Parki hagnast á Háskóla Íslands
Það er undarlegt að forráðamenn Háskóla Íslands skuli heimila Parka að komast upp með þá aðferð sem lýst var í færslu hér á dögunum.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segja í sameiginlegri grein á Vísi 12. janúar:
„Á bílastæðum sem nota þjónustu Checkit.is eru engin vangreiðslugjöld innheimt. Þar undir eru meðal annars Þingvellir, Seljalandsfoss, Höfðatorg, Selafjaran og Hafnarhólmi. Ef ökumaður gleymir eða vanrækir að borga fyrir bílastæði fær hann senda kröfu í heimabanka. Upphæðin er sú hin sama og hann hefði átt að borga fyrir notkun stæðisins, ásamt 130 króna bankakostnaði. Það er allt og sumt. Ekkert vangreiðslugjald, engar hótanir.
Samkvæmt okkar upplýsingum skila greiðslur sér allt að 100%. Fólk er nefnilega tilbúið til að borga fyrir veitta þjónustu.
Fæstir sætta sig aftur á móti við óútskýrð refsigjöld sem birtast fyrirvaralaust í heimabanka, dráttarvexti og innheimtukröfur fyrir einfaldar yfirsjónir eða gleymsku vegna afnota bílastæða. Þannig vinna Parka, Myparking, Sannir landvættir, Green parking og Autopay. Útbreidd gremja ríkir vegna þessara vinnubragða og stjórnvöld undirbúa nú aðgerðir.
Sátt myndi ríkja um Checkit.is leiðina. Engin vangreiðslugjöld, engar hótanir. Hið eina rétta er því að hætta að rukka vangreiðslugjöld.“
Hér skal tekið undir þessi orð. Þau falla að gagnrýni minni á Parka fyrir innheimtuaðferð hans í boganum fyrir Háskóla Íslands sem gerð hefur verið að umræðuefni hér . Ekki hefði verið gerð nein athugasemd við þá framkvæmd sem lýst er í greininni.
Parki hefur einkarétt á innheimtu bílastæðagjalda í boganum fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands og innheimtir þar vangreiðslugjald af óbilgrini (mynd: mbl.is).
Það er undarlegt að forráðamenn Háskóla Íslands skuli heimila Parka að komast upp með þá aðferð sem lýst var í færslu hér á dögunum. Hún er til þess fallin að fæla fólk almennt frá því að leggja bifreið á þessum stað. Fleiri eiga leið á þetta svæði við háskólann en þeir sem starfa þar eða stunda nám.
Oft er efnt til fyrirlestra fyrir almenning í háskólabyggingum í nágrenni bogans auk þess sem fólk utan skólans á erindi á Háskólatorgið, til dæmis í Bóksölu stúdenta þar. Það er því langt frá því að aðeins þeir sem hafa kynnt sér smáa letrið í innheimtukerfi Parka leggi leið sína á þessar slóðir.
Þegar mönnum blöskrar framganga á vegum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur geta þeir gætt réttar síns samkvæmt almennum stjórnsýslureglum og skotið ágreiningi með kvörtun til umboðsmanns alþingis. Ekkert slíkt er í boði gagnvart einkafyrirtækjum. Nú sýnir reynslan að við innheimtu vangreiðslugjalda ganga þau lengra en góðu hófi gegnir.
Stundum mætti halda í umræðum um regluverk að það sé orðið til af þörf skriffinna fyrir ný verkefni. Skýringar á reglum eru oft þær að til þeirra er gripið til að skapa umgjörð til varnar almennum borgurum gegn yfirgangi af einhverju tagi. Vangreiðslugjaldaæðið kallar því miður á opinberar reglur til að auka gegnsæi og til verndar borgurunum gegn græðgi sumra sem komast yfir bílastæði til útleigu.
Í ofannefndri grein segja Bjarki og Runólfur að vangreiðslugjaldafyrirtækin bjóði eigendum bílastæða gull og græna skóga til að geta náð í þessi gjöld fyrir sig. Að Háskóli Íslands falli fyrir slíku er til skammar.