Sunnudagur 17. 08. 14
Ástæða er til að fagna hugmyndum sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður flokksins, ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, hafa hreyft um að skipta innanríkisráðuneytinu og stofna sérstakt dómsmálaráðuneyti að nýju.
Að mínu mati og annarra sem þekkja til starfa dómsmálaráðuneytisins var mjög óskynsamlegt að stíga það skref sem Jóhanna Sigurðardóttir og stjórnarmeirihluti hennar gerði þegar dómsmálaráðuneytið var aflagt. Fyrir því voru engin efnisleg rök.
Aðförin að stjórnarráðinu og dómsmálaráðuneytinu sérstaklega einkenndist af pólitískri skemmdarfýsn í ætt við tilraunina til að kollvarpa stjórnarskrá lýðveldisins. Látið var eins og haustið 2008 hefðu þeir atburðir gerst hér með gjaldþroti banka að réttlætanlegt væri að vega að ýmsum grunnstoðum stjórnkerfisins.
Umboðsmaður alþingis hefur að eigin frumkvæði hafið könnun á ýmsum stjórnsýsluþáttum sem snerta lekamálið svonefnda. Eitt er að velta fyrir sér framkvæmd stjórnsýslulaga, bókun funda, skráningu fundargerða og setningu siðareglna. Vissulega er ástæða til að brýna fyrir mönnum nauðsyn þess að ýmis grunnatriði á þessu sviði séu virt í stjórnsýslunni. Spurning er hvort umboðsmaður hafi skoðun á aðför Jóhönnu og félaga að stjórnarráðinu sjálfu og dómsmálaráðuneytinu sérstaklega.
Ég skrifaði pistil hér á síðuna um síðustu atburði í lekamálinu og má lesa hann hér. Ég sendi hann einnig út á póstlista minn sem ég hef ekki notað mánuðum saman. Auðvelt er að skrá sig á póstlistann hér á síðunni og einnig að afskrá sig. Líklegt er að ég færi skrif mín meira hér á þessa síðu. Evrópuvaktin kom til sögunnar vegna ESB-umsóknarinnar. Nú er umsóknin efnislega dauð, aðeins á eftir að kasta rekunum. Er furðulegt hve lengi það vefst fyrir utanríkisráðherra hvenær og hvernig hann ætlar að gera það.