2.8.2020 10:35

Tökum forsetann á orðinu

Við Íslendingar búum við einstök náttúrugæði auk sundlauganna í hverjum bæ. Okkur er ekkert að vanbúnaði að bregðast vel við hvatningu forseta Íslands.

Guðni Th. Jóhannesson var öðru sinni settur inn í embætti forseta Íslands í Alþingishúsinu í gær (1. ágúst). Formlega var athöfnin með sama sniði og áður en þátttaka í henni var takmörkuð vegna COVID-19-faraldursins, kröfunnar um að tveggja metra reglunnar sé gætt og ekki komi fleiri saman en 100 manns. Í stað 213 gesta í þinghúsinu voru þeir 30 og til að forðast mannþröng á Austurvelli gengu forsetahjónin ekki út á svalir þinghússins að athöfn lokinni. Forsetafrúin skautaði ekki og forseti klæddist ekki kjólfötum frekar en gestir í þinghúsinu og enginn bar heiðursmerki fyrir utan forseta sem hafði forsetakeðjuna á öxlunum.

_gv_9533plus-2Þessi mynd birtist á vefsíðunni forseti.is og sýnir Guðna Th. Jóhannesson flytja innsetningarávarp sitt 1. ágúst 2020. Gestum er dreift um þingsalinn í samræmi við tveggja metra regluna.

Kvöldið fyrir kjördag var Guðni Th. Jóhannesson minntur á það í sjónvarpsþætti að frú Vigdís Finnbogadóttir hefði lagt áherslu á skógrækt í forsetatíð sinni og dr. Ólafur Ragnar Grímsson hefði fært umræður um norðurslóðir á nýtt stig. Hvert er baráttumál þitt? var Guðni Th. spurður og hann svaraði á þann veg að nú eftir að sér hefði gefist tóm til að velta málinu fyrir sér yrði það líklega heilsurækt.

Undir lok ávarps síns við innsetninguna í gær sagði Guðni Th.:

„Látum þessa erfiðu reynslu á raunastund [vegna COVID-19] því færa okkur von en ekki víl. Látum vandann fram undan ekki letja okkur heldur efla til dáða. Látum ekki deigan síga.

Og hugum að lokum að þessu: Síðustu mánuði höfum við verið rækilega minnt á þá frumskyldu samfélags og ríkisvalds að vernda líf og heilsu fólks. Nú þegar mér er falið embætti forseta Íslands í annað sinn nefni ég þá ósk mína að við stefnum áfram og enn frekar að því að efla heilbrigði og vellíðan allra í þessu landi. Ég á mér þá ósk að við sinnum enn betur lýðheilsu og forvörnum í heilbrigðismálum, að við áttum okkur enn betur á því að í ys og þys nútímans er brýnt að huga að andlegri líðan, sporna við streitu og stressi, kulnun og kvíða. Sýnum því skilning. Sýnum samkennd og samúðen eflum líka með okkur þrautseigju og viljaþrek.“

Þetta er verðugt og verkefni sem snertir okkur öll. Rannsóknir sýna að það sem við gerum hvert og eitt stuðlar mest og best að heilsu okkar og vellíðan. Nýlega skrifaði ég umsögn um bókina Þess vegna sofum við eins og lesa má hér. Þar er greint frá niðurstöðum nýjustu rannsókna sem sanna hve nauðsynlegt er fyrir heilsuna að fá nægan svefn, sjö til átta klukkustundir á sólarhring. 

Þá sanna rannsóknir ótvírætt gildi þess að gefa sér tíma til hugleiðslu. Að hvíla hugann með því að beina athygli að önduninni eflir og styrkir ónæmiskerfið og stuðlar að vellíðan.

Þetta tvennt: nægan svefn og hugleiðslu í krafti öndunar höfum við hendina án þess að þurfa að hreyfa legg eða lið. Að styrkja sig með líkamlegu erfiði er ekki síður gefandi og megi marka myndir sem einstaklingar setja á samfélagssíður hefur heilsubylgja farið um landið undanfarið með fjallgöngum og hjólaferðum. Við Íslendingar búum við einstök náttúrugæði auk sundlauganna í hverjum bæ. Okkur er ekkert að vanbúnaði að bregðast vel við hvatningu forseta Íslands.