23.6.2022

Staðan í öryggismálum Íslands

Inngangsorð ungliðadeild Varðbergs, 23. júní 2022 – fundur í Háskólanum í Reykjavík

1. Það er rangt sem haldið var fram að innrásar Pútins í Úkraínu yrði ekki hernaðarlega vart hér á Norður-Atlantshafi og ekki þyrfti að huga að öryggismálum Íslands á nýjan hátt í ljósi hennar. Mikilvægi rússneska Norðurflotans sem sækir út á Atlantshaf frá Kólaskaganum fyrir austan Noreg eykst eftir því sem styrkur landhers Rússa minnkar. Sýnir Pútin vald sitt með þessum flota? Enginn getur svarað þeirri spurningu. Ferðum rússneskra kafbáta í nágrenni Íslands fjölgar. Mikilvægi GIUK-hliðsins eykst.

Til marks um aukna áherslu á varnir og kafbátaleit á N-Atlantshafi má nefna að sunnudaginn 19. júní birtist á bresku vefsíðunni The Telegraph frásögn um nauðsyn þess að auka enn kafbátaeftirlit breska flughersins og flotans. Í dag (23. júní) var samþykkt í utanríkismálanefnd danska þingsins að senda freigátu sem fylgdarskip með bandarísku flugmóðurskipi sem verður sent á vettvang til að auka fælingarmátt á N-Atlantshafi.

2. Okkur skortir hins vegar aðila, fræðilegan og innan stjórnkerfisins, sem hefur það verkefni að afla upplýsinga og leggja mat á breytingar sem snerta ytra öryggi ríkisins og gera tillögur til stjórnvalda um aðgerðir vegna þeirra. Að því er varðar netöryggi gegnir í ýmsu tilliti öðru máli, hér í þessum orðum er litið fram hjá því.

Þegar um er að ræða aðrar hugsanlegar hættur: Eldgos og eldingar; gosefni – öskufall, gasmengun og -dreifingu; jarðskjálfta; snjóflóð, jökulhlaup; flóð í ám og vötnum; aurskriður; fárviðri, kuldi og sjávarflóð og sjóslys er staðið skipulega að verki eins og sjá má á vefsíðu veðurstofunnar. Þar segir að til að bregðast megi sem best við hættum af þessu tagi þurfi allir að undirbúa viðbrögð sín.

Hvergi er að finna neina sambærilega viðvörun vegna hættu sem snertir ytra öryggi. Enginn hópur sérfræðinga eða annarra hefur lög- eða samningsbundið hlutverk í því efni.

Sjálfstætt sérfræðilegt mat situr á hakanum.

1347568Frá flotaæfingu á vegum NATO

3. Þegar að skipulagningu viðbragða gegn ytri ógn kemur er ábyrgðarkeðjan óljós.

Í nýlegri úttekt ríkisendurskoðunar á verkefnum og fjárreiðum Landhelgisgæslu Íslands er bent á að nú sinni gæslan viðamiklum og stækkandi varnartengdum verkefnum á grundvelli þjónustusamnings milli utanríkisráðuneytisins og landhelgisgæslunnar með aðild dómsmálaráðuneytisins. Í skýrslunni er talið að taka þurfi „til skoðunar“ hvort það fyrirkomulag tryggi að „ábyrgðarkeðja sé skýr, bæði í faglegum og fjárhagslegum skilningi“.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins staðfestir í áliti sínu að „vægi og umsvif varnarmála“ hafi aukist í starfsemi gæslunnar undanfarin ár og ekki sé „útlit fyrir annað en að sú þróun haldi áfram, sérstaklega í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu“. Fyrir nefndinni hafi komið fram að samstarf gæslunnar, dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis um varnar- og öryggismál „hafi almennt gengið vel“.

Tekur nefndin hins vegar undir þá tillögu ríkisendurskoðunar að áður en gildistími núverandi samnings rennur út, 31. desember 2026, „verði tekið til skoðunar hvort gerð þjónustusamnings um jafn viðamikil verkefni sé farsæl leið að því marki að skýr ábyrgðarkeðja í faglegum og fjárhagslegum skilningi sé tryggð“.

Hvergi er mikilvægara en á sviði varnar- og öryggismála að „ábyrgðarkeðjan“ sé skýr. Af skýrslu ríkisendurskoðunar og áliti stjórnkerfis- og eftirlitsnefndar alþingis verður ráðið að ekki dugar lengur að skilgreina hlutverk gæslunnar vegna varnartengdra verkefna með þjónustusamningi. Þegar hann var upphaflega gerður var um úrræði til bráðabirgða að ræða.

Nú ber að lögfesta þetta hlutverk landhelgisgæslunnar og nota tímann til 2026 til að ljúka því verkefni. Þar verði tekið af skarið um þátttöku hennar í flotaæfingum og í fjölþjóðlegu samstarfi flota sem snýr að vörnum Norður-Atlantshafs. Meginhlutverk gæslunnar, eftirlit ásamt leit og björgun í hafi, er á verksviði hermálayfirvalda nágrannalandanna.

Utanríkisráðuneytið gegnir mikilvægu hlutverki við stefnumótun og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og samráði um varnarmál. Skipulag aðgerða og framkvæmd er í höndum annarra, íslenskar stofnanir sinna aðeins borgaralegum verkefnum. Í þessum málaflokki ber að virða verkaskiptingu innan stjórnarráðsins.

Landhelgisgæslan gegnir lykilhlutverki vegna varnartengdra verkefna. Taka verður af skarið um þetta hlutverk hennar með lögum í stað þjónustusamnings.