20.3.2019 12:23

Þingmenn sækja að lögreglu

Guðmundur Andri segir við Fréttablaðið að hann hafi aldrei séð prúðmannlegri mótmæli á Austurvelli en þessi á vegum No Borders og tjaldbúanna.

Í Fréttablaðinu í morgun (20. mars) segir frá því að þrír þingmenn: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati, Guðmundur Andri Thorsson Samfylkingu og Jón Steindór Valdimarsson Viðreisn hafi óskað eftir að lögregla komi á fund allsherjar- og menntamálanefndar þingsins til að svara fyrir „harðræði“ sem þingmennirnir telja að lögreglumenn hafi beitt hælisleitendur og félaga í No Borders samtökunum á Austurvelli mánudaginn 11. mars.

Þetta eru þingmenn flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn að baki Degi B. Eggertssyni sem heimilaði No Borders og hælisleitendum að reisa tjald á Austurvelli. Hér hefur verið skýrt frá svari lögreglunnar við ásökunum No Borders-fólksins. Hún greip til hæfilegra gagnaðgerða miðað við aðstæður og er ómaklegt að þingmenn geri störf hennar tortryggileg,

Guðmundur Andri segir við Fréttablaðið að hann hafi aldrei séð prúðmannlegri mótmæli á Austurvelli en þessi á vegum No Borders og tjaldbúanna. „Sóðaskapstal“ vegna mótmælanna sé í senn „ógeðfellt“ og „ósanngjarnt“.

54018130_10219474841244640_8797623267515957248_nÁgúst H. Bjarnason tók þessa mynd á Austurvelli 17. mars 2019 og sýnir hún hafurtask No Borders fólksins. Myndin birtist á FB-síðu hans., Guðmundur Andri Thorsson alþingismaður telur „ógeðfellt“ og „ósanngjarnt“ að tala um sóðaskap í tengslum við mótmælin, þau hafi aldrei verið prúðmannlegri á Austurvelli.

Eitt er að Þórhildur Sunna beiti sér gegn lögreglunni, að Guðmundur Andri leggi henni lið er í anda þess að hún gekk til liðs við sósíalista á þingi Evrópuráðsins í Strassborg til að ná kjöri sem nefndarformaður. Þegar Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var hér á dögunum beitti ungliðahreyfing Viðreisnar sér fyrir mótmælum við Ráðherrabústaðinn. Að Jón Steindór, þingmaður flokksins, vilji ala á tortryggni í garð lögreglunnar er í þeim sama anda.

Að fólk sé handtekið vegna framgöngu við eða inni í þinghúsinu er ekkert einsdæmi. Það gerðist til dæmis 8. desember árið 2008 þegar hópur fólks ruddist upp á þingpalla. Níu úr hópnum sættu ákæru, þeirra á meðal var Sólveig Anna Jónsdóttir, núverandi formaður Eflingar-stéttarfélags, sem var dæmd í 100.000 kr. sekt 16. febrúar 2011.

Fyrir rétti sagði Sólveig Anna að lögreglan hefði snúið upp á hendur sér. Síðar varð Sólveig Anna formaður í deild Attac-samtakanna á Íslandi, alþjóðlegra samtaka sem stofnuð voru að hennar sögn í Austur-Asíu árið 1997 til að berjast gegn einkavæðingu, markaðsvæðingu og hnattvæðingu á forsendum stórfyrirtækja.

Af ræðum Sólveigar Önnu má ráða að ávallt séu einhverjir að hrella hana og nú er ég meira að segja kominn í þann hóp. Hún sagði á FB-síðu sinni í gær:

„Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, hefur ásamt því að þjófkenna mig og segja að ég sé ekki í tengslum við raunveruleikann, einnig sagt að ég sé „gerð út“ af karlmönnum. Og svo mætti lengi upp telja. Pæliði í því hvað þetta er ótrúlega klikkað...“

Já, þetta er „ótrúlega klikkað“ hjá Sólveigu Önnu enda enginn fótur fyrir því. Þeir eru ekki öfundsverðir sem eiga að semja við hana svo að ekki sé minnst á þá sem hafa treyst henni fyrir kjörum sínum.