Ólík sýn á ráðherrafund
Í tilkynningu ráðuneytis hennar um fundinn er ekki minnst einu orði á Trump eða Grænland. Þar er á hinn bóginn lögð áhersla á varnarbaráttu Úkraínumanna gegn Rússum.
Sérfræðingur þýska blaðsins Die Welt í her- og öryggismálum, Thorsten Jungholt, setur fund utanríkisráðherra Þýskalands og Íslands, Johanns Wadenphul og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur á Keflavíkurflugvelli sunnudaginn 11. janúar í samhengi við Grænlandsstefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Hér hefur því verið haldið fram að skoða beri yfirlýsingar Trumps um Grænland í því ljósi að hann treysti ekki Evrópuríkjum NATO til að tryggja þar nægilega traustar varnir fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar við þessu birtust í frétt í The Telegraph sunnudaginn 11. janúar um að breski herinn ynni að áætlunum innan NATO um að bresk herskip, flugvélar og hermenn yrðu æfð með varnir Grænlands í huga.
Í Die Welt er lögð áhersla á að þýski sjóherinn og flugherinn ætli að láta meira að sér kveða á Norður-Atlantshafi. Samið hafi verið við íslensk stjórnvöld um að nýjar P8-kafbátaleitarvélar Þjóðverja hefðu afnot af Keflavíkurflugvelli í þessu skyni.
Þá segir að Wadephul utanríkisráðherra ætli í dag (12. janúar) að gera Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna grein fyrir áformum Þjóðverja. Má lesa á milli línanna að þýski blaðamaðurinn hefur litla trú á að Wadephul takist að létta áhyggjum af Trump sem endurtekur sífellt að hann verði að eignast Grænland með góðu eða illu.
Die Welt birtir þessa mynd af norðurslóðum og siglingtaleið frá Kyrrahafi fyrir norðan Rússland í GIUK-hliðið.
Þá vitnar þýski blaðamaðurinn í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra sem hafi sagt að hér væru engar áhyggjur af því að Íslendingar lentu í sömu stöðu gagnvart Trump og Grænlendingar vegna landakrafna. Samskipti Íslands við Bandaríkin væru góð. Engu að síður væri unnið að frekara tvíhliða öryggissamstarfi. Það sem skipti þó öllu máli sé að halda áfram samstarfi innan NATO. „Ég vil að við stöndum öll saman,“ sagði hún.
Boðskapur Þorgerðar Katrínar var einfaldlega sá sami og á heimavelli: „Gerum þetta saman!“ Í tilkynningu ráðuneytis hennar um fundinn er ekki minnst einu orði á Trump eða Grænland. Þar er á hinn bóginn lögð áhersla á varnarbaráttu Úkraínumanna gegn Rússum.
„Þýskaland er eitt af mikilvægustu samstarfsríkjum okkar og fundur okkar í dag er skýr vitnisburður um það. Við erum öflugir bandamenn, bæði í Evrópusamvinnunni og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í áratugi, og höfum aukið tvíhliða samstarf okkar í öryggis- og varnarmálum. Þá erum við einhuga um að efla enn frekar okkar farsæla pólitíska-, viðskipta- og menningarsamstarf, sem hefur reynst þjóðum okkar gjöfult,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu í tilkynningu ráðuneytis hennar um fundinn.
Þessi frásögn utanríkisráðuneytisins gefur í raun til kynna að fundurinn hafi verið tíðindalaus. Íslenska utanríkisráðuneytið talar um sjálfsagða hluti á allra vitorði og forðast umræður um kjarnaþátt öryggis Norður-Atlantshafs og norðurslóða: hvernig skapa megi jafnvægi og stöðugleika í samskiptum Bandaríkjamanna, Grænlendinga og Dana. Það verður ekki gert með innanlandsófriði hér um ESB-aðild. Hún myndi að auki spilla öllu tvíhliða samstarfi okkar við Bandaríkin.