17.4.2018 12:30

Sóun án vitglóru

Á sama tíma hafi verið hafnað ósk SÍ um að semja við sjálfstætt starfandi bæklunarlækna um að gera hluta gerviliðaaðgerða.

Ragnar H. Hall lögmaður ritaði grein í Fréttablaðið föstudaginn 13. apríl og lýsti áhrifum bannsins við því að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) synjuðu umbjóðanda lögmannsins greiðsluþátttöku vegna liðskiptaaðgerða, sem framkvæmdar voru hjá Klíník­inni Ármúla ehf. í Reykjavík (Klíníkin).  Lögmaðurinn segir að Klíníkin uppfylli allar læknisfræðilegar kröfur, sem gerðar eru til starfseminnar og hafi tilskilin leyfi.

Eftir að hafa verið á biðlista í meira en eitt ár og vegna vaxandi vanlíðanar sendi umbjóðandi Ragnars erindi til SÍ og óskaði eftir afstöðu stofnunarinnar til greiðsluþátttöku vegna liðskiptaaðgerðar út frá tvenns konar forsendum: Annars vegar ef aðgerðin yrði framkvæmd á sjúkrahúsi í Svíþjóð og hins vegar ef hún yrði framkvæmd hjá Klíníkinni.

SÍ svaraði strax að sjúklingurinn ætti rétt á því að fá aðgerðina framkvæmda á sjúkrahúsi í Svíþjóð og mundi stofnunin greiða allan kostnað við það. Einnig mundi stofnunin greiða kostnað hans af ferðalaginu til Svíþjóðar og uppihald þar, ekki aðeins fyrir sjúklinginn heldur einnig fyrir fylgdarmann sem færi með honum. Í svarbréfinu var honum óskað góðrar ferðar! Hins vegar var tekið fram að stofnunin mundi ekki taka neinn þátt í kostnaðinum ef aðgerðin yrði framkvæmd hjá Klíník­inni Ármúla ehf.

Myndin er frá Klínikinni og sýnir skurðstofu þar.

Sjúklingurinn valdi síðari kostinn og var kostnaður rúmlega ein milljón hjá Klíník-inni. Ragnar segir að kostnaður vegna sambærilegrar aðgerðar í Svíþjóð sé um þrjár milljónir króna með öllu tilheyrandi. Þennan kostnað greiða SÍ með góðum ferðaóskum.

„Hver maður sér að ekki er vitglóra í svona kerfi,“ segir lögmaðurinn í greinarlok.

Steingrímur Ari Arason, forstjóri SÍ, skrifar um sama mál í Fréttablaðið í dag. Frá árinu 2016, þegar sérstakt átak til að stytta biðlista hófst, hafi þrír heilbrigðisráðherrar ákveðið að liðskiptaaðgerðir í íslenska heibrigðiskerfinu skuli einungis vera í boði hjá stofnunum ríkisins. Á sama tíma hafi verið hafnað ósk SÍ um að semja við sjálfstætt starfandi bæklunarlækna um að gera hluta gerviliðaaðgerða „mæli fagleg og fjárhagsleg rök með því“.  

Í ár hefur heilbrigðisráðherra slík rök enn að engu og hefur ákveðið að fela Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands að framkvæma allar biðlistaaðgerðir átaksins án sérstaks samnings. Vitneskjan um sóun innan kerfisins er að engu höfð.

Hvorki Ragnar H. Hall né Steingrímur Ari Arason víkja að því sem er undirrót þessarar illu meðferðar á opinberu fé og aðfarar að líðan sjúklinga. Það er hagsmunatogstreita þar sem Landspítalinn hefur betur gagnvart ráðamönnum sem þola illa eða alls ekki einkarekna læknisþjónustu eða skortir burði til að hafa kröfur spítalans að engu.