8.3.2019

Baudenbacher dómari og EES/EFTA-stoðin

Morgunblaðið 8. mars 2019

Íslensk­ur efna­hag­ur á svo mikið und­ir aðild­inni að sam­eig­in­lega markaðnum í Evr­ópu, EES-sam­starf­inu, að óhjá­kvæmi­legt er að hafa auga með öllu sem þar ger­ist. Mik­il­vægt er að missa ekki sjón­ar á mark­miðunum sem sett voru fyr­ir ald­ar­fjórðungi. Sókn­in eft­ir þeim hef­ur gjör­breytt ís­lensku sam­fé­lagi eins og að var stefnt.

Í skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra frá mars 1991 um stöðu samn­ingaviðræðna um evr­ópska efna­hags­svæðið kom fram að sam­ræmd fram­kvæmd og túlk­un á EES-regl­un­um í öll­um aðild­ar­ríkj­un­um væri for­senda þess að mark­miðum samn­ings­ins yrði náð. Á það var bent að sam­eig­in­leg­ar stofn­an­ir samn­ingsaðil­anna væru óhjá­kvæmi­leg­ar til eft­ir­lits.

Lagt var mat á þess­ar hug­mynd­ir á sín­um tíma og niðurstaðan varð að sjón­ar­mið sem vörðuðu valdsvið sam­eig­in­legra stofn­ana á evr­ópska efna­hags­svæðinu féllu inn­an ramma ís­lensku stjórn­ar­skrár­inn­ar eins og hún hafði verið túlkuð fram að því.

Sam­starfið við ESB hef­ur þró­ast í sam­ræmi við þetta og sam­eig­in­legi markaður­inn tek­ur breyt­ing­um miðað við nýj­ar áhersl­ur.

Verk­efn­um hef­ur verið deilt til stofn­ana inn­an upp­haf­lega ramm­ans. EES-samn­ing­ur­inn stend­ur óhaggaður og fell­ur inn­an marka ís­lensku stjórn­ar­skrár­inn­ar.

Sér­hæfðar fag­stofn­an­ir

Vegna krafna um eft­ir­lit í þágu neyt­enda er sér­hæfðum fag­stofn­un­um falið að fylgj­ast með ein­stök­um sviðum. Hér má til dæm­is nefna Póst- og fjar­skipta­stofn­un, Lyfja­stofn­un, MATÍS og Per­sónu­vernd auk Orku­stofn­un­ar sem fær skýr­ara umboð til neyt­enda­vernd­ar með 3. orkupakk­an­um svo­nefnda. Í þess­um til­vik­um og fleir­um, til dæm­is vegna fjár­mála­eft­ir­lits, flu­gör­ygg­is og per­sónu­vernd­ar, hef­ur verið hugað sér­stak­lega að stöðu Íslands með til­liti til full­veld­is þjóðar­inn­ar. Öll álita­mál hafa verið leyst inn­an ramma stjórn­ar­skrár­inn­ar.

Þessi dreif­ing á valdi til stofn­ana þar sem lögð er áhersla á sérþekk­ingu, söfn­un fag­legra upp­lýs­inga og miðlun þeirra skap­ar aðhald sem nýt­ist í þágu neyt­enda. Lögð er áhersla á sam­eig­in­lega túlk­un og úr­lausn mála. Tak­ist það ekki geta EES/​EFTA-rík­in, Ísland, Liechten­stein og Nor­eg­ur, leitað rétt­ar síns inn­an eig­in eft­ir­lits­stofn­un­ar og eig­in dóm­stóls, EFTA-dóm­stóls­ins í Lúx­em­borg.

Efta_presidentCarl Baudenbacher dómari.

Afstaða dóm­ara

Í liðinni viku birt­ist viðtal hér í Morg­un­blaðinu við sviss­neska pró­fess­or­inn Carl Bau­den­bacher sem sat í rúm 22 ár í EFTA-dóm­stóln­um fyr­ir Liechten­stein. Hann var for­seti dóm­stóls­ins í 15 ár og hef­ur því átt rík­an hátt í að tryggja virðingu hans. Það lá ekki endi­lega í aug­um uppi að niður­stöður EFTA-dóm­stóls­ins yrðu virt­ar á öllu EES-svæðinu, það er í EFTA- og ESB-ríkj­un­um sem mynda rúm­lega 500 millj­ón manna sam­eig­in­lega markaðinn.

Sprin­ger Verlag gaf ný­lega út ævim­inn­ing­ar Bau­den­bachers á ensku: Judicial In­dependence, Memoirs of a Europe­an Judge – Sjálf­stætt dómsvald, minn­ing­ar evr­ópsks dóm­ara. Bók­in er um 500 bls. og þar er að finna ómet­an­leg­an fróðleik um upp­haf og þróun EES-sam­starfs­ins.

