins og orðið gjaldskylda varð orð ársins hjá ríkisútvarpinu. Í dæminu hér að ofan er álag Parka í skjóli smáa letursins kallað vangreiðslugjald.

Önnur starfræn aðferð til að ná fé af bíleigendum er að starfsmenn bílastæðasjóðs Reykjavíkur aka um borgina í bifreið með myndavélum og sekta eftir myndunum.

Þá er sektað við aðstæður sem aldrei hefði verið gert af gangandi bílastæðaverði. Má þar nefna að maður stendur við hlið bíls síns og bíður í eina eða tvær mínútur eftir farþega á stæði sem ekki er merkt sem bílastæði eða leigubíl er ekið inn á stæði hópferðabifreiða við hótel til að hleypa út fólki. Aðstæðurnar sjást ekki á myndavélinni en sektirnar geta verið 10.000 kr. og meira.

Screenshot-2026-01-09-at-10.15.33Fátt var um svör hjá atvinnuvegaráðherra í sjóvarpsfréttum (skjáskot).

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra Viðreisnar sagði í fréttum sjónvarps að kvöldi 8. janúar að fjölgun á gjaldskyldum bílastæðum væri óboðleg og að gripið hefði verið til ráða, svo vitnað sé í ruv.is.

Því miður verður að segja að ógjörningur var að skilja hver væru ráð ráðherrans til að snúa ofan af þessari þróun sem var meðal annars lýst á broslegan hátt í áramótaskaupinu. Ræða ráðherrans í fréttunum hefði fallið vel að skaupinu til að árétta að á liðnu ári hefur keyrt um þverbak í þessum málum án þess að yfirvöld viti hvernig við eigi að bregðast.

Vandinn er ekki sá að eigendur lands hafi heimild til að taka gjald fyrir notkun þess eins og ætla mátti af umfjöllun ríkisútvarpsins heldur hitt hvernig að gjaldtökunni er staðið, hvaða leikreglur gilda.

Atvinnuvegaráðherra lét við það sitja að vísa á Neytendastofu, hún myndi kynna leiðbeiningar til bílastæðafyrirtækja. Lágstemmdari verða viðbrögðin ekki þrátt fyrir allan orðaflauminn.