31.8.2025 10:44

Beit bindur kolefni

Þetta ætti að breyta viðhorfi talsmanna öflugra loftslagsaðgerða til kolefnisbindingar sauðkindarinnar. Sumir þeirra hafa gert hana og framleiðslu lambakjöts að blóraböggli í umræðum um loftslagsmál.

Loftslagsbókhald ríkja ber sífellt hærra í umræðum á alþjóðavettvangi. Með aðild að Parísarsamkomulaginu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París árið 2015 skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að halda meðalhækkun hitastigs jarðar vel undir 2°C miðað við hitastig fyrir iðnbyltingu og að stefna að því að halda henni undir 1,5°C; að gera auknar ráðstafanir til að takast á við neikvæð áhrif loftslagsbreytinga og stuðla að fjármögnun sem samræmist lághitastigsþróun og loftslagsþoli.

Aðrir verða til þess að greina hvernig til hefur tekist í þessu efni á alþjóðavettvangi undanfarin 10 ár. Hér eru stöðugt umræður um leiðir til að ná þessum markmiðum af okkar hálfu og einnig með aðgerðum sem eiga að auðvelda öðrum þjóðum að haga loftslagsbókhaldi sínu innan umsaminna marka. Til sögunnar er kominn markaður með kolefniseiningar. Þar er hundruðum milljarða velt á ári hverju.

Margar aðferðir sem kynntar eru til að komast inn á þennan markað eru umdeildar og kröfur um öruggar vottanir vaxa eftir því sem meira er sóst eftir fjárfestum. Hér höfum við kynnst stórhuga fjárfestingum í þessu skyni og hefur Orkuveita Reykjavíkur tekið þar verulega áhættu án þess að þeim sem standa undir rekstri hennar hafi verið sögð öll sagan. Minni fjárfestingar í þágu kolefnisbindinga birtast í kaupum á landi undir skógrækt sem breytir ásýnd landsins þegar fram líða stundir. Þar er ekki síður, en við stórfjárfestingar til bindingar í iðrum jarðar, nauðsynlegt að ganga fram af varúð.

IMG_7777

Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins (28. ágúst) er rætt við Bryndísi Marteinsdóttur, sviðsstjóra sviðs sjálfbærrar landnýtingar hjá Landi og skógi, um loftslagsbókhaldið á vegum Lands og skógar. Hún segir að nú sé í fyrsta skipti beitilandi á úthögum og afréttum skipt upp eftir ástandi lands og reiknuð út losun og binding fyrir þessi svæði. Fram til þessa hafi hvorki verið reiknað með losun né bindingu á beitilöndum vegna skorts á gögnum.

Bryndís segir að Land og skógur vinni áfram að talsverðum endurbótum á kortlagningu beitilanda og unnið sé að bættu ástandsmati, auk þess sem miklar rannsóknir séu í gangi til að fá betri upplýsingar um kolefnisbúskap beitilanda. „Þannig mun mat á losun og bindingu taka breytingum á næstu árum. Fyrstu útreikningar, byggðir á þeim gögnum sem liggja fyrir í dag, benda til þess að á heildina litið sé nettó binding á beitilöndum á Íslandi. Ofangreindar breytingar hafa verið rýndar af eftirlitsaðilum bókhaldsins og fengið grænt ljós,“ segir Bryndís.

Þetta eru jákvæð tíðindi sem sýna að vísindalegar kenningar um bindingu beitilands á kolefni eiga við rök að styðjast. Þetta ætti að breyta viðhorfi talsmanna öflugra loftslagsaðgerða til kolefnisbindingar sauðkindarinnar. Sumir þeirra hafa gert hana og framleiðslu lambakjöts að blóraböggli í umræðum um loftslagsmál.

Nú ætti að gera gangskör að því að rannsaka áhrif sauðfjár á bindingu kolefnis í samvinnu við bændur um land allt og stuðla að aukinni byggðafestu í sauðfjárhéruðum í þágu loftslagsgæða