26.9.1998

Í minningu Ragnars H. Ragnar - Ísafirði

Tónlistarafmæli
Ísafirði
26. september 1998

Í minningu Ragnars H. Ragnar
Vafalaust hefur ríkt nokkur spenna í loftinu hér á Ísafirði fyrir réttum fimmtíu árum. Hinum mikla menningar- og tónlistarfrömuði Jónasi Tómassyni tónskáldi hafði tekist ætlunarverk sitt og fengið Ragnar H. Ragnar, kennara og kórstjóra, til að koma frá Bandaríkjunum með Sigríði konu sinni til að taka að sér tónlistarkennslu. Gengið var frá því að stofna Tónlistarfélag Ísafjarðar og síðan Tónlistarskólann.

Allt gerðist þetta undir lok september og auk þess átti Ragnar H. Ragnar fimmtugsafmæli þessa sömu daga. Hann lét aldurinn ekki aftra sér heldur hóf nýtt ævistarf, sem bar ríkulegan ávöxt.

Víst er, að ekki hafa mörg bæjarfélög staðið þannig að verki að velja tvo tónlistarmenn sem fyrstu heiðursborgara sína. Þetta gerðu Ísfirðingar og heiðruðu þannig þá Jónas Tómasson og Ragnar H. Ragnar í lifanda lífi.

Við komum hér saman í dag til að heiðra minningu þeirra og fagna hálfrar aldrar afmæli félagsins og skólans, sem þeir helguðu krafta sína. Sérstaklega minnumst við Ragnars, sem hefði orðið 100 ára 28. september næstkomandi.

Ég þekkti Ragnar H. Ragnar og Sigríði konu hans aðeins af afspurn. Bæði urðu þau landsfræg fyrir störf sín við Tónlistarskólann, og samæfingarnar á heimili þeirra töldust til menningarviðburða langt út fyrir Ísafjörð. Í mínum huga hefur alltaf hvílt dálítil dulúð yfir Ragnari, heimsmanninum og hermanninum, sem settist að á Ísafirði til að kenna litlum börnum á píanó. Hann vissi, að agi er ekki áþján heldur auðveldasta leiðin til að ná árangri og setti skóla sínum skýr markmið, skóli væri fólk en ekki hús. Margir nemenda hans hafa náð langt á listabrautinni og bera meistara sínum fagurt vitni.

Nýjar rannsóknir á þróun byggðar í landinu og afstöðu fólks til búsetu utan höfuðborgarsvæðisins sýna, að menntun og menning ráða sífellt meiru um hvar flestir vilja búa. Einstaklingar á borð við Ragnar H. Ragnar eru þess vegna máttarstólpar, sem hvert byggðarlag þarfnast til að dafna og blómgast. Því miður eigum við alltof fáa slíka menn.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er helsta stolt okkar á tónlistarsviðinu. Það er síður en svo sjálfgefið, að fámenn þjóð eigi slíka sveit. Án hennar væri tónlistarlíf okkar aðeins svipur hjá sjón og minna virði að búa á Íslandi. Vil ég fá að nota þetta tækifæri til að bjóða Rico Saccani nýjan aðalstjórnanda, Þröst Ólafsson nýjan framkvæmdastjóra, Sigrúnu Eðvaldsdóttur nýjan konsertmeistara, nýja stjórn undir formennsku Þorkels Helgasonar og nýja verkefnavalsnefnd undir formennsku Arnþórs Jónssonar velkomna til starfa.

Nú þegar líður að hálfrar aldar afmæli hljómsveitarinnar er ný forystusveit að axla ábyrgð á starfi hennar. Við verðum að búa vel að Sinfóníuhljómsveit Íslands og gerum það best með því að reisa yfir hana tónlistarhús, sem stenst allar kröfur á heimsmælikvarða. Þannig tryggjum við að störf manna á borð við Jónas Tómasson og Ragnar H. Ragnar skili mestum árangri í tónlistar- og menningarlífi þjóðarinnar. Á vegum menntamálaráðuneytisins er nú verið að leggja síðustu hönd á stórhuga tillögur um ný heimkynni Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Tónlistarskóli Ísafjarðar fékk hús Hússtjórnarskólans Óskar til afnota með formlegum hætti á síðasta ári. Nú verður tekin skóflustunga að tónleikasal við það hús fyrir Tónlistarskólann. Ísfirðingum vex þannig ekki í augum að búa vel að þessari merku stofnun sinni og eignast eigið tónlistarhús.

Forræði muna og búnaðar Hússtjórnarskólans er í höndum menntamálaráðuneytisins. Hefur Kvenfélagið Ósk farið þess á leit að fá þessar eignir til forsjár í því skyni að setja á stofn minjasafn. Hef ég ákveðið að verða við þessum tilmælum.

Góðir áheyrendur.

Ragnar H. Ragnar sagði að skóli væri fólk en ekki hús. Orð hans má færa yfir á tónlistina, hún er ekki hús heldur skapandi kraftur og gleðigjafi - þrátt fyrir það þurfum við tónlistarhús fyrir skóla og hljómsveit.

Ég óska Ísfirðingum til hamingju með Tónlistarskólann og með að fá að njóta afreka þeirra Jónasar Tómassonar og Ragnars H. Ragnar.

Megi tónlistin halda áfram að dafna hér á þessum stað. Megi menntun og menning setja áfram sterkan svip á Ísafjörð.