19.7.2017 9:46

Uppreist æru - lagaskilyrði eða geðþótti?

Felst ekki eftirsóknarvert gagnsæi í því að allir viti að uppfylli einhver einstaklingur ákveðin skilyrði öðlist hann rétt í samræmi við það?

Þegar Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks VG, segir eftir fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis um uppreist æru að afgreiðsla umsókna þeirra sem sækja um uppreist sé „vélræn“ gagnrýnir hún að fylgt sé hlutlægum reglum sem taka mið af lagaskilyrðum við afgreiðslu umsóknanna. Henni finnst skorta svigrúm til pólitískra afskipta eða geðþóttaákvarðana í málaflokknum.

Þessa skoðun þingmannsins þarf að ræða án þess að láta afstöðu til einstaklinga sem hafa fengið umsókn sína afgreidda á grundvelli gildandi reglna ráða afstöðu sinni. Ef það leiðir til „vélrænnar“ niðurstöðu á þessu sviði að farið sé að lagaskilyrðum og mál afgreidd í samræmi við þau hvað þá með önnur svið?

Felst ekki eftirsóknarvert gagnsæi í því að allir viti að uppfylli einhver einstaklingur ákveðin skilyrði öðlist hann rétt í samræmi við það? Er æskilegt að bæta við óvissuþætti og skapa íhlutunarrétt af hálfu ráðherra til að vikið sé frá skilyrðunum í ákveðnum tilvikum? Eða ætlar alþingi að breyta lagaskilyrðunum?

Brynjar Níelsson, formaður þingnefndarinnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að mönnum þætti rétt að skoða hvort eðlilegt væri að gera greinarmun á tíma og skilyrðum eftir alvarleika brota. Honum þætti alla jafna að menn ættu alltaf rétt á að fá sín borgaralegu réttindi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Brynjar sagði:

„Allir eigi möguleika á því en það er ekki þar með sagt að allir eigi möguleika á að fá sín starfsréttindi því þá fer það svolítið eftir eðli brots. Til að mynda ef læknir hefur þuklað á sjúklingum – er þá rétt að hann fái réttindi? Eða lögmaður sem hefur brotið af sér og er að sýsla í slíkum brotum.

Ég er ekki með svar við þessu núna því ég held að það sé rétt að farið verði nákvæmlega yfir þetta og það náist sátt um hvenær menn eigi að fá borgaraleg réttindi aftur og hvenær menn sem hafa brotið af sér eigi að fá starfsréttindi aftur.“

Er þetta ekki kjarni málsins: að gera mun á borgaralegum réttindum og starfsréttindum?

Á árinu 2006 var sótt að mér vegna þess að Árni Johnsen fékk uppreist æru, sjá hér . Þá var það einnig gert tortryggilegt að handhafar forsetavalds rituðu undir tillöguna um það í fjarveru forseta Íslands. Gagnrýnin var hluti flokkspólitískrar baráttu og reist á óvild.