29.6.2022 9:56

Öfgar í þágu Rússa

Öfgamenn til hægri og vinstri sameinast stundum í afstöðu gegn heilbrigðri skynsemi. Úlfar er fulltrúi vinstri öfga. Til hægri eru öfgasamtök sem kalla sig Frjáls land.

Á vefsíðunni Kjarnanum fór Úlfar Þormóðsson rithöfundur illum orðum um okkur sem töluðum um varnar- og öryggismál Íslands á fundi ungliða Varðbergs í Háskólanum í Reykjavík fimmtudaginn 23. júní ( upphafspunkta mína má sjá hér ).

Í tilefni af grein Úlfars segir Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrv. þingmaður Samfylkingarinnar, í grein 28.júní á Kjarnanum :

„En svo kemur allt í einu svona grein frá Úlfari Þormóðssyni sem enn er ráfandi um í sinni Keflavíkurgöngu [mótmælaganga gegn varnarliðinu í kalda stríðinu]. Á Úlfari má helst skilja að mesta ógnin sem steðji að öryggi Íslands komi frá Nató og Bandaríkjamönnum en ógnin frá Rússum sé stórlega ýkt. Framferði Rússa er átalið fyrir siðasakir...“

Öfgamenn til hægri og vinstri sameinast stundum í afstöðu gegn heilbrigðri skynsemi. Úlfar er fulltrúi vinstri öfga. Til hægri eru öfgasamtök sem kalla sig Frjáls land. Blogg þeirra birtist meðal annars á mbl.is Þar var þriðjudaginn 28. júní fjallað um leiðtogafund G7-ríkjanna í Bæjaralandi um liðna helgi og ríkisoddvitafund NATO í Madrid nú þessa dagana. Nafnlausi bloggarinn segir tilgang þessara funda „að efla óvinamyndina af Rússaskrímslunum og gera stríðsmang NATO og ESB kræsilegra“. Til að herða á andróðri gegn Rússum ausi vestrænir fjölmiðlar „út falsfréttum um manndráp Rússa en þegja yfir hryðjuverkum Úkraínustjórnar“.

220629c-001Fjölskyldumyndin við upphaf ríkisoddvitafundar NATO í Madrid 29. maí 2022,

Bloggarinn segir að miðlarnir hafi sagt í byrjun G7-fundarins að Rússar hefðu sprengt íbúðablokk í Kyív en það hafi verið „skotfærageymsla á vegum Úkraínustjórnar nálægt íbúðablokk“. Þá er borið blak af árás Rússa mánudaginn 27. júní á fjölsótta verslanamiðstöð í bænum Kremenstjúk í miðhluta Úkraínu þar sem að minnsta kosti 18 manns féllu í valinn. Ljósmyndir sýni að miðstöðin hafi verið „nær ónotuð og örfáir bílar á bílastæðum“. Þar hafi eldur greinilega byrjað „bakhliðinni“. Nálægt hafi verið „geymd vopnasending frá NATO og ESB sem var skotmark Rússanna, sprengingar í henni virðast hafa kveikt í verslunarhúsnæðinu“.

Klykkt er út með því að svo „virðist sem Úkraínustjórn leitist við að geyma þau [þúsundir tonna af vestrænum vopnum] í nálægð íbúðabyggðar til að geta búið til fréttir af árásum Rússa á saklausa borgara“.

Þessi ömurlegi texti er til marks um hvernig hatur á samtakamætti frjálshuga ríkja villir mönnum sýn, þeir taki að breiða út lygina sem borin er á borð af rússneskum áróðursmiðlum til að blekkja eigin þjóð vegna blóðugra voðaverka hermanna hennar í Úkraínu að boði öfgafulls einræðisherra sem einskis svífst.

Tómas Guðmundsson skáld orti 1948:

Og ofbeldishneigðin, sem herjar á þjóðir og lönd,

fær hvergi dulist, hve títt sem hún litum skiptir.

— Í gær var hún máske brún þessi böðulshönd,

sem blóðug og rauð í dag sínu vopni lyftir.