8.10.2022

Róttæka þríeykið nær ASÍ

Morgunblaðið, laugardagur 8. október 2022

Alþýðusam­band Íslands (ASÍ) held­ur 45. þing sitt í næstu viku (10. til 12 októ­ber). Skuggi ágrein­ings og per­sónu­legr­ar óvild­ar milli for­ystu­manna inn­an sam­bands­ins hef­ur ein­kennt starf þess á ár­inu.

Drífa Snæ­dal, eina kon­an sem hef­ur setið á for­seta­stóli ASÍ, sagði af sér embætt­inu 10. ág­úst 2022 en hún hafði gegnt því frá 2018. Blásið hafði verið til mik­ill­ar andúðar gegn henni. Hún væri full­trúi gam­all­ar valdaklíku.

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður Versl­un­ar­manna­fé­lags Reykja­vík­ur (VR), lík­lega næsti for­seti ASÍ, ritaði grein, sem birt­ist á vefsíðunni Vísi 10. fe­brú­ar 2022, þar sem hann sagðist hafa náð kjöri árið 2017 sem formaður VR vegna þess að hann lýsti van­trausti á stefnu ASÍ og for­ystu þess. Hann vildi gefa fé­lags­mönn­um VR val um aðra rödd og aðra stefnu en miðstýrða af for­ystu ASÍ og Gylfa Arn­björns­syni, þáv. for­seta, und­ir merkj­um SALEK.

SALEK er skamm­stöf­un fyr­ir sam­starf um launa­upp­lýs­ing­ar og efna­hags­for­send­ur kjara­samn­inga. Vinna und­ir merkj­um SALEK hófst 2013 með út­tekt BSRB, KÍ, BHM, ASÍ, Sam­taka at­vinnu­lífs­ins (SA) og samn­inga­nefnda rík­is, Reykja­vík­ur­borg­ar og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga á um­hverfi kjara­samn­inga á hinum Norður­lönd­un­um. Lögð var áhersla á heild­ar­end­ur­skoðun samn­ingalík­ans­ins.

Með sam­starf­inu vildu heild­ar­sam­tök­in stuðla að því að bæta þekk­ingu og vinnu­brögð við und­ir­bún­ing og gerð kjara­samn­inga að nor­rænni fyr­ir­mynd.

Þegar Drífa Snæ­dal til­kynnti af­sögn sína sagðist hún hafa þurft að bregðast við linnu­lausri en óljósri gagn­rýni for­manns VR á störf sín.

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, sagði á Face­book vegna af­sagn­ar­inn­ar að Drífa hefði „lokað sig inni í blokk með nán­asta sam­starfs­fólki for­vera síns, Gylfa Arn­björns­son­ar, og þeirri stétt sér­fræðinga og efri millistéttar­fólks sem [réði] ríkj­um í stofn­un­um rík­is­valds­ins á Íslandi og einnig á skrif­stof­um Alþýðusam­bands­ins“.

Halla Gunn­ars­dótt­ir kom til starfa sem fram­kvæmda­stjóri ASÍ í mars 2020. Hún sagði sig frá starf­inu 22. sept­em­ber 2022 með þeim orðum, í sam­tali við Morg­un­blaðið, að fyr­ir henni hefði vakað að efla ASÍ með Drífu en þess í stað hefði hún orðið vitni að „hat­römm­ustu valda­bar­áttu“ sem hún hefði nokkru sinni kynnst. Hún hefði dregið úr þeim „þrótt­inn og drepið sam­stöðuna“.

Bæði Drífa og Halla nefna hópupp­sagn­ir Sól­veig­ar Önnu á starfs­fólki stétt­ar­fé­lags­ins Efl­ing­ar sem skýr­asta vitn­is­b­urðinn um ágrein­ing­inn inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar.

Samstaða Ragn­ars Þórs og Vil­hjálms Birg­is­son­ar, verka­lýðsfor­ingja á Akra­nesi, með Sól­veigu Önnu sýni að hjá þeim ráði ekki hug­sjón­ir, eða virðing fyr­ir meg­in­sjón­ar­miðum hreyf­ing­ar­inn­ar fyrr og síðar, held­ur ein­ung­is fíkn í völd.

