Grænlandsfár Trumps og Ísland
Morgunblaðið, laugardaginn 10. janúar 2026
Árið 2006 töldu Bandaríkjastjórn og NATO að Norður-Atlantshafið hefði breyst í jaðarsvæði við mat á brýnum öryggishagsmunum. Samvinna við Rússa í varnarmálum var talin raunhæf, samskipti við Kínverja þóttu góð og hernaðarleg lágspenna ríkti.
Í september 2006 steig Bandaríkjastjórn endanlega það skref að loka Keflavíkurstöðinni og kalla varnarlið sitt heim frá Íslandi. Íslensk stjórnvöld vöruðu eindregið við að stöðinni yrði lokað að fullu og öllu. Viðvaranirnar voru að engu hafðar. Bandaríkjamenn töldu meira að segja óþarft að starfrækja hér ratsjárstöðvar til eftirlits. Þeim stöðvum var þó ekki lokað. Íslensk stjórnvöld hafa í 20 ár ábyrgst rekstur þeirra og öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli í þágu NATO.
Sagan sýndi fljótt hve mikil skammsýni fólst í þessum ákvörðunum Bandaríkjastjórnar og NATO. Strax snemma árs 2007 tók Vladimír Pútín Rússlandsforseti að gagnrýna ofuráhrif Bandaríkjanna, það yrði að veita þeim viðnám. Þegar samskipti við Rússa versnuðu og Kínverjar fóru að sækja í sig veðrið á norðurslóðum breyttu Bandaríkin og NATO um stefnu. Ísland varð á ný lykilhlekkur í varnarkeðju bandalagsins, ekki vegna eigin herstyrks heldur vegna hnattstöðu sinnar.
Þrátt fyrir allt umrót á alþjóðavettvangi breytist hnattstaðan ekki. Hernaðarlegt gildi hennar ræðst af því hvernig blæs í seglin hjá stórveldunum. Nú í vikunni lenti Bandaríkjamönnum og Rússum saman á hafinu fyrir sunnan Ísland vegna hertöku á rússnesku skipi sem brotið hafði hafnbann í Venesúela, gömlu olíuskipi úr skuggaflota Rússa.

Í umræðunum vegna handtöku Maduro-hjónanna með bandarísku hervaldi í Karakas laugardaginn 3. janúar talar utanríkisráðherra Íslands um að gera þurfi „varnarsamning“ við Evrópusambandið. Jafnframt magnast umræður um að framganga Donalds Trumps Bandaríkjaforseta gagnvart Grænlandi grafi undan NATO. Ísland verði þess vegna að leita að nýrri „varnarstoð“. Þetta eru hraðsoðnar yfirlýsingar sem falla illa að raunveruleikanum.
Evrópusambandið (ESB) gerir ekki varnarsamninga. Við það verður ekki samið um varnir eins og gert var við Bandaríkin 1951. ESB býður ekki gagnkvæmar varnarskuldbindingar eins og NATO. Það hefur enga herstjórn yfir Norður-Atlantshafi og getur ekki ábyrgst varnir Íslands. Samstarf við ESB er gagnlegt á sviði fjölþáttaógna, netöryggis, tækni og almannavarna. Yfirlýsing um samstarf á þessum sviðum hefur engan hernaðarlegan fælingarmátt. Reynslan frá Úkraínu sýnir að hann einn skiptir máli.
Raunverulegar varnir Íslands hvíla á tveimur meginstoðum: Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Líta má á NORDEFCO, norræna samstarfið í hermálum, sem þriðju stoðina ásamt aðildinni að sameinuðu viðbragðssveitinni (JEF) í N-Evrópu.
Öll norrænu ríkin ásamt Bandaríkjunum og Kanada eru innan herstjórnar NATO, JFC NATO, í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum. Þar eru gerðar sameiginlegar varnaráætlanir og lögð á ráðin um æfingar, skipulag og viðbrögð á norðurslóðum, N-Atlantshafi og Skandinavíuskaga allt að landamærum Rússlands. Ísland fellur innan þessa ramma sem virkur þátttakandi, þótt herlaust sé. Þetta er sameiginleg varnarstoð í skýrustu merkingu þess orðs.
Með þessum formerkjum ber að skoða yfirlýsingar um hugsanlega bandaríska hertöku á Grænlandi. Er Bandaríkjaher að skipuleggja slíka aðgerð með leynd fram hjá herstjórnakerfi NATO? Það bryti gegn grundvallarhagsmunum Bandaríkjanna sjálfra. Aðgerðinni yrði í raun beint gegn varnarkerfi NATO og varnarkeðjunni sem Trump segist ætla að treysta í þágu bandarískra öryggishagsmuna. Bandaríkjaher hefur nú þegar víðtækan aðgang að Grænlandi með samþykki Dana og Grænlendinga. Óvinveitt innlimun Grænlands í Bandaríkin yrði pólitísk sprengja með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, hernaðarlega og pólitískt.
Þegar Trump rökstyður nauðsyn þess að hann gæti bandarískra öryggishagsmuna með valdatöku á Grænlandi ímyndar hann sér að rússnesk og kínversk skip skapi þar stöðuga hættu. Athygli hans beinist því að kínverskum umsvifum hér á slóðum Íslands. Sendiherra Íslands í Kína sagði hér í blaðinu 30. desember 2025 að „engin ástæða [væri] til að höndla Kína sem ógn við Ísland í dag“ og endurómaði hugsunina sem ríkti fyrir 2006: að stórveldi utan Evrópu væru fyrst og fremst viðskiptalegir samstarfsaðilar. Þetta hefur breyst.
Þegar bandamenn Íslands telja hættu stafa af norðurslóðaumsvifum Kínverja vekja svona yfirlýsingar sendiherra NATO-ríkis óæskilega athygli. Til þessa hafa forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands reynt að vera utan ratsjár Trumps.
Í ummælum Trumps um öryggisvá vegna varnarleysis Grænlands birtist vantrú hans á getu Evrópuríkja til að tryggja eigið öryggi. Þau séu hernaðarlega veikburða og því telji hann eðlilegt að Bandaríkjamenn tryggi sjálfir öryggið í norðri.
Við þessar aðstæður boðar ríkisstjórn Íslands aðildarskref sitt í átt að Evrópusambandinu. Aðild að ESB er hvorki nauðsynleg fyrir þjóðarhag né heppileg fyrir öryggishagsmuni Íslands og kann hæglega að veikja varnartengslin við Bandaríkin. Að leggja slíka tillögu fyrir alþingi nú ber hvorki vott um skynsamlegt ástandsmat né raunsæi.
Grænland er mál Grænlendinga og ber að virða sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Skylda íslenskra stjórnvalda er þó fyrst og fremst að gæta íslenskra hagsmuna. Óljósar hugmyndir um nýjar varnarstoðir sem kunna að veikja bandarísku stoðina auka ekki öryggi þjóðarinnar.