19.12.2022 9:19

Nýsköpun á matarmarkaði

Við hittumst nú að nýju á matarmarkaðnum í Hörpu þar sem Jamie Lai Boon Lee kynnti framleiðslu fyrirtækis síns Kraftur úr hafinu eða Fine Foods Íslandica.

Myndin sem hér fylgir er tekin á Matarmarkaði Íslands í Hörpu sunnudaginn 18. desember. Hlédís Sveinsdóttir sem samdi landbúnaðarstefnuna Ræktum Ísland! í fyrra með mér er annar eigandi markaðarins. Hún segir í Morgunblaðinu í dag (19. desember) að þrátt fyrir vont veður laugardaginn 17. desember og að brunakerfi Hörpu hafi farið í gang um klukkan 16.30 á sunnudeginum hafi markaðurinn gengið vel ­– kerfið for í gang vegna bilunar.

Þegar veðrið varnað Íslendingum að komast í Hörpu fram eftir laugardeginum voru að sögn Hlédísar erlendir ferðamenn áberandi á markaðnum. Hún segir:

„Við fengum líka fjölmarga erlenda gesti sem voru að fjárfesta í matarhandverki. Það var svolítið merkilegt að þeir ferðamenn sem voru fastir á höfuðborgarsvæðinu skiluðu sér í Hörpu og gerðu sér glaðan dag þar, með mat og drykk á staðnum.“

Er ekki nokkur vafi á því að vegna fjölda erlendra ferðamanna í landinu dafnar nýsköpunin í íslenskri matvælaframleiðslu betur en ella væri. Varð jafnánægjulegt að kynnast henni þarna í Hörpu eins og þegar við Hlédís unnum að stefnumótuninni í umboði Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í um eitt ár frá ágúst 2020 til ágúst 2021.

Við undirbúning stefnunar fórum við meðal annars á kynningarfundi um land allt með ráðherranum. Hér má lesa lýsingu mína á fundi á Ísafirði 2. júní 2021. Þar segir meðal annars:

„Fundinn á Ísafirði sótti grafíski hönnuðurinn Jamie Lee. Fædd í San Fransisco, alin upp í Hong Kong og býr nú á Króksfjarðarnesi, í litlu þorpi á nesinu á milli Króksfjarðar og Gilsfjarðar. Hún stundar meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun, þverfaglegt meistaranám á sviði auðlindastjórnunar, í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði. Á fundinum kynnti hún á íslenskun og ensku mikilvægi þess að rækta og vinna þang og sagði skorta lagaumgjörð á þessu sviði. Vegna þess að opinbera umgjörð skorti stæði Ísland að baki þeim sem náð hefðu lengst í þessu efni þrátt fyrir ómæld tækifæri til nýtingar og verðmætasköpunar úr þangi hér.“

Í frásögninni af fundinum kemur einnig fram að Jamie Lee hafi upphaflega komið hingað sem bakpokaferðamaður en búið hér síðan 2018.

319906828_1210625276333646_6234523951614986969_nMeð Jamie Lai Boon Lee á Matarmarkaði Íslands 18. desember 2022 (mynd: Hlédís Sveinsdóttir).

Við hittumst nú að nýju á matarmarkaðnum í Hörpu þar sem Jamie Lai Boon Lee kynnti framleiðslu fyrirtækis síns Kraftur úr hafinu eða Fine foods ÍSLANDICA. Tók Hlédís þessa mynd af okkur en Jamie Lee sagðist nú búa á Hólmavík. Hún hefur fengið ýmsa styrki til þaravinnslu sinnar og vöruþróunar.

Lokaorðin í pistlinum um fundinn á Ísafirði 2. júní 2021 voru þessi:

„Áhuginn á nýsköpun og heillandi nýtingu á því sem íslensk náttúra hefur að bjóða er óendanlegur. Verði Ræktum Ísland! og hugmyndafræðin þar til þess að opna nýjar leiðir og ryðja gömlum hindrunum á brott er til mikils unnið.“

Hér skal þessi skoðun endurtekin. Það þarf að gera meira til að kynna þessa nýsköpun og þá miklu ástríðu sem henni fylgir. Matmarkaðurinn er vel heppnuð leið til slíkrar kynningar. Fleiri aðferðum þarf að beita.