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son lít­ur núorðið á sig sem for­seta ASÍ. Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son, formaður Rafiðnaðarsam­bands­ins, vill sitja áfram í embætti 1. vara­for­seta, Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, vill embætti 2. vara­for­seta og Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður VLFA og formaður Starfs­greina­sam­bands­ins, býður sig fram sem 3. vara­for­seti.

1103974_1665304375646Vilhjálmur Birgisson segir að þetta þríeina forsetateymi ASÍ verði „afar öflugt“. Frá vinstri:  Ragnar Þór, Sólveig Anna og Vilhjálmur (mynd mbl.is).

Vil­hjálm­ur skrifaði ný­lega á Face­book: „Ég tel ef þetta for­setateymi nái kjöri þá verði það afar öfl­ugt ...“ Að ef­ast um eigið ágæti er veik­leika­merki í þess­um hópi.

Í fyrr­nefndu sam­tali við Morg­un­blaðið gaf Halla Gunn­ars­dótt­ir til kynna að at­b­urðarás­in að valda­töku þess­ar­ar rót­tæku blokk­ar inn­an ASÍ hefði „verið ákveðin fyr­ir­fram, með aðstoð fræðilegra kenn­inga“. Hún nefn­ir ekki kenn­ing­arn­ar en þær má lík­lega finna í boðskap öfga­manna til vinstri, sósí­al­ist­anna, sem stóðu upp­haf­lega að valda­töku Sól­veig­ar Önnu í Efl­ingu og fengu síðan Ragn­ar Þór og Vil­hjálm á sitt band.

Halla seg­ir að aðeins með „hug­ar­leik­fimi“ sé unnt að kom­ast að þeirri niður­stöðu sem Ragn­ar Þór hef­ur kynnt, að Drífa Snæ­dal hafi verið „bein fram­leng­ing af Gylfa Arn­björns­syni eða að Drífa hafi viljað taka verk­falls­rétt af fólki“. Þetta sé ekki aðeins ósatt held­ur líka ærumeiðandi fyr­ir mann­eskju sem hafi helgað sig verka­lýðsbar­áttu.

Um SALEK sagði Halla 4. októ­ber í Morg­un­blaðinu að það væri alls ekki til umræðu inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar. Því hefði verið hafnað á þingi ASÍ árið 2016 og varla rætt eft­ir það.

Að Ragn­ar Þór nefni SALEK í grein 10. fe­brú­ar 2022 til ávirðing­ar Drífu sýn­ir ekki annað en ill­vilja. Hann lét ekki við hann sitja held­ur sagði:

„Það er bullandi póli­tík inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar. Og hún er ógeðsleg og hef­ur verið ógeðsleg þau 13 ár sem ég hef starfað á vett­vangi henn­ar. [...]

Það eru marg­ir skugg­ar og mörg skúma­skot inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar. Þar er valda­bar­átta og þar er hat­ur. Svo mikið hat­ur gagn­vart ákveðnum rödd­um og skoðunum að það gæti hæg­lega flokk­ast sem of­beldi.“

Ragn­ar Þór hafði jafn­framt á orði að hugs­an­lega beitti hann sér fyr­ir úr­sögn VR úr ASÍ. Tólfta sept­em­ber 2022, skömmu áður en hann lýsti yfir ASÍ-for­setafram­boðinu, sagði hann í sam­tali við Gunn­ar Smára Eg­ils­son, hug­mynda­smið og áróðurs­mann sósí­al­ista, í hlaðvarpsþætti hans Rauða borðinu, að VR kynni að segja skilið við ASÍ. Ef til vill væri þeim 175 millj­ón­um króna, sem rynnu ár­lega frá versl­un­ar­fólki í sjóði ASÍ, bet­ur varið í að styrkja starf­semi VR.

Ragn­ar Þór veifaði pen­inga­vopni frá versl­un­ar­fólki þegar hann hóf sam­töl inn­an ASÍ til stuðnings eig­in fram­boði í for­seta­stól­inn.

Í byrj­un næstu viku lýk­ur þess­um kafla valda­bar­átt­unn­ar í ASÍ. Næst snúa nýju vald­haf­arn­ir sér að sam­fé­lag­inu í heild. Það er eins gott að verða við öllu bú­inn.