8.11.2018 11:11

Enn um U-beygju Sigmundar Davíðs

Undrunin yfir afstöðu formanns Miðflokksins verður ekki minni í dag þegar lesin er grein hans í Morgunblaðinu sem ber fyrirsögnina: Suma pakka er betra að afþakka

Hér var í gær lýst undrun yfir að Miðflokkurinn undir formennsku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (SDG) og varaformennsku Gunnars Braga Sveinssonar (GBS) hefði ályktað gegn 3. orkupakka ESB sem legið hefur á borðum íslenskra stjórnvalda frá árinu 2010.

Undrunin yfir afstöðu formanns Miðflokksins verður ekki minni í dag (8. nóvember) þegar lesin er grein hans í Morgunblaðinu sem ber fyrirsögnina: Suma pakka er betra að afþakka.

Fundur-a-KEA_8356Myndin er af vefsíðu Miðflokksins og sýnir Sigmund Davíð í ræðustól á flokksráðsfundi 3. nóvember 2018.

Þegar SDG var forsætisráðherra og GBS utanríkisráðherra fjölluðu þeir um 3. orkupakkann. GBS sendi hann meðal annars til utanríkismálanefndar alþingis sem leitaði álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Í áliti hennar frá 27. nóvember 2014 segir að  útfærsla sem henni var kynnt af utanríkisráðuneytinu og sérfræðingum þess „feli í sér framsal sem sé vel afmarkað, á takmörkuðu sviði og fyrirsjáanlega ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila“.

SDG og GBS höfðu 3. orkupakkann í höndunum frá maí 2013 fram í apríl 2016, í tæplega 3 ár. Þetta var á því stigi málsins sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra höfðu tök á að vega og meta hvort ástæða væri til þess að taka við pakkanum og vinna að því að hann yrði „tekinn upp í EES-samninginn“ eins og það er orðað í opinberum skjölum. Niðurstaða þeirra félaga var að höfðu samráði við sérfræðinga og nefndir alþingis að það skyldi gert án fyrirvara.

Af grein SDG má ráða að nú snúist honum hugur í þessu máli vegna fréttaskýringar í Bændablaðinu, ummæla formanns Sambands garðyrkjubænda og orða norska lagaprófessorins Peters T. Örebechs. Ekkert af þessu hefur farið í þá athugun sem gerð var áður en SDG og GBS tóku ráðherraákvarðanir sínar. Full þörf er á slíkri athugun vegna áhrifanna á SDG og U-beygju hans þegar hann vill nú hafna pakkanum sem hann og varaformaður hans töldu falla að EES-ferlinu.

SDG hneykslast á að núverandi ríkisstjórn vilji „gera sem minnst úr málinu“. Hlutverk stjórnarinnar nú er í raun ekki annað en vinna úr ákvörðunum sem SDG og GBS tóku á sínum tíma án nokkurrar opinberrar umræðu af því að málið þótti ekki gefa tilefni til þess.

Lokaorð í grein SDG eru:

„Ég skora á ríkisstjórnina að fara nú þegar fram á að Ísland fái undanþágu frá orkupakkanum og skila honum svo til sendanda. Í því efni getur ríkisstjórnin reitt sig á stuðning Miðflokksins.“

Engum sem les þessi orð býður líklega í grun að höfundurinn hafi verið forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands sem tók við þessum orkupakka og taldi hann án fyrirvara eiga heima í EES-ferlinu. Væru heilindi í afstöðu SDG fælust þau í fyrirheiti hans um stuðning Miðflokksins við að ljúka EES-ferlinu með því að samþykkja pakkann á alþingi.