Svefn – vellíðan, heilsa og árangur
Umsögn um bók - Morgunblaðið, 25. júní 2020
Þess vegna sofum við - um mikilvægi svefns og drauma.
Eftir Matthew Walker. Þýðandi Herdís M. Hübner. Bókafélagið, 2020. Kilja, 375 bls.
Matthew Walker (47 ára), prófessor í taugavísindum og sálfræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley, forstjóri Svefnrannsóknarstöðvarinnar og fyrrverandi prófessor í geðsjúkdómafræði við Harvard-háskóla, sendi þessa bók frá sér haustið 2017. Hún kemur nú út íslenskri þýðingu Herdísar M. Hübner, grunnskólakennara á Ísafirði. Herdís bætir með bókinni enn við þýðingar sínar sem hafa almennt fengið góða dóma. Að íslenska þessa bók á jafn lipran og aðgengilegan hátt og hér er gert er ekki heiglum hent. Af erlendum umsögnum um bókina má ráða að Walker sé fyrstur svefnfræðinga til að fjalla um þetta efni á þennan hátt. Texti hans er í senn fræðilegur og ætlaður almennum lesanda. Sé þetta brautryðjandaverk á ensku á sama við um íslensku. Textinn rennur lipurlega, er skýr og aðgengilegur. Höfundur kynnir bók sína á þann veg að hana megi lesa beint frá upphafi til enda eða grípa niður í einstaka kafla eftir áhuga lesandans á að því sem um er fjallað.
Bókin skiptist í fjóra hluta: 1. Það sem kallað er svefn; 2. Hvers vegna þarftu að sofa?; 3. Um drauma og 4. Frá svefntöflum til samfélagsbreytinga. Hver hluti skiptist í kafla og eru þeir alls 16 í bókinni.
Skömmu áður en ég hóf lestur bókarinnar heyrði ég af tilviljun leikarann og fyrrv. ríkisstjóra Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger, ræða um gildi þess að setja sér markmið og vinna þrotlaust að því. Boðskapur hans er að menn þurfi ekki að sofa nema sex klukkustundir og þá hafi þeir 18 stundir í sólarhring til að vinna að markmiði sínu. Hann tekur fram að vissulega sé sagt að átta tíma svefn sé bestur, ekki þurfi að fara eftir því ef menn venji sig á að sofa fastar!
Matthew Walker er alls ekki þessarar skoðunar. Hvað eftir annað minnir hann lesandann á að sjö til níu tíma svefn sé það sem við þurfum til að halda heilsu. Hann vill að regla sé á svefninum, farið í rúmið á sama tíma hvert kvöld og sama gildi um fótaferðartíma. Það sé misskilningur að unnt sé að vinna upp lítinn svefn með því að „sofa út“ um helgar. Menn lifi hvern dag í senn á þeim svefni sem þeir ná nóttina á undan. Líðan þeirra ráðist af því. Það sé hvorki hægt að bæta upp svefntap né safna í eins konar svefnsarp.
Hann lýsir niðurstöðu rannsóknar með þessum orðum:
„Frá samfélagslegu sjónarmiði var frammistaða sex klukkustunda hópsins mesta áhyggjuefnið – en það er ekki óalgengur svefntími. Tíu sólarhringar með sex klukkutíma svefni á nóttu nægðu til þess að frammistaðan var jafn slæm og hjá þeim sem höfðu ekkert sofið í heilan sólarhring. Frammistöðu hópanna sem fengu að sofa í fjóra eða sex klukkutíma hrakaði sífellt meira eins og hjá hópnum sem var haldið vakandi í þrjá sólarhringa samfleytt og engin merki sáust um að hámarkshnignun hefði verið náð. Allt benti til þess að ef tilraunin hefði staðið lengur myndi frammistöðunni halda áfram að hraka næstu vikur eða mánuði.“ (S.153.)
Hér skulu ekki tíundaðir allir sjúkdómarnir sem nefndir eru til sögunnar til marks um hve mikil heilsuvernd felst í sjö til níu tíma svefni. Walker flytur svo sannfærandi rök fyrir máli sínu að hver sem les bók hans hlýtur að líta í eigin barm og íhuga hvort hann þurfi að breyta svefnvenjum sínum sér til góðs. Almennar vinsældir bókarinnar, hún hefur ratað á metsölulista víða um lönd og einnig hér, má örugglega rekja til þess hve vel hún höfðar til lesandans. Hann getur farið hratt yfir sögu, kjósi hann það, þegar lýst er einstökum rannsóknaraðferðum og sökkt sér síðan í niðurstöðurnar, sem Walker skýrir á þann veg að hittir í mark.
Walker varar við því að skólar hefji kennslu of snemma á morgnana og nefnir dæmi frá Bandaríkjunum sem sýna að hefjist skóli klukkan 08.15 þurfi mörg börn að vakna klukkan 5.30, 5.15 eða „jafnvel enn fyrr og gera það árum saman, alla virka daga vikunnar. Það er brjálæði,“ segir hann. Þessu sé þó erfitt að breyta vegna rekstrarsjónarmiða hjá þeim sem halda úti skólabílum og þeirrar venju að koma börnum út úr húsi í dagrenningu svo foreldrar komist til vinnu. Þetta séu vissulega praktísk úrlausnarefni en ekki nægileg „afsökun fyrir því að úreltu og skaðlegu fyrirkomulagi sé viðhaldið þegar allar upplýsingar mæla gegn því“.
Undir bókarlok spyr hann: „Hvað er þá til bragðs að taka ef við viðurkennum að svefnskortur sé hægvirk aðferð til að ráða sig af dögum?“ Hann segir: „Hægt er að fá fólk til að sofa lengur bæði með virkum aðferðum, sem kosta svolitla fyrirhöfn, og aðferðum sem viðkomandi þarf ekki að hafa neitt fyrir og eru því æskilegastar.“ (S. 353.)
Matthew Walker er eindreginn andstæðingur svefnlyfja. Verða vafalaust margir undrandi þegar þeir lesa hve hann telur þau skaðvænleg. Þau varnaðarorð eiga erindi til íslenskra lesenda því að svefnlyfjanotkun hér er sú hæsta á Norðurlöndunum og áhyggjuefni að mati landlæknis.
Þess má geta að á dagskrá Hörpu kemur fram að 19. október verði Matthew Walker aðalfyrirlesari á þriggja tíma ráðstefnu í Eldborg sem haldin er að frumkvæði dr. Erlu Björnsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Betri svefns. Erla er klínískur sálfræðingur, doktor í líf- og læknavísindum, sérfræðingur í svefnrannsóknum og höfundur bókarinnar Svefn (2017).
Bókin Þess vegna sofum við – um mikilvægi svefns og drauma kemur út á íslensku á tíma þegar COVID-19-faraldurinn hefur vakið okkur til umhugsunar um úrræði til að gæta heilsu okkar með jafn einföldum ráðum og að þvo okkur um hendur. Með því einfalda ráði að sofa sjö til níu tíma á nóttu getum við varið okkur gegn fjölmörgum öðrum sjúkdómum fyrir utan að njóta hvers dags betur en séum við svefnvana.