16.3.2019 10:16

Borgarstjóri leyfir No Borders tjöld á Austurvelli

Þegar litið er á baráttuaðferðir félaga í No Borders berjast þeir ekki síður gegn yfirvöldunum en landamærum. Þetta birtist nú á Austurvelli.

Félagar í No Borders samtökum láta nú að sér kveða á nýjan leik hér á landi og berjast félagar í þeim með hælisleitendum á Austurvelli. Samtökin starfa náið með anarkistum og nafn þeirra vísar til þess að þau eru andvíg landamærum.

Á vefsíðu þessara samtaka hér á landi sagði á sínum tíma að hugsjón þeirra væri „að afnema landamæri og landamæraeftirlit“ sem þau „álíta í eðli sínu ofbeldisfull fyrirbæri sem stuðla að mannréttindabrotum, arðráni og stríðsrekstri alls staðar í heiminum“.

Félagar í No Borders sögðust þó einkum vinna að málefnum flóttamanna og óskráðra farandverkamanna, enda væru þeir „augljósustu og varnarlausustu fórnarlömb landamæraeftirlits“. Allar aðferðir væru nothæfar í starfi No Borders ef „þær eyðileggja ekki fyrir málstaðnum“, No Borders væru oft í samstarfi við aðra hópa, svo sem anarkista eða hústökufólk. Þeir sem þarna eru kallaðir „óskráðir farandverkamenn“ eru almennt nefndir „ólöglegir innflytjendur“ sem velja oft þann kost að gerast hælisleitendur.

1120230Eggert Jóhannesson tók þessa mynd sem birtist á mbl.is af mótmælendum No Borders á Austurvelli.

Þegar litið er á baráttuaðferðir félaga í No Borders berjast þeir ekki síður gegn yfirvöldunum en landamærum. Þetta birtist nú á Austurvelli. Félagar í No Borders hafa fengið leyfi frá Reykjavíkurborg til þess að tjalda í mótmælaskyni á Austurvelli. Ætla tjaldbúar að halda til á Austurvelli þar til stjórnvöld eru tilbúin að „opna samtal við þau um þær kröfur sem þau hafa lagt fram,“ eins og sagði á vefsíðu Fréttablaðsins miðvikudaginn 13. mars. Áður hafði þessi hópur ráðist á lögregluna á Austurvelli. Eftir að til árekstra kom á Austurvelli mánudaginn 11. mars sendi lögreglan frá sér tilkynningu þar sem sagði:

„Það er skiljanlegt að það veki eftirtekt þegar lögregla neyðist til að verja sig með varnarúða. Það er ekki með ánægju sem slíkum meðölum er beitt. Lögreglan forðast þvert á móti í lengstu lög að fara valdbeitingarleiðina. Þegar hins vegar mótmæli færast yfir í skemmdarverk eða ef mótmælendur óhlýðnast beinum fyrirmælum lögreglumanna eða ráðast gegn þeim við skyldustörf þá er bæði öryggi bæði borgaranna og okkar sem störfum sem lögreglumenn, stefnt í hættu. Við því verður lögreglan ávallt að bregðast.“

Kjarni baráttu No Borders er að ekki skuli farið að landslögum gagnvart hópi þess fólks sem samtökin taka undir verndarvæng sinn. Kröfur af þessu tagi fela í sér að ekki séu allir jafnir fyrir lögunum. Sé þessum kröfum andmælt er hrópar No Borders-fólkið að ráðist sé á minnihlutahópa. Að stjórnendur Reykjavíkurborgar skuli leggja Austurvöll undir tjaldstæði vegna þessa segir enn eina söguna um stjórnarhætti í ráðhúsinu.