12.10.2022 9:25

Þríeykið sprengdi ASÍ

Án þess að gert sé lítið úr áfalli Ragnars Þórs er sú skýring á útgöngu þríeykisins nærtækust að þau sáu fram á að tapa kosningum á þinginu.

Friðrik Rafnsson, þýðandi er formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna. Hann situr fyrir félagið á þingi ASÍ og var þar á sögulegum fundi í gær (11. okt.) þegar allt sprakk upp í loft við útgöngu róttæka þríeykisins Ragnars Þórs Ingólfssonar VR, Sólveigar Önnu Jónsdóttur Eflingu og Vilhjálms Birgissonar Starfsgreinasambandinu og Akranesi. Þau komu til þingsins til að leggja ASÍ undir sig eftir að hafa hrakið Drífu Snædal úr forsetasætinu.

Friðrik segir á FB-síðu sinni að í stað þess að njóta ánægjulegra samvista við þá þingmenn hafi hann orðið vitni að „hjaðningavígum dagsins“. Hann segir:

„Hef sjaldan eða aldrei orðið vitni að eins ómálefnalegri umræðu sem þar áttu sér stað, heiftin, dónaskapurinn og átök milli persóna algerlega ótrúleg og andstæðar fylkingar klöppuðu og hrópuðu á víxl. Skil núna mjög vel hvers vegna sú mæta kona, Drífa Snædal, ákvað að segja af sér um daginn.

Og hver verða fórnarlömb þessara átaka? Félagsfólk þeirra sem hafa barist á banaspjót undanfarna mánuði.“

Í Morgunblaðinu laugardaginn 8. október rifjaði ég upp brot af því sem forystufólk ASÍ sagði um hvert annað í aðdraganda þingsins. Hvarvetna blasti við heift og illmælgi.

Framganga Sólveigar Önnu Jónsdóttur við hópuppsagnir í Eflingu til að tryggja sér einræðisvald þar með eigin hirð var örlagaskref sem ekki verður fyrirgefið innan hreyfingarinnar. Ragnar Þór og Vilhjálmur gjalda þess að hafa ekki snúist gegn Sólveigu Önnu á félagslegum vettvangi heldur myndað með henni valdabandalag. Af því sem Ragnar Þór segir til skýringar á útgöngu sinni má ráða að honum hafi fallist hendur þegar spurt var hvort hann ætlaði að feta í fótspor Sólveigar Önnu og reka starfslið ASÍ hlyti hann kjör sem forseti.

1370153Frá þingi ASÍ áður það splundraðist 11. október 2022 (mynd: mbl/Egggert Jóhannesson).

Miðað við hve Ragnar Þór er oft stóryrtur um menn og málefni er sérkennilegt hve hann segist hörundsár þegar að honum er sótt á þingi ASÍ. Án þess að gert sé lítið úr áfalli Ragnars Þórs er sú skýring á útgöngu þríeykisins nærtækust að þau sáu fram á að tapa kosningum á þinginu. Sólveig Anna og Vilhjálmur virðast hafa litið á það sem persónulega móðgun eða aðför að framboð komu gegn þeim í sæti 2. og 3. varaforseta ASÍ.

Skýring Vilhjálms Birgissonar í Kastljósi 11. október hneig til þessarar áttar. Hann sagðist hafa legið í símanum fyrir þingið til að sannfæra menn um vilja sinn til nauðsynlegrar samstöðu en síðan hafi hann séð á þinginu að hún væri ekki fyrir hendi. Þarna hlýtur hann að vísa til þess að hann hafi fengið mótframboð. Á ekkert annað hafði reynt.

Samstöðuþrá Vilhjálms sneri að honum sjálfum, hann yfirgaf þingið. Nú er því hótað því að félag hans, VR og Efling kunni að ganga úr ASÍ vegna hrakfarar formannanna.

Í aðdraganda þingsins veifaði Ragnar Þór því vopni í fylgisöflun sinni að hann hefði 175 m. kr. félagsgjald VR til ASÍ í hendi sér. Sólveig Anna hefur einnig forræði yfir háu félagsgjaldi til ASÍ. Að kippa fjárhagsgrundvelli undan ASÍ er í ætt við uppsagnirnar í Eflingu. Ragnar Þór þarf ekki að verða forseti ASÍ til að tæma skrifstofu sambandsins.