27.4.2017 15:16

Ólík fjölmiðlaafstaða til opinberra stofnana

Hér sannast sama og í lekamálinu fræga að leki er ekki sama og leki heldur fer það eftir hver á í hlut hverju sinni.

Ekki hefur farið fram hjá neinum sem hlustar á fréttir ríkisútvarpsins að innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kvarta menn undan því að Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók til hendi á þann veg að ýmsum mislíkaði eftir að hún var skipuð í embætti lögreglustjóra við erfiðar og sérkennilegar aðstæður.

Nýlega var skýrt frá niðurstöðu vinnusálfræðings sem innanríkisráðuneytið fékk til að fara yfir kvörtun lögreglumanns sem taldi lögreglustjórann hafa lagt sig í einelti. Sálfræðingurinn segir að ekki hafi verið um einelti að ræða heldur áreiti og nefnir þetta máli sínu til stuðnings að því er segir í frétt á ruv.is þriðjudaginn 25. apríl:

„Í einu þessara tilvika skammaði Sigríður Björk lögreglumanninn og ávítti hann með hávaða og æsingi og hlustaði ekki á hann. Annað tilvik snerist um að Sigríður segði að lögreglumaðurinn gæti ekki lengur gegnt stöðu lögreglufulltrúa innan miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar og þriðja tilvikið sneri að ferð á lögreglunámskeið í Búdapest sem lögreglumaðurinn átti að sækja en lögreglustjórinn ákvað að hann færi ekki.“

Ástæðulaust er að gera lítið úr þessu fyrir þann sem hlut átti að máli og taldi sér misboðið. Hitt er spurning hvort þetta sé tilefni allra þeirra frétt sem fluttar hafa verið eða tilefni þess að kalla dómsmálaráðherra og fleiri í Kastljós til að ræða málið.

Hér sannast sama og í lekamálinu fræga að leki er ekki sama og leki heldur fer það eftir hver á í hlut hverju sinni.

Nefna má tvö mál sem snerta opinbera aðila ekki síður en þetta en fá þó ekki neitt sambærilega umfjöllun í fjölmiðlum.

Fyrra málið eru hrakfarir Seðlabanka Íslands gagnvart Samherja. Að framkvæmd gjaldeyrishaftanna hafi getið af sér slíka ofríkiskennd innan opinberrar stofnunar sannar kenninguna um að vald spillir. Að svo til ekkert skuli fjallað um málið með vísan til stjórnarhátta innan bankans er furðulegt, ekki síst í ljósi þess hvernig næstum daglega er reynt að finna fréttir til að bregða vondu ljósi á stjórnunarhætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Síðara málið er stjórsnýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á stofnuninni Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu. Þar er lýst mikilli brotalöm í opinberum rekstri sem leiðir til sóunar á fjármunum, meira álags á Landspítalann en eðlilegt er og óstjórnar.

Á bls. 22 í skýrslunni segir:

„Við gerð þessarar skýrslu fékk Ríkisendurskoðun ábendingar um að langvarandi samskipta- og stjórnunarvanda hefði gætt innan framkvæmdastjórnar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Stofnuninni var jafnframt greint frá því að velferðarráðuneyti hefði ítrekað verið upplýst um þessi mál allt frá árinu 2011. Hinn 14. apríl það ár lýstu yfirlæknar heilsugæslustöðva yfir vantrausti á forstjóra stofnunarinnar og komu sjónar- miðum sínum á framfæri bæði við starfsmenn ráðuneytisins og ráðherra. Í framhaldi af þessu dró verulega úr samskiptum forstjóra og yfirlækna og voru þau í lágmarki næstu árin. Áður höfðu þessir aðilar fundað reglulega.

Ríkisendurskoðun beindi fyrirspurn til ráðuneytisins um þetta mál í byrjun mars 2017. Í svari þess til stofnunarinnar tók það fram að það hefði þegar gert ráðstafanir um að óháður aðili gerði úttekt á samskiptavanda innan yfirstjórnar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það hefði verið gert vegna þess að ráðuneytinu hefðu borist ábendingar um að slíkur vandi væri til staðar og hefði verið um nokkurn tíma. Því miður hefði orðið dráttur á verkefninu en viðtöl væru þó hafin við hlutaðeigendur.

Við þetta má bæta að í desember 2016 komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að áminning sem forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins veitti yfirlækni hjá stofnuninni í október 2015 hefði ekki verið í samræmi við lög. Vegna þess máls ritaði 21 starfsmaður Heilsugæslunnar forstjóra bréf í október 2015 þar og lýsti yfir fullum stuðningi við umræddan yfirlækni.

Ríkisendurskoðun telur að þessir samstarfsörðugleikar hafi haft langvarandi og hamlandi áhrif á starfsemi Heilsugæslunnar. Að mati stofnunarinnar hefði ráðuneytið þurft að grípa mun fyrr til aðgerða til að stuðla að lausn þessa máls. Mikilvægt er að ráðuneytið læri af þessari reynslu. Þegar bæta þarf rekstur stofnunarinnar jafn mikið og raun ber vitni er nauðsynlegt að framkvæmdastjórn hennar geti stutt og hvatt starfsfólk einstakra heilsugæslustöðva við að gera nauðsynlegar breytingar á starfseminni. Vegna þessa hvetur stofnunin velferðarráðuneyti til að fylgja þessum málum vel eftir.“

Starfsemi á vegum löggæslu og heilsugæslu eru eðlislík þegar litið er á samskiptin við almenning. Markmið fjárveitinga af skattfé til þessarar starfsemi er að bæta samfélagið og auka öryggiskennd skattgreiðenda. Þegar kemur að fréttum af því sem gerist innan stjórnkerfa þessara opinberu stofnana er eðlismunur á áhuga fjölmiðlamanna frekar en stigsmunur.