Æður, fjallarefur og þang á Ísafirði
Raunar á það við um margt sem segir í skjalinu að ekki næst sátt um það sem þar er sagt og boðað án þess að leitað sé hæfilegs jafnvægis.
Annar kynningar- og umræðufundurinn um Ræktum Ísland!, umræðuskjalið um landbúnaðarstefnu 21. aldarinnar var í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði klukkan 20.00 miðvikudaginn 2. júní.
Margir tóku máls eftir að við höfðum kynnt skjalið. Allt er það skráð og verður haft til hliðsjónar við starfið sem hófst undir forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrir þremur árum til að feta sig áfram til sameiginlegrar niðurstöðu um landbúnaðarstefnuna.
Myndin sem tekin var af hópnum sem tekur þátt í
kynningunni á fundinum og átti þátt í gerð umræðuskjalsins og birtist hér með sýnir
að það var blíðviðri á Ísafjarðarflugvelli þegar við lögðum upp þaðan að morgni
fimmtudags 3. júní.
Kynningarhópurinn Ræktum Ísland! á Ísafjarðarflugvelli 3. júní 2021. Frá vinstri: Sigurður Eyþórsson. Sigurgeir Þorgeirsson, Björn Bjarnason, Hlédís H. Sveinsdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Bryndís Eiríksdóttir (mynd: Gunnar Ati Gunnarsson)
Var ævintýralegt að sjá æðarfuglinn liggja á hreiðrum sínum við flugvöllinn og spígspora með unga sína um hann. Flugvélarnar eru ekki eins miklir ógnvaldar við fuglinn og fjallarefurinn. Að því var fundið á kynningarfundinum að í skjalinu segir á bls. 44 þegar rætt er um líffræðilega fjölbreytni:
„Að búfé undanskildu hefur verið unnið að verndun fjallarefsins, eina upprunalega landspendýrsins á Íslandi. Hann er vissulega verðugt íslenskt framlag til líffræðilegrar fjölbreytni.“
Æðarræktanda þótti ómaklegt að við skýrsluhöfundar gerðum þessum skaðvaldi svona hátt undir höfði. Ég svaraði með því að lesa þennan texta á bls. 43:
„Þá nýtur æðarfuglinn á Íslandi sérstöðu og stuðlar að fjölbreytni sem alfriðaður nytjafugl. Ræktarsemi við varplendi hans og dúntekjur stuðlar auk þess að fjölbreyttri nýtingu lands sem annars er líklegt að legðist alfarið í eyði. Má segja að allt sem tengist íslenskri æðarrækt sé mikils virði sem framlag til líffræðilegrar fjölbreytni.“
Galdurinn er að finna jafnvægið svo að bæði fái lifað og notið sín, æðurin og refurinn. Raunar á það við um margt sem segir í skjalinu að ekki næst sátt um það sem þar er sagt og boðað án þess að leitað sé hæfilegs jafnvægis.
Fundinn á Ísafirði sótti grafíski hönnuðurinn Jamie Lee. Fædd í San Fransisco, alin upp í Hong Kong og býr nú á Króksfjarðarnesi, í litlu þorpi á nesinu á milli Króksfjarðar og Gilsfjarðar. Hún stundar meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun, þverfaglegt meistaranám á sviði auðlindastjórnunar, í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði. Á fundinum kynnti hún á íslenskun og ensku mikilvægi þess að rækta og vinna þang og sagði skorta lagaumgjörð á þessu sviði. Vegna þess að opinbera umgjörð skorti stæði Ísland að baki þeim sem náð hefðu lengst í þessu efni þrátt fyrir ómæld tækifæri til nýtingar og verðmætasköpunar úr þangi hér.
Á netinu má meðal annars sjá samtal við Jamie Lee í sjónvarpsstöðinni N4 og kynnast því hvernig hún heillaðist af landinu þegar hún kom hingað sem bakpokaferðamaður í fyrsta sinn fyrir um það bil sex árum en hér hefur hún síðan búið frá 2018.
Áhuginn á nýsköpun og heillandi nýtingu á því sem íslensk náttúra hefur að bjóða er óendanlegur. Verði Ræktum Ísland! og hugmyndafræðin þar til þess að opna nýjar leiðir og ryðja gömlum hindrunum á brott er til mikils unnið.