4.9.2017 9:44

Vinstri kerfisvörn

Sérkenni umræðna um heilbrigðismál í fjölmiðlum og stjórnmálum hér á landi er að þær eru jafnan á forsendum opinbers rekstrar. Þar er ríkisrekstur lagður til grundvallar  og litið á allt annað sem ógn við hann.

Sérkenni umræðna um heilbrigðismál í fjölmiðlum og stjórnmálum hér á landi er að þær eru jafnan á forsendum opinbers rekstrar. Þar er ríkisrekstur lagður til grundvallar  og litið á allt annað sem ógn við hann. Sjónarhornið er frá vinstri og látið eins og sjálfsagt sé að þeir séu í vörn sem hafa annað sjónarhorn.

Þessari skoðun til staðfestingar má nefna frétt í Fréttablaðinu í morgun, 4. september, sem hefst á þessum orðum:

„Um 6.500 íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa sagt skilið við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) á síðustu þremur mánuðum og fært sig til einkarekinnar heilsugæslu á svæðinu með tilheyrandi tekjuskerðingu fyrir opinbera kerfið.“

Útgangspunkturinn er ekki að fagna því að 6.500 manns hafi fengið svigrúm til að velja sér nýjan þjónustuaðila heldur að „opinbera kerfið“ hafi orðið fyrir tekjuskerðingu.

Meginfréttapunkturinn er þessi: „Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir þetta hafa mikil áhrif á reksturinn hjá þeim og draga þurfi saman seglin.“

Í apríl 2017 birti ríkisendurskoðun stjórsnýsluúttekt á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar er lýst mikilli brotalöm í opinberum rekstri sem leiðir til sóunar á fjármunum, meira álags á Landspítalann en eðlilegt er og óstjórnar. Sjá hér.

Í Fréttablaðinu er rætt við forstöðufólk HH sem segir að breytingarnar sem orðið hafi með minni áhuga almennings á að nýta sér starfsemi stofnunarinnar hafi „mikil áhrif“ á rekstur hennar. Væntanlega verður nú tekið til hendi og bætt úr ágöllunum sem lýst er í úttekt ríkisendurskoðunar.

Fréttablaðið sér ekki ástæðu til að rifja upp gagnrýni ríkisendurskoðunar en ræðir við Guðjón Brjánsson, alþingismann, fulltrúa Samfylkingarinnar í velferðarnefnd þingsins sem segir „þetta geta haft mjög neikvæð áhrif fyrir opinbera heilbrigðiskerfið. Hverjum sjúklingi sé í sjálfsvald sett hvar hann skráir sig til heimilislæknis“.

Guðjón talar þarna á forsendum kerfisins en nefnir einnig án frekari skilgreiningar „ákveðna sjúklingahópa“. Í lok fréttarinnar segir:

„Markmið með þessum breytingum er að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað sjúklinga og minnka þannig álag á Landspítalann sem og að allir einstaklingar geti skráð sig til heimilislæknis.“

Reynslan sýnir að einkarekin þjónusta við sjúklinga minnkar biðlista og kallar á betri þjónustu innan opinbera kerfisins. Að ræða rekstur heilbrigðisþjónustu með ríkisrekstur að leiðarljósi er úrelt kerfissjónarmið vinstrisinna. Þjónustuna á að ræða frá sjónarhóli þeirra sem þurfa á henni að halda og borga fyrir hana hvort heldur sem skattgreiðendur eða greiðendur þjónustugjalda.