10.3.2019 9:55

Þegar haldföstu rökin skortir

Í raun er ótrúlegt hve margir hafa kosið að elta þá sem kveiktu villuljósin vegna 3ja orkupakkans.

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður birti í grein í Morgunblaðinu í gær (9. mars) þar sem hann fjallaði meðal annars um 3ja orkupakkann og sagði:

„Ég hef reynt að kynna mér þriðja orkupakkann eftir föngum og ekki síst hvað veldur andstöðunni. Þannig spurði ég Bjarna Jónsson, einn þeirra sem mest hafa beitt sér gegn málinu, um tilvísanir í lög og reglugerðir, haldföst rök. Þau reyndust ekki vera fyrir hendi. Hann vísaði til gerðar sem ekki væri formlegur hluti af orkupakkanum, en eðlilegur hluti af honum og yrði vafalítið innleidd í kjölfar pakkans! Gerðin væri að vísu enn ekki lagalega bindandi, en fæli í sér möguleika til pólitísks þrýstings á yfirvöld hvers lands!“

Þetta er athyglisverð staðfesting á því sem hér hefur verið margítrekað. Haldið hefur verið fram órökstuddum fullyrðingum um afleiðingar þess að innleiða 3ja orkupakkann. Þessi blekkingarherferð er ekki reist á neinum „haldföstum rökum“ svo að tekið sé undir orð Einars.

Europe_energyÍsland stendur utan sameinaða evrópska orkukerfisins.

Hann rifjar upp í grein sinni að Íslendingum sé hvorki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðilda aðgang hér eða fjárfestingartækifærum. Andstæðingarnir sem hrópa hæst hafa útmálað, ACER, fagstofnun ESB sem sinnir eftirliti með því að farið sé að lögum og reglum á sameinaða evrópska orkusvæðinu sem valdastofnun gegn frelsi Íslendinga í orkumálum. Ísland stendur utan þessa orkusvæðis sem ótengd eyja. ACER mun ekki hafa neitt vald hér á landi. EES-eftirlitsmál að því er Ísland varðar eru innan EFTA-stoðar EES-samstarfsins, sjá um hana hér.

Í raun er ótrúlegt hve margir hafa kosið að elta þá sem kveiktu villuljósin vegna 3ja orkupakkans. Sýnir sú vegferð hve auðvelt er að leiða menn í ófærur með aðstoð samfélagsmiðla og í andrúmslofti sem einkennist af því að menn telja sig hafa höndlað dýpri sannleika en sjá með því einu að kynna sér staðreyndir.