27.12.2025 10:33

Vangreiðslugjald - reynslusaga

Ákvörðun Árnastofnunar um að velja vangreiðslugjald sem orð ársins minnir á samkeppni í þjónustu og gjaldtöku bílastæðafyrirtækja. Varúð gagnvart Parka!

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum valdi orðið vangreiðslugjald sem orð ársins 2025. Þetta er gjald sem bílastæðafyrirtæki innheimta þegar ekki er greitt fyrir gjaldskylt bílastæði innan tiltekins tímaramma. Leggst gjaldið ofan á stöðugjaldið

Við val orðs ársins er tölfræðilegum aðferðum beitt og hefur það verið gert frá árinu 2018 þegar stofnunin kynnti orð ársins í fyrsta skipti.

„Þótt orðið vangreiðslugjald sé tiltölulega nýtt má finna það í fréttum um bílastæðamál á árunum 2011 og 2018. Orðið vangreiðsla er þó ekki nýtt en er algengara í lagamáli en almennu máli. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er vangreiðsla skýrt sem ’of lág greiðsla’,“ segir í tilkynningu Árnastofnunar.

IMG_3127

Hér er reynslusaga um kynni af þessu gjaldi.

Háskóli Íslands samdi við Parka lausnir ehf. um þjónustu við rekstur og gjaldtöku fyrir bílastæði á háskólasvæðinu og hófst innheimta gjaldanna 18. ágúst 2025.

Við innkeyrslu á stæðin í boganum við háskólabygginguna er skilti á vinstri hönd (sjá mynd). Þar er smátt letur sem lýsir því sem gerist aki menn inn á svæðið á gjaldskyldum tíma og þeim beri að greiða gjald fyrir það innan 24 stunda eftir útkeyrslu en við hana er sams konar spjald. Efast má um að nokkur stöðvi bíl við inn- eða útakstur og fari að þessum spjöldum til að lesa það sem á þeim stendur.

Á vefsíðu Háskóla Íslands má eftir leit lesa þennan texta: „Keyrt og kvitt virkar ekki á bílastæðum Háskóla Íslands. Greiða þarf handvirkt í Parka-appinu, á vefsíðu Parka eða í greiðsluvélum. Myndavélar (LPR) eru aðeins til eftirlits – engin sjálfvirk inn-/útskráning fyrir þá sem eru ekki í áskrift.“

Þessi texti þýðir í reynd að tekin er mynd af númeri bíls sem ekið er inn á stæðið og einnig þegar hann fer út af því. Á stæðinu eru staurar með merki Parka en greiðsluvélar eru ekki sýnilegar þarna.

Sá sem ætlar til dæmis að hlusta á erindi í hátíðarsal skólans á greiðsluskyldum tíma þarf að hafa aðgang að Parka-appinu eða muna eftir að fara á vefsíðu Parka eða í greiðsluvél innan 24 tíma frá brottför af stæðinu til að losna undan vangreiðslugjaldinu. Innheimta þess er stafræn og er framkvæmd eftir að 24 stundirnar frá útkeyrslu eru liðnar, þá breytist 230 kr. tímagjald fyrir bílastæðið í 2.236 kr., vangreiðslugjaldið er 1.960 kr. auk vsk.

Í raun er um keyrt og kvitt kerfi að ræða en það kostar 1.960 kr. að nýta sér það. Í þessu felst frekleg ósvífni miðað við þjónustu hjá Gulum bíl ehf. svo að dæmi sé tekið. Fyrirtækið stendur t.d. að gjaldskyldu á bílastæði Tennis og Badmintonfélags Reykjavíkur (TBR) í Laugardal. Bílastæðið er opið almenningi gegn 250 kr. tímagjaldi sem er sent til innheimtu í heimabanka skömmu eftir brottför.

Árið 2024 tók Gulur bíll upp þá reglu að eigendur bíla sem fæddir eru fyrir 1955 fá ekki vangreiðslugjöld á bílastæðagjöld sín jafnvel þó ekki séu notaðar greiðsluleiðir Autopay, það er keyrt og kvitt.

Ákvörðun Árnastofnunar um að velja vangreiðslugjald sem orð ársins minnir á samkeppni í þjónustu og gjaldtöku bílastæðafyrirtækja. Varúð gagnvart Parka!