27.4.2022 9:53

Stjórnmál nýrra tíma

Áttu stjórnmálamenn sem samþykktu aðferðafræði bankasýslunnar að sjá að þetta yrðu afleiðingar stefnumótandi ákvarðana þeirra? Það er af og frá.

Í umræðunum um söluna á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka setja tilfinningar meiri svip á stjórnmálaumræður en rök og upplýsingar. Það var rangt mat að unnt yrði að velja hér á friðsaman hátt „fagfjárfesta“ til að kaupa hlut ríkisins í Íslandsbanka. Markið var sett á dreifða eignaraðild án kjöfestufjárfestis en listi bankasýslunnar yfir kaupendur kveikti tilfinningabál sem erfitt er að slökkva.

New-Project-25-Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, skrifar í Morgunblaðið í dag (27. apríl) tilfinningaríka grein vegna þess að fjárfestingarfélagið SKEL seldi eign sína í Íslandsbanka fyrir mánuði og keypti 2,5% hlut í tryggingarfélaginu VÍS fyrir 800 m.kr.

Þingmaðurinn minnir á að Jón Ásgeir Jóhannesson, áður kenndur við Baug eða Bónus, fari fyrir eignarhaldsfélagi sem á yfir 50% í SKEL. Síðan lýsir Áshildur Lóa fyrri afskiptum Jóns Ásgeirs af Íslandsbanka og segir:

„Þúsundir heimila sátu uppi með reikninginn frá Jóni og félögum og að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín vegna þess skaða sem hann og nokkrir aðrir ollu og þá eru enn ótaldar þær þúsundir sem rétt náðu að halda heimili sínu með því að gera nauðasamninga við bankann sem setti þau í klafa fátæktar og skorts. [...]

Jón Ásgeir keypti banka, setti hann á hausinn, skeytti engu um afleiðingarnar, kom aftur, keypti bankann, seldi bankann og keypti tryggingafélag fyrir bréfin í þessum banka.

Geri aðrir betur.“

Sár af þessu tagi opnuðust við bankasöluna núna. Áttu stjórnmálamenn sem samþykktu aðferðafræði bankasýslunnar að sjá að þetta yrðu afleiðingar stefnumótandi ákvarðana þeirra? Það er af og frá.

Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham, skrifar grein á vefsíðuna Stundina 21. apríl 2022. Hann veltir fyrir sér afdrifum kenningar bandaríska stjórnmálafræðingsins Francis Fukuyama frá 1992 um „endalok mannkynssögunnar“ með alheimssigri frjálslyndisstefnu að vestrænum hætti. Tony Blair hafi sagt að vestræn frjálslyndisstefna hefði sigrað og lagt heiminn að fótum sér. Í greininni segir Kristján meðal annars:

„Sú þróun sem Fukuyama og Blair sáu allra síst fyrir – og verður naumast metið þeim til gjalda – var að frjálslyndar hugmyndir um félagslegt réttlæti á Vesturlöndum myndu þróast yfir í öfgamyndir slaufunarmenningar – og að sjálft hugtakið „félagslegt réttlæti“ yrði á endanum lagt að jöfnu við „sjálfskenndarstjórnmál“ þar sem sterkasta birtingarmynd réttlætis er ekki lengur „umhyggja fyrir almannaheillum“ heldur réttur einstaklings og jaðarhópa til að skilgreina sjálfkennd sína á eigin „vökulu“ forsendum. Þessi þróun hefur kurlað fylkingu frjálslyndissinna í félagsmálum svo á Vesturlöndum að gamaldags frjálslyndissinnar af ætt Johns Stuarts Mill skynja sig nú sem pólitíska munaðarleysingja (sbr. hlutskipti J. K. Rowling og Philips Pullman).“

Þarna íslenskar Kristján hugtök sem setja svip á stjórnmál nýrrar kynslóðar. Stjórnmálamenn samtímans verða að líta til allra átta og virkja nýja strauma.