Sauðkindin og byggðafestan
Með úthagabeit sauðfjár er unnt að breyta gróðri í verðmæta afurð án þess að nota áburð eða olíu til fóðurframleiðslunnar.
Sumarið 2023 gerðum við Hlédís Sveinsdóttir úttekt í því skyni að kanna leiðir til að auka byggðafestu í sex sveitarfélögum: Dölum, Reykhólahreppi, Árneshreppi, Kaldrananeshreppi, Strandabyggð og Húnaþingi vestra. Í þeim öllum skiptir sauðfjárrækt miklu. Að lokinni úttektinni birtum við niðurstöðurnar í skjalinu Leiðir til byggðafestu
Þar er meðal annars að finna tillögu um að kolefnisflæði hefðbundinnar sauðfjárframleiðslu hérlendis verði metið til að mæla áhrif beitar á kolefnisupptöku jafnframt því að meta magn kolefnis í afurðunum sem skila sér af beitilandinu. Við töldum þörf á kerfisgreiningu með mælingum á þessum þáttum, í samstarfi vísindamanna og bænda.
Eins og hér var sagt frá hefur nú verið unnið að slíku mati á vegum Lands og skógar og benda fyrstu niðurstöður til þess að um nettó-bindingu kolefnis beitarlands sé að ræða. Í grein í Morgunblaðinu í dag (6. september) bendi ég á hve mikils virði þessi niðurstaða sé við markaðssetningu á íslensku lambakjöti. Gera verði gangskör að því að kynna gæði kjötsins á markvissan og góðan hátt.
Í greinargerðinni fyrir tillögu okkar Hlédísar sem við birtum 2024 segir meðal annars:
Með úthagabeit sauðfjár er unnt að breyta gróðri í verðmæta afurð án þess að nota áburð eða olíu til fóðurframleiðslunnar. Hagkvæmni þess að nýta úthaga við framleiðslu lambakjöts samanborið við áborið land, svo ekki sé minnst á heygjöf, þarf að kanna. Slíkar rannsóknir eru best unnar í náinni samvinnu við bændur.
Kjörið er að virkja bændur í sveitarfélögunum sex í Dölum, Reykhólahreppi, Árneshreppi, Kaldrananeshreppi, Strandabyggð og Húnaþingi vestra, til þátttöku í verkefni af þessu tagi. Með því fengist mikilvæg vitneskja um kolefnisspor sauðkindarinnar, en eftir því hefur verið kallað.
Rannsókn af þessum toga mundi einnig nýtast til að átta sig á gildi beitar fyrir líffræðilegan fjölbreytileika, í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) sem gekk í gildi á Íslandi árið 1994.
Auknar kröfur um friðun lands fyrir beit og um vaxandi skógrækt fela í sér hættu fyrir opna ásýnd landsins. Sérstaða þessarar opnu ásýndar Íslands kann að hverfa og þá yrði æ erfiðara að átta sig á hvort farið sé um Ísland en ekki t.d. Noreg eða Kanada. Mikilvægi hefðbundinnar opinnar ásýndar landsins fyrir ferðaþjónustuna hefur ekki verið metið.
Rannsókn af því tagi sem hér er kynnt myndi auðvelda mat á gildi þess að varðveita íslenskt landslag og styrkja þannig grunn skipulagsákvarðana sem sporna gegn þróun sem breytir ásýnd Íslands og stuðla að skynsamlegri landnýtingu.
Vonandi verður rannsóknum á vegum Lands og skógar haldið áfram í góðri samvinnu við bændur samhliða því sem tryggð verður opin ásýnd Íslands þrátt fyrir aukna skógrækt.