2.6.2018 11:18

Ríkisforsjá krefst ný forstjóra

Þeir sem þekkja til embættisstarfa Steingríms Ara vita að hann vinnur þau af stakri kostgæfni. Hvort það er þess vegna sem Svandís Svavarsdóttir vill losna við hann er ósennilegt.

Fyrir 10 árum varð töluverður hvellur þegar beitt var ákvæði í lögum um að auglýsa embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum samhliða miklum breytingum sem gerðar voru á embættinu. Voru höfð uppi stór orð um aðför að þeim sem þá sat í stöðu lögreglustjórans. Stjórnsýslubreytingarnar voru þó eðlileg afleiðing breytinga á starfsemi á Keflavíkurflugvelli eftir brottför varnarliðsins.

Á þetta er minnst núna vegna fréttar í Morgunblaðinu í dag (2. júní) um að Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), hafi ákveðið að sækja ekki um starf forstjóra SÍ á ný, en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ákvað í vor að starf forstjóra yrði auglýst laust til umsóknar. Agnes Bragadóttir blaðamaður spyr Steingrím Ara hvort það hefði komið honum á óvart í vor, þegar ljóst varð að heilbrigðisráðherra ákvað að auglýsa starf hans. Steingrímur Ari svarar:

„Í rauninni skiptir það ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er að vilji ráðherra er augljós. Það liggur fyrir að hann vill skipta um forstjóra. Ég hef kallað eftir ákveðnum svörum og verið í samskiptum við ráðuneytið og í framhaldi þess er það mín niðurstaða að ég vil hætta. Með því að tilkynna þetta núna er ég auðvitað að auðvelda mönnum að sækja um og vil nota tækifærið til þess að hvetja alla góða menn til að sækja um starfið og tryggja að Sjúkratryggingarnar blómstri og dafni.“


Þeir sem þekkja til embættisstarfa Steingríms Ara vita að hann vinnur þau af stakri kostgæfni. Hvort það er þess vegna sem Svandís Svavarsdóttir vill losna við hann er ósennilegt. Líklegra er að það sé vegna þess að ráðherrann vill minnka svigrúm annarra en ríkisstarfsmanna til að lækna fólk.

Um miðjan apríl 2018 urðu umræður á síðum Fréttablaðsins um þá furðulegu afstöðu heilbrigðisráðherra að banna sjúkratryggingum að semja við aðra en stofnanir ríkisins um liðskiptaaðgerðir. Sagði Steingrímur Ari frá því í grein 17. apríl ( sjá hér )að ósk sjúkratrygginga um að semja við sjálfstætt starfandi bæklunarlækna um að gera hluta gerviliðaaðgerða „mæli fagleg og fjárhagsleg rök með því“ hefði verið hafnað. Höfnunin lengir biðlista og eykur útgjöld ríkissjóðs.

Þessi hafta- og skömmtunarstefna ríkisforsjársinna í heilbrigðisráðuneytinu gengur sér til húðar fyrr en seinna. Að nauðsyn sé að losa sig við grandavaran embættismann til að halda lífi í henni er í samræmi við glórulausan málstaðinn.