Hvassahraunsvöllur úr myndinni
Morgunblaðið, laugardagur, 20. júlí 2024
Það markaði söguleg þáttaskil þegar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafnaði flugvelli í Hvassahrauni föstudaginn 12. júlí 2024. Hann sagði á ruv.is:
„Við erum með fjóra alþjóðaflugvelli á Íslandi í dag sem eru bara fínir en skynsamlegt er að styrkja þá enn frekar. Til dæmis flugvöllinn hér í Vatnsmýrinni, það þarf að gera hann enn betri, bæði fyrir farþega og starfsmenn og styrkja hann enn frekar sem varaflugvöll.“
Bogi Nils telur óvissu um framtíð Reykjavíkurflugvallar minnka og að nú sé „meiri samhljómur hjá stjórnvöldum um að völlurinn sé kominn til að vera og [verði] þarna næstu áratugina“.
Í fréttinni voru orð forstjórans réttilega túlkuð á þann veg að Icelandair hefði „afskrifað Hvassahraun sem flugvallarkost næstu áratugina“.
Icelandair átti ásamt ríki og Reykjavíkurborg aðild að Rögnunefndinni frá 25. október 2013 til 25. júní 2015. Hún starfaði undir formennsku Rögnu Árnadóttur, núv. skrifstofustjóra alþingis.
Verkefni nefndarinnar var að fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri og voru aðilar sammála um að fyrsti kostur fyrir rekstur innanlandsflugs yrði á höfuðborgarsvæðinu.
Nefndin taldi flugvöll í Hvassahrauni álitlegasta kostinn og sagði meðal annars að hraunrennsli væri „ólíklegt næstu aldir“ á fyrirhuguðu flugvallarstæði og að „mjög litlar líkur“ væru á „vandræðum vegna sprunguvirkni næstu aldir“.
Trjágróður í Öskjuhlíð. Þessi tré verða ekki grisjuð vegna flugöryggis. Inn í þann skóg leggja menn almennt ekki leið sína.
Enginn sá þá fyrir jarðeldana sem síðan hafa kviknað á Reykjanesi og gjörbreytt viðhorfi til allra stórframkvæmda þar.
Í skýrslu stýrihóps um flugvallarkosti á SV-horni landsins frá 21. nóvember 2019 var kostnaðartala vegna nýs millilandaflugvallar í Hvassahrauni sögð 300 milljarðar króna.
Nú hefur Icelandair, lykilaðili að öllu sem snýr að flugstarfsemi, hafnað flugvelli í Hvassahrauni, besta kostinum að mati Rögnunefndarinnar. Icelandair vill Reykjavíkurflugvöll áfram.
Vorið 2014 bauð Framsóknarflokkurinn fram til borgarstjórnar með flugvallarvinum til að árétta stuðning sinn við flugvöll í Vatnsmýrinni. Árið 2022 var kosið til borgarstjórnar og þá komst Framsóknarflokkurinn í oddaaðstöðu með andstæðingum flugvallarins.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins og núverandi borgarstjóri, sagði 5. ágúst 2022 eftir að hann hóf samstarfið sem leiddi hann í borgarstjórastólinn að yrðu hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni slegnar út af borðinu vildi hann strax hefja vinnu við að skoða aðra kosti í skýrslu Rögnunefndarinnar. Þar vísar hann til þess að nefndin beindi athygli að þremur svæðum auk Hvassahrauns: Bessastaðanesi, Hólmsheiði og Lönguskerjum. Þá skoðaði hún einnig breyttar útfærslur á legu flugbrauta í Vatnsmýri.
Árum saman hefur meirihluti borgarstjórnar aðhyllst afneitunarstefnu í flugvallarmálinu. Hann gerir það enn. Orð meirihlutamanna sem fallið hafa eftir að forstjóri Icelandair tók af skarið sýna að óskhyggjan ýtir enn staðreyndum til hliðar. Að halda áfram að benda á Hvassahraun jafngildir því að ekkert gerist.
Afneitunarsinnar setja nú traust sitt á skýrslu um Hvassahraun sem hefur verið tæp fimm ár í smíðum. Að skýrslunni stendur starfshópur innviðaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hópurinn var settur af stað í lok nóvember 2019 samkvæmt samkomulagi Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Dags B. Eggertssonar, þáv. borgarstjóra, sem sagði óopinbert markmið hópsins „að vera síðasta nefndin um flugvallarmálið“.
Reykjavíkurborg vinnur markvisst gegn flugöryggi í Vatnsmýrinni. Fyrir réttu ári fengu borgaryfirvöld minnisblað frá Isavia innanlandsflugvöllum um að trjágróður í Öskjuhlíð skapaði óásættanlega hættu fyrir loftför. Tré væru „raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi“ að Reykjavíkurflugvelli. Verklag Reykjavíkurborgar að fella 1-10 tré árlega fullnægði alls ekki öryggissjónarmiðum.
Isavia sinnir lögbundinni skyldu sinni með þessari viðvörun. Borgaryfirvöld hafa hins vegar ekkert aðhafst, trén hækka og hættan af þeim eykst. Samgöngustofa hefur lögbundna heimild til að krefjast þess að hindranir sem teljast hættulegar flugumferð séu fjarlægðar. Telji Samgöngustofa verulega hættu stafa af hindrun getur hún brugðist við án tafar og með atbeina lögreglu ef þörf krefur.
Í fréttum RÚV 28. maí sl. sagðist Samgöngustofa hafa verið upplýst um áhrif skógarins í Öskjuhlíð á að- og brottflug frá vellinum auk þess sem hún hefði einnig kannað málið. Stofnunin íhugaði aðgerðir í samræmi við lagaskyldur sínar. Í öryggisskyni hefðu blindaðflugsferlar sem lægju yfir Öskjuhlíð verið teknir úr notkun og mætti aðeins fljúga sjónflug þar.
Samgöngustofa sendi í lok maí bréf til Reykjavíkurborgar um að ekki yrði undan því vikist að lækka trjágróður í Öskjuhlíð. Næðist ekki samkomulag um aðgerðir í því skyni milli Isavia og Reykjavíkurborgar fyrir 2. september 2024 ætti Samgöngustofa ekki annan kost en að láta fjarlægja tré í Öskjuhlíð á kostnað Reykjavíkurborgar.
Flugvallarmálið stendur nú þannig að Icelandair blæs á völl í Hvassahrauni en Reykjavíkurborg skirrist við að fara að öryggisreglum í þágu Reykjavíkurflugvallar.
Pólitískir aðgerðasinnar gegn Reykjavíkurflugvelli sitja við völd í Reykjavík. Þeir eiga yfir sér lögregluvald eftir 2. september grisji þeir ekki skóg sem engum er til gagns en ógnar flugöryggi. „Síðasta nefndin“ breytir engu, hún er aðeins yfirvarp.