21.7.2024 10:21

Þrjátíu ára flugvallarstríð

Þrjátíu ára stríði R-listans gegn Reykjavíkurflugvelli lýkur með ósigri meirihluta borgarstjórnar. Hvernig hann reynir enn einu sinni að klóra sig út úr vandræðum sínum kemur í ljós.

R-listinn komst til valda í Reykjavík vorið 1994 undir forystu fólks gegn Reykjavíkurflugvelli. Rúmum 30 árum og nokkrum starfshópum síðar er flugvöllurinn enn í Vatnsmýri. Nú er sagt að „síðasta nefndin“ sé í þann veginn að skila áliti. Flugvöllur í Hvassahrauni er síðasta haldreipið. Það er nú slitnað. Sjá grein í Morgunblaðinu laugardaginn 20. júlí sem lesa má hér.

Innan R-listans voru andstæðingar Reykjavíkurflugvallar en einnig stuðningsmenn. Niðurstaða meirihlutans var að vísa málinu í íbúakosningu. Spurt var hvort Reykvíkingar vildu halda flugvellinum í Vatnsmýri eftir árið 2016 eða að hann yrði færður.

Borgarstjórn ákvað að niðurstaðan yrði bindandi ef 75% atkvæðisbærra íbúa tækju þátt eða 50% atkvæðisbærra manna greiddu öðrum kostinum í kosningunni atkvæði sitt. Þátttakan var aðeins 37,2%. Atkvæði féllu þannig að 48,1 prósent, eða 14.529, vildu flugvöll áfram í Vatnsmýri en 49,3 prósent, eða 14.913, kusu að Vatnsmýrin yrði nýtt með öðrum hætti. Auð og ógild atkvæði voru 2,3 %.

Niðurstaðan var því ekki bindandi þótt jafnan hafi verið látið þannig af talsmönnum R-listans og stuðningsmönnum málstaðar hans og arftaka í þessu máli. Má segja að í þeim málflutningi öllum hafi löngum birst skýr vilji til að afneita staðreyndum í flugvallarmálinu.

IMG_9965

Í fyrrnefndri grein í Morgunblaðinu er getið um nefndir og starfshópa sem hafa unnið að athugunum til að unnt sé að hrinda vilja meirihluta borgarstjórnar í flugvallarmálinu í framkvæmd. Í stuttu máli hefur ekki fundist neinn annar skynsamlegur kostur.

Hlutur framsóknarmanna í borgarstjórn í þessu máli er sérstakt athugunarefni. Á sínum tíma var Alfreð Þorsteinsson, oddviti þeirra í R-listanum, alfarið á móti flutningi flugvallarins og er líklegt að efnt hafi verið til íbúakosninganna 17. mars 2001 til að kæfa andstöðu hans.

Eftir upplausn R-listans árið 2006 átti Framsóknarflokkurinn litlu fylgi að fagna í borgarstjórnarkosningum þar til 2014 þegar hann jók aðeins fylgi sitt með samstarfi við flugvallarvini. Síðan náði flokkurinn flugi 2022 þegar fjöldi manna trúði því að það væri bara best að kjósa framsókn og flokkurinn á nú í fyrsta sinn borgarstjóra. Einar Þorsteinsson segir að vilji enginn Hvassahraun verði að kanna annan stað fyrir flugvöll, hann verði ekki í Reykjavík.

Dagur B. Eggertsson, fyrrv. borgarstjóri, hefur setið í nefndum til að vinna gegn Reykjavíkurflugvelli. Pawel Bartoszek frá Viðreisn sagði um árið að landhelgigæslan ætti ekki að stækka flugskýli á vellinum því að hann hyrfi, skýlið er risið. Píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður skipulags- og umferðarráðs, gerir ekkert með bréf Samgöngustofu um að eftir 2. september 2024 verði borgin knúin með valdi til að grisja skóg í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis. Þeirri orrustu hefur meirihlutinn tapað.

Þrjátíu ára stríði R-listans gegn Reykjavíkurflugvelli lýkur með ósigri meirihluta borgarstjórnar. Hvernig hann reynir enn einu sinni að klóra sig út úr vandræðum sínum kemur í ljós.