Róttæka þríeykið nær ASÍ
Morgunblaðið, laugardagur 8. október 2022
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) heldur 45. þing sitt í næstu viku (10. til 12 október). Skuggi ágreinings og persónulegrar óvildar milli forystumanna innan sambandsins hefur einkennt starf þess á árinu.
Drífa Snædal, eina konan sem hefur setið á forsetastóli ASÍ, sagði af sér embættinu 10. ágúst 2022 en hún hafði gegnt því frá 2018. Blásið hafði verið til mikillar andúðar gegn henni. Hún væri fulltrúi gamallar valdaklíku.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR), líklega næsti forseti ASÍ, ritaði grein, sem birtist á vefsíðunni Vísi 10. febrúar 2022, þar sem hann sagðist hafa náð kjöri árið 2017 sem formaður VR vegna þess að hann lýsti vantrausti á stefnu ASÍ og forystu þess. Hann vildi gefa félagsmönnum VR val um aðra rödd og aðra stefnu en miðstýrða af forystu ASÍ og Gylfa Arnbjörnssyni, þáv. forseta, undir merkjum SALEK.
SALEK er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Vinna undir merkjum SALEK hófst 2013 með úttekt BSRB, KÍ, BHM, ASÍ, Samtaka atvinnulífsins (SA) og samninganefnda ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á umhverfi kjarasamninga á hinum Norðurlöndunum. Lögð var áhersla á heildarendurskoðun samningalíkansins.
Með samstarfinu vildu heildarsamtökin stuðla að því að bæta þekkingu og vinnubrögð við undirbúning og gerð kjarasamninga að norrænni fyrirmynd.
Þegar Drífa Snædal tilkynnti afsögn sína sagðist hún hafa þurft að bregðast við linnulausri en óljósri gagnrýni formanns VR á störf sín.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði á Facebook vegna afsagnarinnar að Drífa hefði „lokað sig inni í blokk með nánasta samstarfsfólki forvera síns, Gylfa Arnbjörnssonar, og þeirri stétt sérfræðinga og efri millistéttarfólks sem [réði] ríkjum í stofnunum ríkisvaldsins á Íslandi og einnig á skrifstofum Alþýðusambandsins“.
Halla Gunnarsdóttir kom til starfa sem framkvæmdastjóri ASÍ í mars 2020. Hún sagði sig frá starfinu 22. september 2022 með þeim orðum, í samtali við Morgunblaðið, að fyrir henni hefði vakað að efla ASÍ með Drífu en þess í stað hefði hún orðið vitni að „hatrömmustu valdabaráttu“ sem hún hefði nokkru sinni kynnst. Hún hefði dregið úr þeim „þróttinn og drepið samstöðuna“.
Bæði Drífa og Halla nefna hópuppsagnir Sólveigar Önnu á starfsfólki stéttarfélagsins Eflingar sem skýrasta vitnisburðinn um ágreininginn innan verkalýðshreyfingarinnar.
Samstaða Ragnars Þórs og Vilhjálms Birgissonar, verkalýðsforingja á Akranesi, með Sólveigu Önnu sýni að hjá þeim ráði ekki hugsjónir, eða virðing fyrir meginsjónarmiðum hreyfingarinnar fyrr og síðar, heldur einungis fíkn í völd.
Ragnar Þór Ingólfsson lítur núorðið á sig sem forseta ASÍ. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, vill sitja áfram í embætti 1. varaforseta, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vill embætti 2. varaforseta og Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA og formaður Starfsgreinasambandsins, býður sig fram sem 3. varaforseti.
Vilhjálmur Birgisson segir að þetta þríeina forsetateymi ASÍ verði „afar öflugt“. Frá vinstri: Ragnar Þór, Sólveig Anna og Vilhjálmur (mynd mbl.is).
Vilhjálmur skrifaði nýlega á Facebook: „Ég tel ef þetta forsetateymi nái kjöri þá verði það afar öflugt ...“ Að efast um eigið ágæti er veikleikamerki í þessum hópi.
Í fyrrnefndu samtali við Morgunblaðið gaf Halla Gunnarsdóttir til kynna að atburðarásin að valdatöku þessarar róttæku blokkar innan ASÍ hefði „verið ákveðin fyrirfram, með aðstoð fræðilegra kenninga“. Hún nefnir ekki kenningarnar en þær má líklega finna í boðskap öfgamanna til vinstri, sósíalistanna, sem stóðu upphaflega að valdatöku Sólveigar Önnu í Eflingu og fengu síðan Ragnar Þór og Vilhjálm á sitt band.
Halla segir að aðeins með „hugarleikfimi“ sé unnt að komast að þeirri niðurstöðu sem Ragnar Þór hefur kynnt, að Drífa Snædal hafi verið „bein framlenging af Gylfa Arnbjörnssyni eða að Drífa hafi viljað taka verkfallsrétt af fólki“. Þetta sé ekki aðeins ósatt heldur líka ærumeiðandi fyrir manneskju sem hafi helgað sig verkalýðsbaráttu.
Um SALEK sagði Halla 4. október í Morgunblaðinu að það væri alls ekki til umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar. Því hefði verið hafnað á þingi ASÍ árið 2016 og varla rætt eftir það.
Að Ragnar Þór nefni SALEK í grein 10. febrúar 2022 til ávirðingar Drífu sýnir ekki annað en illvilja. Hann lét ekki við hann sitja heldur sagði:
„Það er bullandi pólitík innan verkalýðshreyfingarinnar. Og hún er ógeðsleg og hefur verið ógeðsleg þau 13 ár sem ég hef starfað á vettvangi hennar. [...]
Það eru margir skuggar og mörg skúmaskot innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar er valdabarátta og þar er hatur. Svo mikið hatur gagnvart ákveðnum röddum og skoðunum að það gæti hæglega flokkast sem ofbeldi.“
Ragnar Þór hafði jafnframt á orði að hugsanlega beitti hann sér fyrir úrsögn VR úr ASÍ. Tólfta september 2022, skömmu áður en hann lýsti yfir ASÍ-forsetaframboðinu, sagði hann í samtali við Gunnar Smára Egilsson, hugmyndasmið og áróðursmann sósíalista, í hlaðvarpsþætti hans Rauða borðinu, að VR kynni að segja skilið við ASÍ. Ef til vill væri þeim 175 milljónum króna, sem rynnu árlega frá verslunarfólki í sjóði ASÍ, betur varið í að styrkja starfsemi VR.
Ragnar Þór veifaði peningavopni frá verslunarfólki þegar hann hóf samtöl innan ASÍ til stuðnings eigin framboði í forsetastólinn.
Í byrjun næstu viku lýkur þessum kafla valdabaráttunnar í ASÍ. Næst snúa nýju valdhafarnir sér að samfélaginu í heild. Það er eins gott að verða við öllu búinn.