Sjálfstæðismenn flytja
Það var sem sagt á ári, 1956, sem Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu eins og hann er nú að miðstjórn flokksins ákvað að selja húsnæði sitt og flytja flokksstarfsemi á nýjan stað.
Fyrir 27 árum flutti ég ræðu sem menntamálaráðherra á Ísafirði til að minnast þess að þá voru 50 ár liðin frá stofnun tónlistarfélags og tónlistarskóla á staðnum. Ræðuna má lesa hér.
Í ræðunni beindi ég athygli sérstaklega að Ragnari H. Ragnar skólastjóra og sagði meðal annars:
„Ég þekkti Ragnar H. Ragnar og Sigríði konu hans aðeins af afspurn. Bæði urðu þau landsfræg fyrir störf sín við Tónlistarskólann, og samæfingarnar á heimili þeirra töldust til menningarviðburða langt út fyrir Ísafjörð. Í mínum huga hefur alltaf hvílt dálítil dulúð yfir Ragnari, heimsmanninum og hermanninum, sem settist að á Ísafirði til að kenna litlum börnum á píanó. Hann vissi, að agi er ekki áþján heldur auðveldasta leiðin til að ná árangri og setti skóla sínum skýr markmið, skóli væri fólk en ekki hús. Margir nemenda hans hafa náð langt á listabrautinni og bera meistara sínum fagurt vitni.“
Valhöll við Háaleitisbraut.
Orð Ragnars um að skóli sé fólk en ekki hús koma í hugann þegar fréttir berast um að miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi ákveðið að selja Valhöll við Háaleitisbraut sem hýst hefur skrifstofu flokksins í hálfa öld og reist var með almennri þátttöku flokksmanna og fjárstuðningi velunnara flokksins.
Stjórnmálaflokkur er fólk en ekki hús. Valhöll við Háaleitisbraut var glæsilegri umgjörð um starfsemi Sjálfstæðisflokksins en hann hafði haft frá því að hann hafði aðstöðu við Austurvöll þar sem nú er Sjálfstæðissalurinn, hluti af Iceland Parliament Hotel. Salurinn nýttist flokknum vel og var oft þéttskipaður ekki síst þegar landsfundir flokksins voru haldnir þar en setningarfundir þeirra voru í Gamla bíói.
Það er fagnaðarefni að það tókst að hindra að salurinn sem nú kallast Sjálfstæðissalurinn skyldi rifinn eða gamla Kvennaskólahúsið sem snýr að Austurvelli en þar voru skrifstofur flokksins frá 1941 þegar flokkurinn keypti húsið af Hallgrími Benediktssyni stórkaupmanni sem bjó í húsinu og hafði þar skrifstofur fyrirtækis síns frá 1915.
Eftir 1941 töluðu menn um Sjálfstæðishúsið við Austurvöll. Árið 1956 eignaðist Sjálfstæðisflokkurinn Valhöll að Suðurgötu 39 og hafði þar félags- og skrifstofuaðstöðu til 1972. Þá fluttist skrifstofan í Galtafell við Laufásveg til 1975. Valhallarnafnið fluttist síðan fyrir 50 árum með flokknum á húsið sem nú er til sölu. Upphafleg Valhöll stendur enn við Suðurgötu en hún var reist sem íbúðarhús einnar fjölskyldu árið 1916.
Það var sem sagt á ári, 1956, sem Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu eins og hann er nú að miðstjórn flokksins ákvað að selja húsnæði sitt og flytja flokksstarfsemi á nýjan stað.
Guðrún Hafsteinsdóttir flokksformaður sagði í blaðaviðtali að hún teldi æskilegt að skrifstofurnar yrðu nærri miðborginni, Alþingishúsinu og Ráðhúsinu. Eitt veglegt hús stendur við Vonarstræti, milli þessara tveggja húsa, Oddfellowhúsið. Það er ekki til sölu svo vitað sé og vafalaust hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki áhuga á því.
Þegar rætt er um húsnæðismál félagasamtaka má hafa í huga meginreglu AA-samtakanna um að eignast ekki húsnæði. Með því sé tryggt að starfsemin snúist um bata og fólk en ekki um eignir eða stjórn þeirra.