8.3.2019 10:16

Satt og logið um orkupakkann

Norskir EES-andstæðingar beittu sér fyrir best heppnuðu upplýsingafölsunar-herferð útlendinga í seinni tíð á íslenskum stjórnmálavettvangi.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, rifjaði upp á alþingi fimmtudaginn 7. mars að þingið hefði haft haft málefni þriðja orkupakkans svonefnda til umfjöllunar allt frá árinu 2010 þegar þinginu bárust fyrstu minnisblöð um málið og fyrirhugaða innleiðingu hans. Efnisleg umfjöllun í nefndum átti sér stað á árunum 2014–2016 í aðdraganda ákvörðunar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn. Orkupakkinn var síðan tekinn upp í EES-samninginn í maí 2017. Þorsteinn spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra hvers vegna hefði tafist svo lengi að leggja málið fyrir alþingi til lokaafgreiðslu.

Ráðherrann sagði algjöra samstöðu innan ríkisstjórnar um úrvinnslu málsins. Vegna umræðna um það væri nauðsynlegt að grandskoða hvern þátt þess. Hann mundi taka þann tíma sem þyrfti til að skoða málið til hlítar.

Fact_fake_blocks_slRáðherrann sagði þetta ekki aðeins snúast um þriðja orkupakkann. Í ræðu sinni hefði Þorsteinn Víglundsson réttilega vísað til áhrifa frá Noregi á umræðurnar hér. Ráðherrann sagði:

„Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hér hafa verið útsendarar norska Miðflokksins sem hafa það að skilgreindu markmiði að koma okkur út úr EES og hafa reynt að tala það niður í Noregi mjög lengi. [...] Við verðum að ræða EES-samninginn og hinar endalausu rangfærslur sem hafa verið í gangi um EES-samninginn mjög lengi eru algjörlega óþolandi. Það eru tveir aðilar sem sameinast í að koma þeim rangfærslum áleiðis, annars vegar þeir sem vilja ganga í ESB og hins vegar nýi hópurinn núna, dótturfélag norska Miðflokksins sem vill ganga út úr EES-samningnum.“

Norskir EES-andstæðingar beittu sér fyrir best heppnuðu upplýsingafölsunar-herferð útlendinga í seinni tíð á íslenskum stjórnmálavettvangi. Þeir voru í tengslum við Miðflokkinn hér á landi. Hann ályktaði allt í einu gegn 3. orkupakkanum sl. haust og 8. nóvember 2018 skrifaði flokksformaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, dæmalausa grein um málið sjá hér .

Norsku miðflokksmennirnir beittu sér einnig innan Sjálfstæðisflokksins og varð nokkuð ágengt. Norsku fingraförin sjást best af því að skoðanabræður þeirra hér grípa til raka sem áttu ef til vill við í Noregi en alls ekki hér þar sem Ísland er ótengd eyja gagnvart evrópska orkukerfinu og tengist því ekki án sjálfstæðrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda.