Vegið að heiðri og sæmd
Eigum við viðurkennt íslenskt orð til að lýsa hugmyndafræðinni að baki þjófnaðinum á styttu Ásmundar Sveinssonar, Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku?
Það vakti athygli árið 2013 þegar eitt af um 5.000 nýjum orðum sem fengu stað í 26. útgáfu á þýsku Duden-orðabókinni var enska orðið shitstorm.
Í breska blaðinu The Guardian sagði af þessu tilefni að þýsk notkun orðsins hefði í fyrsta sinn verið skráð árið 2010. Merkingunni var lýst á þann veg að það vísaði til víðtækrar og háværrar hneykslunar í netheimum – einkum á samfélagsmiðlum. Blaðamaður The Guardian hafi fyrst heyrt Angelu Merkel nota það þegar hún hitti David Cameron, þáv. forsætisráðherra Breta, í júní 2012. Hún sagðist hafa lent í shitschturm (hennar framburður segir blaðamaðurinn) vegna afskipta sinna af fjárhags- og skuldavandanum í Suður-Evrópu á þeim tíma.
Orðið fékk miklu pólitískari merkingu í þýsku og í dönsku, svo að tvö dæmi séu nefnd, en í ensku. Segir í The Guardian árið 2013 að fram til þess tíma hafi shitstorm „aðeins vísað til sóðalegs og andstyggilegs ástands.“ Beina íslenska þýðingin er skítaveður. Hún nær ekki þeirri merkingu að ráðist sé að einstaklingi með svívirðingum sem hann telur sjálfur ómaklegar. Aðrir nota orðið til lýsa hneykslunar- og reiðibylgju sem mótast meira af persónulegri heift en málefnalegum rökum.
Að Þjóðverjar og Danir grípi til ensku til að lýsa þessari neikvæðu múgsefjun bendir til að í germönsk mál skorti orð til að ná utan um umræður eins og til dæmis þær sem nú hafa orðið vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022. Orðið shitstorm lýsir málatilbúnaðinum vel. Hér er auglýst eftir íslensku orði?
Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku eftir Ásmund Sveinsson (mynd: mbl.is).
Eigum við viðurkennt íslenskt orð til að lýsa hugmyndafræðinni að baki þjófnaðinum á styttu Ásmundar Sveinssonar, Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku, til minningar um Guðríði Þorbjarnardóttur og Snorra, son hennar?
Í Morgunblaðinu í dag (28. apríl) segja Bryndís Björnsdóttir, Dísa, og Steinunn Gunnlaugsdóttir að með þjófnaðinum og því að setja styttuna í „geimflaug“ vilji þær „kjarna“ hugmyndafræði rasisma í íslensku samfélagi. Hvítur kvenlíkami Guðríðar „sem fæðir hvítt barn á landsvæði þar sem heiðið fólk með lit í húð bjó fyrir“ sé til marks um rasisma. Þess vegna sé styttu annars listamanns stolið og send á táknrænan hátt út í geiminn. Lögregla veitist að þeirra eigin listsköpun með því sinna þjófnaðarkæru og kröfu um að stolna listaverkið sé endurheimt.
Í sama Morgunblaði segir Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, prófessor við Listaháskóla Íslands: „Þetta bragð þeirra heppnaðist fullkomlega. Fyrir listakonunum vakir raunverulega bara eitt og það er að vekja athygli á verkinu og sér sjálfum í leiðinni.“
Grunnstefið um að Ásmundur Sveinsson hafi verið rasisti og gert styttuna eða gefið nafn til að sýna yfirburði hvíta mannsins er rangt. Með því er vegið að heiðri og minningu listamannsins á óverðugan hátt, leitað að átyllu til að skapa listaverk undir merkjum „sjálfskenndarstjórnmála“, rétti „einstaklings og jaðarhópa til að skilgreina sjálfkennd sína á eigin „vökulu“ forsendum,“ svo að vitnað sé til Kristjáns Kristjánssonar prófessors sem nefndur var hér á síðunni í gær .