Dóm­ar­inn Bau­den­bacher er skýr og gagn­orður. Vegna þess hve umræður um aðild Íslands að EES-svæðinu hafa farið út og suður und­an­farið er við hæfi að rifja upp lýs­ingu Bau­den­bachers í upp­hafi bók­ar sinn­ar á eðli EES-sam­starfs­ins:

„EFTA-rík­in sem eiga aðild að EES eru Ísland, Liechten­stein og Nor­eg­ur. EES-samn­ing­ur­inn (einnig „EES“ eða „samn­ing­ur­inn“) er fjölþjóðleg­ur samn­ing­ur gerður milli Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB) og aðild­ar­ríkja þess ann­ars veg­ar og EFTA-ríkj­anna þriggja hins veg­ar. Hann er reist­ur á tveggja stoða kerfi og lýt­ur hvor stoð um sig, ESB og EES/​EFTA, stjórn eig­in stofn­ana. Í ESB-stoðinni eru fram­kvæmda­stjórn og dóm­stóll Evr­ópu­sam­bands­ins, gagnaðilar þeirra í EFTA-stoðinni eru Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) og EFTA-dóm­stóll­inn. EFTA-dóm­stóll­inn er þannig ná­tengd­ur syst­ur­dóm­stóli sín­um, ESB-dóm­stóln­um. Hann er hluti af ein­stæðum lag­aramma sem átti sér ekk­ert for­dæmi þegar hann kom til sög­unn­ar og hef­ur síðan þró­ast til ein­stakr­ar samþætt­ing­ar. Til­gang­ur EES er að fella Ísland, Liechten­stein og Nor­eg að sam­eig­in­lega markaðnum en ekki inn í tolla­banda­lag ESB. EES/​EFTA-rík­in þrjú hafa þannig haldið full­veldi sínu á sviði alþjóðaviðskipta.“

Loka­setn­ing­in í þess­ari gagn­orðu lýs­ingu skipt­ir miklu þegar litið er til Brex­it-viðræðnanna. Spurn­ing­in sem vefst hvað mest fyr­ir Bret­um er hvort þeir eigi áfram að vera í tolla­banda­lagi með ESB-ríkj­un­um til að tryggja hindr­un­ar­lausa um­ferð milli Írska lýðveld­is­ins og Norður-Írlands.

Ices­a­ve-dóm­ur­inn

Í sér­stök­um kafla, The Ices­a­ve Saga, lýs­ir Bau­den­bacher aðdrag­anda banka­hruns­ins hér, af­leiðing­um þess, ör­lög­um Ices­a­ve-samn­ing­anna og loks mála­ferl­un­um fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um í Lúx­em­borg þar sem hann var í for­sæti og las upp dóm­inn 28. janú­ar 2013.

Hann seg­ir að skort hafi skýr laga­ákvæði um rík­is­ábyrgð í EES-regl­ur um inn­stæðutrygg­ing­ar. Dóm­ar­arn­ir hafi því staðið frammi fyr­ir frek­ar ein­faldri aðferðafræði: áttu þeir að beita fram­sæk­inni (e: dynamic) túlk­un og loka gluf­unni og segja ís­lenska ríkið ábyrgt fyr­ir greiðslu, dygði inn­stæðutrygg­ing­ar­kerfið ekki til upp­gjörs, jafn­vel þótt um kerf­is­hrun væri að ræða, eða áttu þeir að segja að án skýrra laga­reglna gætu þeir ekki stigið þetta skref? „Dóm­stóll­inn tók af­stöðu með ís­lenska rík­inu,“ seg­ir Bau­den­bacher.

Hon­um verður tíðrætt um freistni­vanda (e. moral haz­ard). Sporna verði gegn hon­um, það er gegn því að tek­in sé áhætta í trausti þess að aðrir borgi ef illa fer. Máli sínu til stuðnings vitn­ar dóm­ar­inn í hag­fræðipró­fess­or­inn og nó­bels­verðlauna­haf­ann (2001) Joseph E. Stig­litz sem hef­ur orðað vand­ann á þenn­an hátt: „[Þ]ví meiri og betri trygg­ing er gegn ein­hverri hættu þeim mun minni hvata hafa ein­stak­ling­ar til að kom­ast hjá því að tryggða at­vikið verði vegna þess að full ábyrgð þeirra á af­leiðing­um eig­in gerða minnk­ar...“

Þá árétt­ar Bau­den­bacher einnig í ævi­sögu sinni að Ices­a­ve-deil­unni hafi lokið með dóm­in­um og sé það til marks um að á ár­un­um 19 sem EFTA-dóm­stóll­inn hafði þá starfað hafi hann áunnið sér traust utan EFTA-stoðar­inn­ar.

ESB átti þess kost að stofna áfram til ágrein­ings við Íslend­inga vegna máls­ins. Með því hefði þó verið vegið að réttarör­yggi í EES-sam­starf­inu. At­hafna­leysi ESB sýn­ir að mati Bau­den­bachers að það sé „mjög erfitt ef ekki ómögu­legt fyr­ir ESB að ganga gegn dómi EFTA-dóm­stóls­ins“ sem á ræt­ur í kröf­um ESA. Til þessa verði unnt að vísa sem for­dæm­is í stöðunni sem mynd­ist eft­ir Brex­it.

Lög­mennska í Bretlandi

Bau­den­bacher lét af störf­um við EFTA-dóm­stól­inn í apríl 2018 og varð fé­lagi í lög­fræðistof­unni Monckt­on Cham­bers í London. Hann sér­hæf­ir sig í EES/​ESB-rétti, sviss­nesk­um og þýsk­um viðskipta­rétti. Und­ir þess­um merkj­um berst hann nú öt­ul­lega fyr­ir aðild Breta að EES/​EFTA-stofn­un­um eft­ir Brex­it.

Sóst er eft­ir hon­um sem fyr­ir­les­ara í Bretlandi. Hann er lit­rík­ur og ligg­ur ekki á skoðunum sín­um, fagn­ar því að ís­lensk stjórn­völd hvetja til EES/​EFTA-sam­starfs við Breta og harm­ar ólund Norðmanna gagn­vart hug­mynd­inni. „Það væri ekk­ert gustuka­verk að hleypa Bret­um að stofn­un­um EFTA-stoðar­inn­ar; það félli best að hags­mun­um EES/​EFTA,“ seg­ir Bau­den­bacher rétti­lega und­ir bókarlok.